29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það er að bera í bakkafullan lækin að flytja fleiri rök gegn því, sem þeir hafa haldið fram, hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. Reykv. Hæstv. fjmrh. hefir þegar svarað flestu, sem þeir komu með. En mér þykir rétt að taka það til athugunar, sem þeir báðir spyrja um (og ég skal viðurkenna, að hv. 1. þm. Skagf. hélt uppi meiri rökræðum um málið en hv. 1. þm. Reykv.), og gefa svar við spurningu þeirra: Hvaða tekjur á að finna, þegar þetta ár er liðið? Hv. 1. þm. Reykv. hefir bent á, að ekki muni allt standa áfram, sem talið er í grg. frv., t. d. ekki þau 60 þús. út af óveðursskaðanum á Norðurlandi. Það er að vísu ekki há upphæð, en þetta er ekki heldur nema eitt dæmi. Og þá má sjálfsagt finna ýmiskonar réttmætan sparnað, ef tími er til, til að draga úr útgjöldunum. Alþfl. er reiðubúinn til að benda á tekjuöflunarleiðir, og skal ekki á þeim standa.

Hv. 1. þm. Skagf. lagði á móti þessu frv. á þeim grundvelli, að ekki mætti ráðast í framkvæmdir eða samþykkt þeirra mála, sem gert er ráð fyrir í frv. og talið er í grg.; það væru að vísu góð mál, en það væru þeir tímar nú, að hafa yrði hemil á framkvæmdum. Þetta er sama svarið, sem ég hefi heyrt á þingi í 15 ár frá sjálfstæðismönnum, þegar komið hefir verið með mál, sem eiga að vera almenningi til hjálpar. Þetta er alltaf svarið: Það sé að vísu gott mál, en það séu ekki tímar til að framkvæma það. Þetta er svar íhaldsins um allan heim við hverju nytjamáli almennings. Sjálfstæðisflokksmennirnir koma og segja, eins og hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. Reykv. nú: Alþýðutryggingarnar eru ágætt mál; það er æskilegt að koma á nýbýlarækt, auka kartöflurækt o. s. frv., en það eru bara ekki tímar til að koma þessu fram nú. Ískyggilegast er þó þetta svar, þegar athugað er, að það er alltaf sagt, jafnt í góðæri og illæri.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það hefði margur efnilegur maðurinn sett sig á höfuðið með því að ráðast í of miklar framkvæmdir, og eins gæti farið fyrir ríkinu. En hvers vegna var það? var það ekki af því, að hann sá sér ekki fyrir nægilegu fé til að standast útgjöldin í bili? En þetta á ekki við hér, því að það er séð fyrir nægum tekjum til að koma framkvæmdunum í verk. Það má ekki gleymast.

Ef ekki er komið á alþýðutryggingum, ef ekki er komið á nýbýlum, þá fellur niður annarsvegar möguleikinn til að tryggja mönnum afkomu til sveita og lífsviðurværi af ræktun á hæfilega stórum býlum, þar sem menn lifðu sem unnt vari af íslenzkri framleiðslu, og hinsvegar, ef alnýðutryggingunum er ekki komið á, þá er slegið á frest, að almenningur eignist meira öryggi gegn sjúkdómum og elli. Ef ekki er komið á sjúkratryggingum, þá verður það til þess, að meira öngþveiti helzt í fjármálum kaupstaða og sveitarfélaga, sem nú sligast undir skuldum, sem fátækraframfærslan hefir komið þeim í.

Þó að séu bein útgjöld til alþýðutrygginganna, þá létta þær á margan hátt undir fjárhag bæjar- og sveitarfélaga. Framlag þeirra kemur að sumu leyti í staðinn fyrir það, sem bæjarfélögin leggja nú fram til styrktar sjúkum mönnum og gömlum. Þessa þýðingu hafa tryggingarnar; reyndar minni fyrst í stað, en aftur meiri síðar. En ef aldrei er á þessu byrjað, þá er heldur aldrei von um létti af þessu fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Hjá hv. 1. þm. Skagf. er það svo, að hann lítur ekki nægilega á það gagn, sem leiðir af tryggingunum fyrir landið í heild og fyrir sveitar- og bæjarfélögin. Hann sér ekki þetta, þegar hann hér till. frv. saman við athafnamanninn, sem ráðizt hefir í of mikið, og hann athugar heldur ekki, að hér hefir verið séð fyrir tekjum fyrir útgjöldunum, sem af framkvæmdunum leiðir.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði mjög langt mál um tekjuskattinn. Ég ætla, að þó hann brillleri reyndar meira á tollunum, þegar hann er að klingja með buxnatölum, þá sé honum nú sárara um tekjuskattinn. Hann sagði, að menn með 6—8 þús. kr. tekjur ættu bágt með að komast af. Og á öðrum stað í ræðu sinni talaði hann um „þessa menn, sem draga fram lífið á 6000 kr.“. En ég spyr: Hvað er þá um hina, sem hafa 15—1700 kr. tekjur? Þeir hljóta þó að eiga bágara með að draga fram lífið. Þegar hér er verið að tala um þessa aukning útgjaldanna, þá er verið að tala um að styrkja sérstaklega þá menn, sem eru fyrir neðan þann tekjuflokk, sem hv. þm. lætur sér annast um.

Hinsvegar veit ég, að það er rétt hjá hv. þm., að þessir menn eiga oft bágt með að komast af. En hvernig er lífið, sem þeir lifa? Þeir lifa einmitt jafnt fyrir það mjög góðu lífi, eiga ef til vill dýrt hús, búa í nýtízku íbúðum með öllum þægindum, halda sig vel í klæðaburði, geta veitt sér skemmtanir, fara ef til vill í ferðalög, sem menn telja sér nauðsynleg. (ÓTh: Lúxusferðalög). Létta sér upp á sumrin, sem sé, lifa þessu þægilega og notalega lífi, og með því móti eiga þeir oft bágt með að láta endana koma saman á tekjum sínum og útgjöldum. En þá vil ég spyrja hv. 1. þm. Reykv.: Er ekki rétt að styðja hina, sem eru svo langt fyrir neðan hvað tekjur snertir, að vart er hægt að bera tölurnar saman?

Hv. 1. þm. Reykv. talaði langt mál um það, hvernig flokkar öfluðu sér fylgis, og taldi það vera aðallega á tvennan hátt, með því að bera fram góð mál, eða með agitation, eða m. ö. o. lýðskrumi. Ég fékk ekki annað skilið af ræðu hans en hann héldi því fram, að Sjálfstfl. aflaði sér fylgis á þennan betri hátt, með góðum málum, en hann heldi því fram um rauðu flokkana, að þeir notuðu agitationina og heldu uppi tómu snakki um málin. En þá má kalla þá hafa verið duglega að agitera, ef þeir eiga að hafa getað með tómu snakki haldið trausti þjóðarinnar síðan 1927, en Sjálfstfl. með alla sína baráttu fyrir góðu málunum kemst ekkert áfram. Það er eitthvað bogið við kósendur, ef svo væri, — en það er reyndar ekki.

Ég ætla, að vöxtur Alþfl. hafi verið af því að hann hefir haft mörg góð mál, sem almenningur vildi fá fram. Mig grunar hinsvegar, að Sjálfstfl. hafi ekki haft nógu mörg góð mál til að berjast fyrir. (MJ: Því hefir hann svo fáa kjósendur?). Og því hefir hann ekki náð völdum í 8 ár, nema hvað hann um tíma fékk að skríða undir pilsfaldinn hjá Framsókn. (ÓTh: En hver er þar undir pilsfaldinum nú? — MJ: Sjálfstfl. hefir nú samt hærri atkvæðatölu en hinir flokkarnir báðir til samans). Þetta er rangt. Sjálfstfl. hefir ekki hærri atkvæðatölu en stjórnarflokkarnir báðir. Fylgi Sjálfstfl. hefir ekki aukizt mikið, þó það hafi fjölgað um nokkra kjósendur. Aftur á móti hefir Alþfl., sem hv. þm. sagði, að hefði haldið í horfinu síðan 1927, bætt við sig um síðustu kosningar 5000 atkv., sem er tiltölulega miklu meiri fjölgun en fjölgun kjósenda nam. Hann hefir því bætt við sig miklu fylgi, svo að það er smáskreytni hjá hv. þm., eins og oftar vill verða. (MJ: Ég sagði, að fylgi stjórnarflokkanna samanlagt hefði staðið í stað, svo það er líka smáskreytni þarna megin). Og enn er á það að líta, að Sjálfstfl. hefir ekki tekizt að ná neinum vexti, jafnvel þó hann hafi gleypt heila flokka; t. d. gleypti hann 1929 Sjálfstfl. gamla, en samt hefir það ekki hjálpað honum til að vaxa og ná völdunum í landinu. Og ég heyri hann sé tilbúinn að gleypa ennþá nýjan flokk, Bændafl., og er spursmál, hvort hann gengur ekki á einhvern hátt upp í Sjálfstfl. Form. Sjálfstfl. gerist a. m. k. oft æði umsvifamikill innan Bændafl. og hefir sagt honum fyrir verkum, a. m. k. einu sinni á ári. En þó Sjálfstæðisfl. gleypi þannig heila flokka, þá fóðrast hann ekki að sama skapi vel.

Hv. 1. þm. Reykv. vitnaði í biblíuna, sem hans er von og vísa, því hann er mikill lærdómshestur og fluggáfaður og vísindamaður í biblíunni, en ég hefi aðeins lært biblíusögurnar, en ætla samt líka að vitna í dæmi úr þeim. (MJ: Um kýrnar hans Faraós?). Já, einmitt um kýrnar hans Faraós, mögru kýrnar, sem voru jafnmagrar eftir, þó þær hefðu gleypt margar kýr, og eins er um Sjálfstfl., að hann er jafnmagur eftir, þó hann hafi gleypt annan flokk og sé í þann veginn að gleypa Bændafl.

Hv. 1. þm. Reykv. ræddi um endurnýjun togaraflotans. Honum fannst ég hafa tekið þetta með glettni. þegar hann skaut því fram í síðustu ræðu sinni. En ég vil þá segja, að ég tel þetta vera eitthvert mesta mál, þó ekki séu líkur til að geta komið því fram nú. Ég tel það hið mesta nauðsynjamál að endurnýja togarana með tilstyrk hins opinbera, ef atvinnurekendur geta ekki sjálfir komið því í verk.

Hv. 1. þm. Reykv. spurði, hvort ég heldi, að útgerðarmenn gætu frekar endurnýjað togaraflotann, þegar búið væri að hækka skattana. Ég býst ekki við þeir geri það frekar né síður. Þeir hafa ekki gert það hingað til, þó að betur hafi látið í ári, og þeir myndu hafa látið það vera, þó þessi frv. hefðu ekki komið fram, hvort sem skattahækkun yrði eða ekki. Meðan er eins og nú, að útgerðin er rekin með tapi, þá greiða þeir ekki tekjuskatt, enda kemur hann ekki til á fyrsta ári, heldur er honum jafnað á þrjú ár. Það kemur því lítið þessu máli við, því þessi skattur er hvorki til né frá. En ef ríkissjóður aflar sér nýrra tekna, þá er frekar hægt að finna leiðir til þess að útgerðarmenn geti endurnýjað togarana eða ríkissjóður gert til sjálfur, sem getur orðið mikilsvert atriði til að hafa jafnvægi á ríkisbúskapnum.

Annars skilst mér, þó að hv. þm. spyrji um þetta mál, þá sé hann og Sjálfstfl. fjandsamlegur því, að ríkissjóður hafi hér nokkur afskipti, og vilji fela útvegsmönnum forsjá þessara mála, þó hann viti, að þeir geta ekki komið endurnýjunum fram.

Hv. þm. sagði nokkuð seint í ræðu sinni, að hann treysti sér til að bera fram eitt nauðsynjamál á hverjum degi í heila viku. Það má vel vera, að þetta sé rétt, og mér þykir það satt að segja nokkuð lítið, að það skulu ekki vera nema aðeins 7 mál, sem hann treystir sér til að finna og telur nauðsynjamál. Ég held helzt, að það séu miklu fleiri mál, sem land vort og þjóð hefir þörf fyrir. En ég vil nú spyrja þennan hv. þm., hvort hann hafi gert þetta, spyrja hann, hvað hann hafi flutt fram af góðum málum og nytsömum. Ég er svo sem ekkert að vantreysta því, að hann geti komið með ýms góð mál, en ég man ekki eftir því nú í svipinn, að hann hafi gert það. Mér er ekki kunnugt um, að hann hafi lagt sig í líma til þess að taka upp stórmál eins og t. d. alþýðutryggingar eða önnur slík mál, sem varða velferð alþjóðar. Ég man alls ekki eftir því, að hann hafi gert þetta. Hv. þm. segist geta komið með góð mál, og hann getur það kannske, en það er aðeins þessi ljóður á því, að hann gerir það ekki. Og þetta er í samrami við það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði um tryggingarlöggjöfina, að hún gæti verið góð, en hún væri ekki tímabær. Sjálfstæðismenn hafa kannske vitað um góðu málefnin, en þeir hafa ekkert gert að því að flytja þau fram, og það er sennilega af þeirri ástæðu, sem þeir hafa ekki náð því trausti kjósendanna í landinu eða þeim völdum, sem þeir óska eftir.