29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Jónason [óyfirl.]:

Það er í raun og veru ákaflega lítið, sem ég þarf að segja, þó ég kunni betur við að kveðja mér hljóðs, af því hæstv. ráðh. og hv. 4. landsk. eru báðir búnir að svara mér, en sannleikurinn er sá, að ekkert nýtt kom fram í ræðum þeirra, sem ekki hafði verið í þeirra frumræðum. Auk þess hefir hv. 1. þm. Skagf. svarað þeim rækilega, einkum hæstv. fjmrh., svo ég býst ekki við að bæta miklu við.

Hæstv. ráðh. vildi alveg mótmæla því, sem ég sagði, að það væri einræðisblær á framkomu stjórnarflokkanna í þessu máli, og vitnaði í önnur lönd, þar sem flokkar kæmu sér saman um afgreiðslu mála. Mér kemur ekki til hugar að átelja það, þó stjórnin leitaði samkomulags, ekki aðeins við sína stuðningsmenn, heldur meira að segja við þm. annara flokka, um framgang góðra mála, eins og gerðist í Danmörku þegar kreppulöggjöfin var þar sett með samvinnu allra flokka. Slíkt er ekki nema eðlilegt. En það, sem hér ber einræðisblæ, eru vinnuaðferðir stjórnarflokkanna, þessi sérstaklega lýðræðislega framkoma, sem lýsir sér í því, að hæstv. ráðh. og hv. 4. landsk. skirrast ekki við að lýsa því yfir við 1. umr. máls, að þetta og þetta verði nú samþ. í þinginu, sem væri bara nefnt í grg. og ætti að ganga fram, en ætti ekki að sjást í frv. Og þeir ættu sóma síns vegna að leggja niður að tala um lýðræði, því mál þetta er samið af nefnd og samþ. innan stjórnarflokkanna, vegna þess að þeim er sagt að samþ. það. Það er nákvæmlega sami blærinn og hjá Hitler, sem kveður saman þing til að hlusta á eina ræðu, og sendir þm. síðan heim.

Hv. 1. þm. Skagf. hefir bent á, hve sterkir stjórnarflokkarnir eru þarna á svellinu. Þeir hafa látið heita svo, að þeir hefðu meiri hl. kjósenda á bak við sig í landinu, en það er nú bara ekki svo; þeir sitja í stjórn með minni hluta kjósenda að baki. Það er þess vegna ákaflega óviðfelldið, að þeir skuli ganga framhjá Sjálfstfl., sem hefir eins marga kjósendur og báðir þessir flokkar til samans. (JBald: Ekki er það rétt). Jæja, það minnir mig samt. Að þeir skuli hafa gengið framhjá honum, þar sem hann hefir alls ekki sýnt það í starfi sínu t. d. í fjvn. eða öðru, sem gæfi stjórnarflokkunum neitt tilefni til slíkrar framkomu. Náttúrlega verður ríkisstj. að grípa til sinna ráða, ef nauðsyn krefur, eða hún getur ekki tekið tillit til annara flokka, en það er ekkert tapað við að gefa andstöðuflokkum kost á að fylgjast með.

Ég skal lofa hæstv. fjmrh. að vera montnum af sinni haftastefnu; e. t. v. hefir það mistekizt mest allra mála. Ég held nærri því mér sé óhætt að fullyrða, að síðan ég kom fyrst á þing, þá hafi ég varla nokkru sinni séð takast svo óhöndulega um nokkra framkvæmd. Það hafa verið sett ný og ný lög og reglugerðir um ný og ný höft, og nú þykjast þessir menn geta sagt, að nú séu þeir búnir að sigra, og mér skildist hæstv. ráðh. meina það, að þessi stefna væri svo sigurvænleg, að aðrar þjóðir væru búnar að taka hana upp eftir okkur.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að það er náttúrlega allt annað að standa á móti stefnu eða standa eins og eintrjáningur eða glópur, sem ekki sér, hvað er að gerast í kringum okkur. Það hefir verið lýst hér samþ. verzlunarþingsins.

Ég held, að hún sé ekkert annað en heilbrigð játning þess, að við verðum nauðugir viljugir að dansa með. En það er nú dálítið annað, að dansa með eða byrja á að espa upp á móti okkur viðskiptaþjóðir okkar; við sem erum sú þjóð, er mest allra þjóða eigum undir utanríkisverzlun, og þess vegna þurfum allra þjóða helzt að njóta frjálsrar verzlunar og eigum því sízt að ganga á undan með höft.

Það er einnig af öðrum ástæðum, sem samþ. var gerð á verzlunarþinginu og ég hélt, að aðaláherzlan hefði verið lögð á, eftir því, sem fram hefir komið í blöðum. Það hefir sem sé komið fram megn grunur um, að beitt sé hlutdrægni við úthlutun innflutningsleyfanna. Það er eðlilegt, ef kaupmenn sjá hlutdrægni í þessum úthlutunum, að þeir segi, að höftin séu til lítils, ef önnur verzlunarstefna fær innflutningsleyfi eftir vild.

Ég skal ekkert um dæma, hvort svo hefir verið, en mér virðist, eftir ræðu hæstv. fjmrh., að ef hann reði úthlutuninni, þá væri hann hlutdrægur, eða ég get ekki annað fengið út úr orðum hans um, að samvinnufélögin ættu að fá sín leyfi eftir þörfum, en um hitt gerði hreint ekkert til. Auðvitað álítur sá maður, sem þannig talar, að innflutningurinn eigi ekki að vera annað en brennivín og tóbak, sem ríkið þarf að græða á, og svo til uppáhalds Framsfl., samvinnufélaganna. Það fer því að verða skiljanlegt, að nefnd sú, sem starfar í jafnnánu samstarfi við fjmrh. og innflutningsnefnd gerir, hafi dálitla tilhneigingu til þess að vera ekki sem réttlátust.

Þegar hæstv. ráðh. talar um árangur innflutningshaftanna, þá talar hann um, hvað innflutningurinn hafi hækkað frá næsta ári á undan, en ekki hvort innflutn. haldi í horfinu við það, sem var áætlað; en það er einmitt það, sem maður þarf að vita. Samanburður milli ára er algerlega gagnslaus og óábyggilegur, enda kemur ekki við neinum höftum, því hann hækkar eða lækkar eftir árferði; það er fjölda margt, sem kemur þar inn í, þó engin höft komi til greina, t. d. fallandi verðlag innlendra afurða o. s. frv. Þá eru það sviknir útreikningar, sem gefnir eru fyrir þetta ár; t. d. er Sogið alltaf dregið frá. Ég veit ekki, hvaða sérstöðu það hefir í innflutningnum. Það mætti alveg eins taka eitthvað, t. d. byggingarefni til Rvíkur eða eitthvað annað, og segja svo, að innflutningurinn sé þetta mikill að frádregnu því.

Sogsvirkjunin er ekki annað en stórbrotin framkvæmd, eins og stöðugt er verið að vinna að á hverju ári alstaðar, þar sem þjóðirnar eru ekki dauðar úr öllum æðum.

Auðvitað á að reikna innflutning til Sogsins með, þó til virkjunarinnar hafi verið tekið erlent lán og gjaldeyririnn sé því nú í svipinn utanlands.

Þ. e. annar samanburður, sem hæstv. fjmrh. á að hafa, og þ. e. samanburður á því plani, sem hann og form. gjaldeyrisnefndar gerði í byrjun ársins. Ég hefi nú ekki fundið þessar greinar, en ég man ekki betur en formaðurinn gerði ráð fyrir, eftir áætluðum útflutningi, að ekki mætti flytja inn meira en fyrir 32 millj. En nú lítur út fyrir, að hann verði 45—46 millj. kr., og ekki kæmi mér á óvart, þó upphæðin yrði nokkru hærri, þegar gefnar verða út verzlunarskýrslur fyrir árið 1935.

Þetta kalla ég, að framkvæmd innflutningshaftanna hafi brotnað niður.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um, að útflutningurinn hefði brugðizt. Það kemur þessu máli ekkert við, en það er nú svo gott að vita, að hann verður heldur meiri en gert var ráð fyrir í áætluninni. Það er vitanlega gott að áætla varlega, en það er ekki yfir miklu að gorta, ef langt fer fram úr áætlun. Hæstv. fjmrh. hefir nú fengið tvær kennslustundir í lífsreynslu. Honum hafa brugðizt vonir um að koma á greiðslujöfnuði fyrir næstu áramót, þó að hann þræti nú fyrir að hafa haft þessi orð í fyrra, því það getur vel verið, að því hafi verið breytt. Ég spurði hann þá ákveðið um þetta, og tók hann einmitt sérstaklega fram, að minni spurningu væri auðvelt að svara, að það mundi verða um næstu áramót. Ég er ekki að segja, að þetta séu nein ósköp, að geta ekki við þetta staðið, en mér þykir undarlegt að geta ekki við þetta kannazt, þó honum tækist ekki að hefta gang lífsins.

Hin kennslustundin, sem hæstv. ráðh. hefir fengið, er sú, að honum hefir ekki tekizt að búa til fjárl., sem stóðust, en það leit út fyrir við útvarpsumr. hér í fyrra, að hæstv. fjmrh. væri ákaflega fastur á því, að sér mundi takast það. Og hann varð þá feikilega hneykslaður, af því að ég sagði í stuttri ræðu, sem ég flutti þá, að ég væri ekki trúaður á, að þessar áætlarir hans stæðust. Ég hafði borið saman fjárl. og LR. undanfarinna ára, og leyfði mér því að halda þessu fram. við sjálfstæðismenn sögðum þá, eins og sjá má í grg. eða nál. mínni hl. fjvn., að fjöldi liða mundi fara fram úr áætlun. Nú verður hæstv. ráðh. að játa, að þetta hefir sannazt, sem við héldum þá fram, og útgjöldin í fjárl. fara fram úr áætlun.

Hæstv. ráðh. leyfði sér að segja, að Framsfl. væri fylgjandi því, að verzlunin væri sem mest í höndum samvinnufélaga, en ekki ríkis, og að þeir væru móti víðtækri ríkisverzlun. Það var gott að fá þessa játningu skjallega, og þykir mér vænt um, að hún skuli nú koma í þingtíð, eftir okkur báðum. En þetta sannar ekkert annað en það, að Framsfl. hefir verið kúskaður af samstarfsflokki sínum til að fylgja ríkiseinkasölum. Ég vil því gjarnan, að þetta sé staðfest eftir okkur báðum, og getur vel verið, að hann verði minntur á þetta síðar, þessa játningu, sem hann hefir gert.

Ég skal ekki fara út í samanburð hæstv. ráðh. um skattstigann, en það er eins og hann haldi, að skatturinn hækki aldrei, þrátt fyrir hverja hækkunina á fætur annari, en hann játaði, að hækkunin byrjaði undir eins og komið væri yfir 2 þús. kr. skattskyldar tekjur, enda sér það hver heilvita maður, þar sem grunnskatturinn er sá sami, 30 kr., en í stað 4% af afgangi, sem áður var, koma nú 3%. Svo verð ég að segja, að það er dálítið einkennilegt að bera alltaf saman gamla skattinn að viðbættum 10% viðaukaskatti, sem var settur með sérstökum lögum. En ef skattalögin sjálf eru borin saman, er munurinn alveg geysilegur, hvað eldri skattstiginn er lægri.

Hæstv. ráðh. sagðist vera hissa á því, að mér væri illa við 1. gr. frv. Mér er ekkert illa við þessa grein, en mér þykir hún nauðaómerkileg, að vera að telja upp, til hvers eigi að nota þetta fé. Það er alveg eins og þegar menn eru beðnir um að kaupa hitt eða þetta í kaupstað; margir kvabba, og maðurinn lætur peningana sitt í hvert hólf í buddunni, til þess að þeir ruglist ekki saman. Stj. getur haldið þessu áfram; það má alveg eins taka jarðræktarstyrkinn út úr og segja, að þessir peningar eigi að ganga til hans, til að gera þessa peninga vinsæla.

Þetta er ekkert nema heimska. Vitanlega ganga þessir skattar eins og aðrir í hinn sameiginlega sjóð, ríkiskassann, og eru greiddir þaðan aftur.

Ég verð að segja, að mér finnst það einkennilegt, þegar hæstv. ráðh. segir, að þessir peningar eigi ekki að fara til venjulegrar eyðslu. Hvað er eyðsla? Hvað er það í fjárl., sem er eyðsla sérstaklega fram yfir annað? Ég veit ekki betur en allir útgjaldaliðir fjárl. séu eyðsla. En hver er sá liður, sem hæstv. ráðh. þykir svo mikil skömm að, að hann kallar það eyðslu? því sker hann ekki niður slíka eyðsluliði? Er það berklavarnastyrkurinn, styrkur til atvinnubóta eða jarðræktarstyrkurinn, eða er það styrkur til Búnaðarfél. Íslands, Fiskifél., eða hver er þessi óþarfi, sem hæstv. ráðh. finnst, að sé serstök eyðsla og þessir peningar megi því ekki fara í? Ég býst við, að þessi útgjöld séu jafnheilög og aðrir liðir, og ekkert þar fram yfir.

Hv. 4. landsk. þarf ég ennþá minna að svara en hæstv. ráðh. Hann byrjaði á að atyrða einhvern látinn merkismann, fyrir austan eða vestan. Ég held, að hann hafi nefnt hann Guðmund, eða eitthvað svoleiðis, og þessum manni hefði verið ákaflega gjarnt til að skrökva. Ég veit ekki, hvað hann hefir meint með þessari sögu, en hann fékk svo mikla ást á þessum skröksögum, að ræða hans snerist mest um eitthvert skrök. Ég tek þetta satt að segja ekkert nærri mér, á meðan hann hefir ekki sannað eða sýnt fram á, að ég hafi farið með ósannindi, þó að hann með boðlátlegu brosi sínu sé að draga einhvern látinn utanþingsmann hér inn í umr. Það kemur mér ekki við.

Hann var að tala um, að það hefði verið gleði í mér yfir þessum umr. Það er fjarri því, að í mér sé nokkur gleði; hitt getur verið, að ég hafi látið einhver orð falla hér í beiskju, og hlegið í beiskju, því það hendir margan engu síður. Ég þekki ákaflega marga menn, og ekki sízt úr embættismannahóp, og ég veit ekki betur en margir þeirra, þó þeir hafi 6—8 þús. kr. í árslaun, eigi ákaflega erfitt með að láta endana ná saman. Og það er skiljanlegt, því þeir verða að svara meiru í sköttum, og það er ætlazt til meira af þeim. Þetta veit hv. 4. landsk. ósköp vel. Hann er bankastjóri, og það er ætlazt til þess af honum, að hann gefi 50 kr. í þessi samskot o. s. frv. Reynsla mín er því sú, að þessir menn, sem hafa hærri tekjur, verða að svara meiri kröfum, og þeir, sem ég þekki, allir með tölu, eiga mjög erfitt með að láta endana mætast. Það er hægt að ganga hér út um sveitir landsins og segja, að þetta séu hátekjumenn, og af þeim þurfi að taka skatta, fyrir þá, sem vilja leggja sig niður við slíkan rógburð. Ég lítilsvirði þá menn, sem gera þetta. En við hv. landsk. vitum það báðir ósköp vel, að það er alveg satt, að í erfiðleikum eiga þessir menn margir hverjir, og þá safna þeir skuldum og taka lán til að greiða opinber gjöld; þessar skuldir smáhækka svo, og ég þekki fjölda slíkra manna, sem ekki greiða sín opinberu gjöld með öðrum hætti. — Þetta eru nú hátekjumennirnir, sem heilir flokkar lifa á að fara út um sveitir landsins og segja, að séu hátekjumenn, sem megi og geti greitt háa skatta.

Ég verð að, segja, að þessir flokkar eiga skilið að súpa í botn. Það hafa margar kosningar farið fram síðan þessir flokkar tóku við völdum. sagði hv. 4. landsk., og það er dálítið einkennilegt, að kjósendur skuli fela þeim völdin hvað eftir annað. En sannleikurinn er sá, að það er hægt að afla kjósendafylgis á tvennan hátt. Það er hægt með því að fylgja fram góðum málum, og það er hægt með agitation, með því að tala svo, að gangi í fólkið, og það getur vel verið, að þessir flokkar séu lagnir á það. En það vill nú svo vel til, að Íslendingar eru ekki mjög ginnkeyptir fyrir þessum flokkum. Þeir sitja nú við stjórn með færri atkvæðum samanlagt en Sjálfstfl. einn. Það má heita, að Sjálfstfl. hafi haldið í horfinu með atkvæðamagn; ekki gengur nú skrumið betur en þetta í þjóðina.

Hv. 4. landsk. var dálítið að gotta sér yfir því, að útgerðarmönnum væri um megn að endurnýja togaraflotann. Þetta er sorglegur sannleikur. En heldur hv. 4. landsk., að sú rétta leið til að gera þetta fært sé að hækka skattana? Heldur hann, að þeim skapizt möguleikar við það að hækka tekjuskattinn og tolla á nauðsynjum? Nei, það er ekki leiðin. Ég hélt einmitt, að þessi sorglega reynsla, sem allir eru farnir að játa, — líka þeir, sem héldu því fram, að á togurunum græddist stórfé, ekki þyrfti annað en eignast togara, þá græddu menn voðalega, — ég hélt, að reynslan um tap útgerðarinnar hefði sýnt mönnum fram á, að takmörk eru fyrir því, hvað leggja má háa skatta á framleiðsluna.

Ég ætla ekki að fara út í skálda- og ímyndunarflug hv. þm., eins og það, að ég hefði sagt, að Íslendingar hefðu orsakað stríð milli Ítalíu og Abessiníu. Ég hefi náttúrlega aldrei sagt neitt í þá átt.

Eins og hv. 1. þm. Skagf. hefir réttilega tekið fram, þá er ekki nóg að segja og vitna í, að málin séu þörf og góð; þau verða ekki framkvæmd af engu. Ég treysti mér vel til að bera fram hér á Alþingi dag eftir dag, a. m. k. í heila viku, mál, sem tvímælalaust eru góð mál. Það er enginn vandi í landi, þar sem lítið hefir verið gert, en þessi mál kosta kannske 200—300 þús. kr. hver. Hvernig væri t. d. að bera fram frv. um nýja vegi, brýr, nýjar hafnir og nýja radiovita? Eins og þetta sé ekki allt þarft og gott, og margt, ótalmargt fleira.

Hv. þm. ætlaði að verða svarafátt, jafnþaulvönum ræðumanni og hann er, það stóð í honum að svara, þegar ég spurði hann, hvernig á því hefði staðið, að ekki hefði verið tekið inn í þetta samkomulag stjórnarflokkanna og nýju málaskrá fjárveiting til að byggja nýja togara. Um þetta hefir hans flokkur borið fram frv., sem vitanlega á að hampa framan í kjósendur. Hann svaraði á þá leið, að einhversstaðar yrði að nema staðar, þar sem smáágreiningur væri milli flokka, og það er einmitt þetta, sem höfuðágreiningurinn er um, hvar á að nema staðar. —

Það eru ósannindi, að ég eða nokkur úr mínum flokki hafi sagt, að tryggingafrv. t. d. væri ógagnlegt. Ég hygg, að það hafi tekizt að mörgu leyti vonum framar með samningu þess frv. En það er ekki hægt að neita því, að það þarf mikla peninga til þess að koma því í framkvæmd. Og ég álít, að ekki sé tími til þess að fara að grípa inn í einmitt nú, þegar sérstök nauðsyn er að halda sem sparlegast á öllu, með framkvæmdir, sem orðið hafa að bíða svo lengi. Nei, þær verða að bíða enn, og það verður bezt fyrir þá sjálfa, sem þeirra eiga að njóta. Hvað stoðar þá að fá tryggingalöggjöf, ef atvinnuvegirnir sligast ? Hvað yrði lengi hægt að halda tryggingunum uppi, ef atvinnuvegirnir halda áfram að dragast saman? Hvað mundi endast lengi gjaldþol hinna svokölluðu hátekjumanna, sem draga fram lífið á 6 til 7 þús. kr. á ári, handa ölum þeim sæg, sem tryggingarnar eiga að ná til? Stefnumunurinn liggur ekki í því, hvort menn álíta þessi mál þörf, heldur greinir á um það, hvað hratt er óhætt að halda áfram. Stjórnarflokkarnir halda fram, að það sé hægt að halda svo og svo hratt áfram. Hvenær sem kemur í ljós, að skattar eru orðnir svo háir, að þeir hætta að koma inn, þá halda þeir, að ekki þurfi annað en bæta ennþá ofan á nýjum sköttum. Þetta er stefna, sem bæði hv. 4. landsk. og hæstv. fjmrh. vita, að ekki er hægt að halda lengi án þess að allt nemi staðar. En þeim virðist mikið í mun að fleyta sér yfir nokkra mánuði án þess á því beri, að allt er stopp. Þess vegna bera þeir fram þetta frv., sem m. a. er svo fáránlega úr garði gert, eins og hv. 1. þm. Skagf. hefir einnig bent á, að það á að afla tekna til eins árs handa fyrirtækjum, sem eiga að starfa og þurfa á fé að halda áfram. Hvað á að ske á þessu eina ári? Kannske þeir hafi von um að fara frá völdum á þessu ári og telji, að þá séu hinir skrattarnir ekki of góðir til þess að taka við öllu í feninu. (JBald: Þeir fást víst ekki til þess!). Fást ekki til þess, já. Ég verð nú að segja, að hver flokkur er skyldur til að taka við völdum, ef honum er falið það af kjósendum. En persónulega fyndist mér núv. stjórnarflokkar réttir til að hafa völdin áfram, úr því sem komið er. (JBald: Þá er bezt að styðja þá til þess). Draga sjálfir ályktanir af því, sem þeir hafa áður gert, og horfa á, þegar afleiðingarnar af þeirra stjórnmálastefnu fara að koma alvarlega í ljós. Hitt er annað mál, að slíkur hugsunarháttur er ekki réttur, því mönnum ber vitanlega að hugsa meira um þjóðfélagið heldur en stjórnarherrana, þó freistandi væri að sjá þá horfa upp á þær rústir, sem þeir sjálfir hafa skapað.

Ég get svo látið máli mínu lokið, og býst ekki við að hafa ástæðu til að tala meira um þetta mál. Það er aðeins eitt atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem mér finnst svo merkilegt, að ég verði að segja frá því áður en ég sezt niður. Og það er það, þegar hæstv. fjmrh. segir alveg skýrum orðum, að sá tekjuskattur, sem hér er um að ræða, komi ekki til með að lenda á framleiðendum, vegna þess, að það séu svo að segja ekki til í landinu framleiðendur, sem komist upp í 6000 kr. skattskyldar tekjur. Jafnhliða heldur svo sami ráðh. því fram, að það sé alveg óhætt að kalla inn á einu ári 15 millj. kr. fyrir útgjöldum ríkissjóðs. Hvernig ætlar hæstv. ráðh. að standast þennan dóm sjálfs sín, sem veit eins og aðrir, að öll gjöld til ríkissjóðs hvíla að lokum á framleiðendunum. Hvernig ætlar hæstv. ráðh. að standa við ráð, jafnhliða því, að hann slær föstu, að enginn framleiðandi komist upp í 6 þús. kr. tekjur, þá sé samt forsvaranlegt að heimta inn í ríkissjóð 13 millj. kr. Ég ætla að lofa hæstv. fjmrh. að glíma við þessa hnot í næstu ræðu sinni. Þetta sýnir, að ég hygg, betur en nokkuð annað, hvað gersamlega viti firrt er þessi fjármálastefna, að ætla að hækka ennþá skattana, ofan á það, sem fyrir er.