04.12.1935
Efri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það er aðeins til að mæla með einni brtt., sem ég flyt við frv., á þskj. 674. Eins og hv. þdm. munu sjá, þá er hún við 2. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að mismunur á skattstiga þess og hinsvegar á skattstiga tekju- og eignarskattslaganna frá 9. jan. 1935, að viðbættum 10% viðaukanum, renni að hálfu í ríkissjóð og að hálfu til bæjar- og sveitarsjóða, þar sem skatturinn er á lagður. Nú er það svo, að þetta er ekki teljandi fyrr en komið er yfir 6000 kr. skattskyldar tekjur. En þegar felldir eru saman skattstigi frv. og skattstigi að viðbættum 10% viðaukanum, þá er ekki hægt að hnitmiða þá svo saman, að engin breyting verði á skattstiganum neðan við 6000 kr. skattskyldar tekjur. Þess vegna er brtt. flutt á þskj. 674, og ef hún verður samþ., mundi málsgr. hljóða svo: „Sá skattauki, sem lagður kann að verða á 6000 kr. skattskyldar tekjur eða þar yfir samkvæmt þessum lögum, skiptist í tvo jafna hluta“ o. s. frv.

Þetta er einungis gert til þess að forða skattanefndum frá þeirri fyrirhöfn að hafa tvöfaldan útreikning á öllum skattinum niður í 500 kr. skattskyldar tekjur. En mismunurinn er aðeins 1—2 kr. á 4000—5000 kr. tekjum o. s. frv. Ég álít, að slíkur útreikningur sé allt of mikil fyrirhöfn vegna þeirra smámuna. Ég vona, að hv. þd. geti fallizt á þetta; það munar ekkert um 1—2 kr. til eða frá, en þetta léttir til muna framkvæmd laganna.