29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. fjmrh. beindi til mín nokkrum orðum í ræðu sinni í dag, þar sem hann var að segja frá því, hvað okkur hefði farið á milli, mér og honum, í eldhúsumr. í fyrra. En af því frásögn hans var ekki alveg rétt, verð ég að leiðrétta hann nokkuð. Hann hélt því fram, ekki einungis í eldhúsumr., heldur alltaf á því þingi, að hann áætlaði gjöldin þá í fyrsta sinn eins og þau mundu verða; því væri það alveg rangt af okkur að finna fjárl.frv. það til foráttu, að það væri hátt. Ég svaraði honum því, að það væri ekki í fyrsta sinn, sem þetta væri reynt, og það er satt. Það hefir jafnan verið regla allra fjmrh. að halda því fram, að tekjurnar væru áætlaðar svo gætilega og gjöldin svo hátt, að allt mundi standast, en fyrir öllum þeim 9 fjmrh., sem ég hefi verið samtíða á þingi, hefir farið svo, að áætlun þeirra hefir ekki staðizt, og því sagði ég, að það væri barnaskapur, að nú væri fremur en áður fenginn ábyggileg fjárl. Hæstv. ráðh. þótti þetta ósvífni af mér, en nú verður hann þó að viðurkenna, að áætlanir hans hafa ekki staðizt. Ég er ekki að ásaka hann fyrir þetta; það sér enginn heilt ár fram í tímann. En ég ásaka hann fyrir þann gorgeir, er hann sýndi þá með því að þykjast vitrari en allir aðrir.

Það er alveg rétt hjá honum, að fjvn. hefir nú fært allmikið upp áætlun fjárl., en þrátt fyrir það, þó gjöldin séu nú áætluð svo há sem fært er, þá er ég ekki í neinum vafa um það, að greiðslurnar muni fara fram úr þeirri áætlun. Það getur vel verið, að hæstv. fjmrh. haldi því enn fram, að nú séu gjöldin áætluð rétt, en ég er viss um, að sá spádómur hans rætist ekki. Fjárl. nú munu ekki reynast réttari en þau reyndust á yfirstandandi ári. Hann sagði, að Framsfl. væri sá eini flokkur, sem vildi hafa hagstæðan greiðslujöfnuð við útlönd, og þess vegna hefði sá flokkur barizt fyrir innflutningshöftum. Ég vil minna hann á það, að ég varð fyrstur manna hér á þingi til þess að bera fram frv. um að takmarka innflutninginn. Það frv. var samþ. á þinginu 1920, og giltu þau l. til ársins 1933. Sannleikurinn er sá, að engum dettur í hug, að það geti blessazt til lengdar, að halli sé á viðskiptunum við útlönd, en um hitt hefir ágreiningurinn staðið, á hvern hátt koma ætti í veg fyrir þann halla. Hæstv. ráðh. fór alveg rangt með í þessu efni. Hann sagði, að þegar Framsfl. væri búinn að berjast fyrir einhverju máli í mörg ár, þá færi oftast svo, að hinir flokkarnir féllust á hans málstað að lokum. En hann verður bara að finna eitthvert annað dæmi en þetta, ef hann ætlar að sanna þá fullyrðingu. (Fjmrh.: Ég geri mig ánægðan með þetta dæmi og mun endurtaka það). Hæstv. ráðh. getur það ekki. Þingtíðindin frá 1920 sýna sig. Þau sanna, að ég hefi fengið samþ. l. um að takmarka innflutning, og hefi ég þó aldrei verið í Framsfl. Og ef hann heldur samt áfram að nota þetta sönnunargagn, þá má hann það; ég öfunda hann ekki af því. Annars ætla ég ekki að fara langt út í þetta atriði, það er hv. 1. þm. Reykv., sem hér stendur fyrir svörum fyrir hönd sjálfstfl., og ég þarf ekki að hjálpa honum, en af því það stendur í aths. hæstv. ráðh. við þetta frv., að tekjunum sé ætlað að mæta gjöldum, sem nefnd eru hér á bls. 5 og eru kartöfluverðlaun, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda, til íbúðalánasjóðs, ofviðristjónið og ýmislegt fleira, þá vil ég geta þess, að þetta er ekki rétt, því fjvn. hefir einmitt unnið að því að lækka gjöld fjárl. til þess að hægt sé að mæta þessum liðum. Það, sem vantar nýjar tekjur fyrir, er því aðeins tvennt, en það er alþýðutryggingarnar og nýbýlamálið. ef þau frv. eiga fram að ganga. Stjórnin veit það vel, og var það strax ljóst eftir að hún fékk skýrslur frá hæstv. ráðh., að það þurfti að afla tekna vegna þeirra liða, sem nefndir eru í grg. þessa frv., og hún hefir fyrir löngu tekið upp það ráð, að lækka ýms útgjöld fyrir þeim. Ég vissi ekkert um það fyrr en ég las það í blöðum stj., að von væri á frv. um nýja tekjuauka og ný gjöld önnur en þau, sem leitt gat af nokkrum frv., sem liggja fyrir þinginu og óvíst var um, hvort næðu fram að ganga. Fjvn. hefir setið með sveittan skallann við að reyna að lækka útgjöld ríkisins á meðan stjórnarflokkarnir hafa verið að gera samninga um nýjar álögur og ný gjöld. Ég ætla, að það sé nokkurn veginn rétt hjá hæstv. ráðh., að fjvn. hafi nú lækkað fjárl. um eina millj. kr., og móti þeirri lækkun ætlaði hún að taka flesta þá gjaldaliði inn í fjárl., sem nefndir eru í grg. þessa frv. hér er því á ferðinni hrein og bein svikamylla gegn fjvn., a. m. k. minnihl. hennar, því við hana hefir aldrei verið talað um nýja tekjustofna nema e. t. v. benzínskatt, sem nú er sagt, að eigi líka að koma, og á það að vera helmingshækkun á þeim skatti, sem nú gildir, en út í það ætla ég ekki að fara hér.

Þá var hæstv. ráðh. að segja, að við sjálfstæðismenn mundum hvorki þora að vera með eða móti frv. um alþýðutryggingarnar og um nýbýlin, af því það væru svo góð mál. Ég ætla nú að segja honum það hreinskilnislega, að jafnvel þó þetta séu góð mál, þá sé ég ekki, að landsmenn hafi ráð á því, eins og nú standa sakir, að taka á sig nýja bagga þeirra vegna. Það er öllum ljóst, að allar tekjur í ríkissjóðinn hljóta að koma eingöngu frá framleiðendunum. Annarsstaðar frá geta þær ekki komið. Það er ekki nóg að segja, að þetta séu nauðsynleg mál; það þarf líka að vera hægt að framkvæma þau, ef þau eru samþ., og það þarf að athuga, hvort ekki er slegið meira í stykki með því að framkvæma heldur en að láta það vera. Margar þjóðir hafa eyðilagt fjárhag sinn með því að færast það í fang, sem geta þeirra hefir ekki þolað, og margir efnilegir bændur hafa sett sig á höfuðið með því að framkvæma meira en þeir voru menn fyrir. Það þarf að vera hóf í því eins og hverjum öðrum hlut. Það er líka auðséð, að jafnvel stjórnarflokkunum sjálfum er farið að ofbjóða; ég ræð það af því, að jafnaðarmennirnir í fjvn. hafa gengið inn á að lækka framlagið til verkamannabústaða um 70 þús. kr., og framsóknarmenn hafa fallizt á að lækka framlagið til byggingar- og landnámssjóðs. Og þetta hvorttveggja eru mál, sem þessir flokkar hafa barizt fyrir. Ég viðurkenni, að alþýðutryggingarnar og nýbýlin eru vissulega nauðsynjamál, en það er bara ekki hægt að gera allt í einu. Og svo vil ég spyrja hv. stjórnarflokka, hvað þeir ætli til bragðs að taka eftir eitt ár. Frv. það, sem hér liggur fyrir, á aðeins að gilda eitt ár. Alþfl.mennirnir segjast vera óánægðir með það. því það sé kominn í það óhreinn andi frá framsóknarmönnum, og framsóknarmenn segjast líka vera óánægðir, því illur andi frá jafnaðarmönnum sé kominn í frv. En móti þessu bráðabirgðatekjufrv. á svo að samþ. frv., sem hafa í för með sér varanleg útgjöld, hver veit hve lengi. Hvaða tekjur ætla þessir flokkar sér að útvega næst móti þeim gjöldum? Það væri æskilegt að heyra. Jafnaðarmaður, sem stendur framarlega í sínum flokki, sagði við mig í gærkvöldi, að hann gæti ekki hugsað til, að þetta frv. gilti nema fyrir næsta ár, og mér skildist það á hv. 4. landsk„ að kaffi- og sykurtollurinn væri ekki hugsaður nema til allra stytztu bráðabirgða. Hvað hugsa þeir sér á næsta ári? Væntanlega dettur þeim ekki í hug, að hægt sé að komast hjá því, að semja fjárl. fyrir árið 1937. Ég vona, að þeir hv. þm., sem hafa tekið að sér að verja þessi mál, svari því, hvar á að taka tekjur framvegis upp í þessi nýju gjöld. Það lítur ekki út fyrir, að þetta frv. eigi að gilda til langframa, en með hverju á að borga? Svo heyrði ég ekki betur en að hæstv. fjmrh. væri að tala um tekjurýrnun á árinu 1936 frá því, sem er á yfirstandandi ári. Það eru ekki beinlínis meðmæli með því að skapa ríkissjóði ný varanleg útgjöld. Hæstv. fjmrh. veit, að fjvn. er búin að búa til áætlun um tekjuliði fjárl., og það voru ekki nema örfáir liðir, sem hann gerði aths. um, að væru of háir. Ég gat ekki fundið annað en fjvn. áætlaði tekjurnar mjög varlega, og get ekki búizt við, að sú áætlun svíki, nema óvenjuleg óhöpp komi fyrir.

Það væri dálítið freistandi að tala um lýðræðishliðina á þessu máli, sem hæstv. ráðh. var að minnast á. Það væri kannske ekki fráleitt að minna hann á það, að ekki helmingur kjósenda í landinu stendur að baki þessu frv., nema telja eigi með nasista og kommúnista. En að baki andstöðuflokkum stj. stendur talsvert stærri hópur kjósenda en stjórnarflokkarnir hafa, og svo má bæta því við, að bæði hæstv. ráðh. og hv. 4. landsk. hafa lýst því yfir, að þeir væru óánægðir með frv. Ef þeirra flokkar væru ekki bundnir meirihlutasamþykki, sem gerð hefir verið bak við tjöldin, þá mundi þetta frv. eflaust falla, en vegna meirihlutasamþykktar standa þeir nú saman að öllum ákvæðunum, sem þeir eru þó allir að einhverju leyti óánægðir með. Þar fyrir utan eru svo 20 sjálfstæðismenn, sem ég geri ráð fyrir, að allir séu móti frv.

Þá var hv. 4. landsk. að hreyta til mín ónotum út af slæmu stjórnarfari á árunum frá 1932 til 1934. Ég hirði ekki um að svara honum, þar sem hann er ekki viðstaddur, en ég get bent á það, að árið 1933, sem var eina heila árið á því tímabili, sem ég var nú síðast í stjórn, sker sig alveg úr hvað snertir rekstrarreikning ríkissjóðs, því þegar hann kom, var hann hagstæðari fyrir ríkissjóð heldur en fjárlög þess árs eins og Alþingi lagði þau í hendur stj. M. ö. o. það var minni rekstrarhalli á reikningnum heldur en tekjuhalli fjárl.

Ég ætla svo ekki að fara hér um fleiri orðum, og líklega tek ég ekki aftur til máls við þessa umr. þar sem ég þarf að sitja á fundi fjvn. það sem eftir er í kvöld.