05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Guðrún Lárusdóttir:

Ég hefi borið fram nokkrar brtt. við frv., og vona ég, að menn fallist á, að þær séu ekki óþarfar. Fyrst eru allskonar búsáhöld og eldhúsáhöld. Finnst mér óþarfi að vera að auka tolla á þessum hlutum. Það má reyndar segja, að nokkuð af þessu megi smíða hérlendis, en þó að svo væri, myndi hár tollur verða til þess að halda uppi verðinu innanlands. Hér er um vörur að ræða, sem menn eru komnir upp á að nota og geta ekki verið án, og er eftir litlu að seilast, ef fara á að hækka tolla á þeim.

Þá eru nefndar greiður, og býst ég við, að átt sé við hárgreiður. Enda þótt kvenfólk sé nú farið að klippa af sér hárið og margir karlar séu skollóttir, held ég, að greiður verði að teljast með nauðsynlegum hlutum.

Þá kem ég að kaffinu. Ég skil ekki, hvernig mönnum dettur í hug að hara að auka tollinn á þessari vöru, sem fólk getur alls ekki án verið nú á tímum. Það er ekki til neins að segja, að mjólk geti komið í staðinn fyrir kaffi a. m. k. ekki í kaupstöðunum. Til þess er mjólkin þar allt of dýr vara. Kaffið er nú orðið einskonar þjóðardrykkur hjá okkur Íslendingum, og nærri því það eina, sem heimilin hafa sér til hátíðabrigðis og hressingar.

Þá held ég, að ennþá beri að telja olíulampa til nauðsynja. Ef rafmagn væri orðið svo algengt hér á landi, að olíulampar væru óþarfir, þá væri ekkert við þessum tolli að segja. En svo er ekki. Reyndar má segja, að þessi tollur sé ekki ýkjahár, en betra væri þó að hafa hann engan, og óviðfelldið að auka verð á jafnnauðsynlegum varningi.

Þá er stívelsið. Ég veit ekki, hvort efnagerðir hér framleiða það. En það er varningur til iðnaðar. Hafa allmargar stúlkur atvinnu af því að stífa og sterkja lín, og þær þurfa á þessum varningi að halda. Þetta er auk þess dýrt efni. Straukonur segja mér, að þær þurfi að nota allmikið af þessari vöru. Sama er að segja um straujárn. Þó að sumstaðar sé hægt að nota rafmagnsjárn, verða menn samt víða enn að notast við tungujárnin gömlu, eða þá pönnujárn. Því sting ég upp á, að þessir hlutir verði ekki tollaðir meira en orðið er.

Þá held ég, að telja verði sykur svo mikla nauðsynjavöru, að óhætt sé að segja, að ekkert heimili geti án þeirrar vöru verið.

Um tauvindu er sama að segja og um straujárn, að allar þvottakonur þurfa á þeim að halda. Auk þess gera vindurnar mikið gagn með því að spara slit á þvottinum. Það, sem undið er í tauvindu, slitnar ekki eins illa og það, sem undir er í höndunum. En það er ekki von, að karlmenn viti þetta almennt. Svipað er að segja um þvottabretti og þvottaefni. Þetta eru allt nauðsynjar til daglegrar iðju og hreinlætisnota. Hér í bæ er stétt kvenna, sem lifir á því að þvo þvotta, og finnst mér ekki rétt að seilast eftir lífsviðurværi þeirra, með því móti að auka verð vörunnar, er þær þurfa svo mjög að nota til starfa sinna.

Þá er hér talið tau og tvinni, band og garn. Ég skil ekki, hví mönnum er svo uppsigað við tvinnann. Hann er sem sé nefndur tvisvar í frv. En það er um tvinnann að segja, að án hans kemst ekkert heimili af, hvort heldur það er efnað eða efnalaust. Sú tíð kemur ekki aftur, að konur spinni saumþráð, enda væri ekki hægt að nota slíkan þráð á saumavélar. Annars get ég hryggzt yfir því, að hætt skuli vera að spinna þráð; það var veruleg list. En eins og nú er komið, er tvinninn orðinn okkur ómissandi til að viðhalda fötum og sauma föt. Ég býst ekki við, að hv. þdm. viti, að eitt tvinnakefli kostar 25—30 aura, svo lítið sem á því er (150—200 yards). Þetta munar þar að auki svo litlu fyrir ríkissjóðinn, en fátækar konur munar mikið um það, þegar allt hækkar í verði. Ég geri það því að till. minni, að tollur falli niður á öllu þessu. Það má segja, að band og garn sé framleitt í landinu. Þó freistast menn oft til að kaupa heldur það erlenda, því bæði þykir það fallegra í lykkju, og eins er það sterkara. Ég vonast til þess, að íslenzkar verksmiðjur geti bráðum framleitt eins gott garn. En þangað til er ekki rétt að leggja svo mikið á það útlenda, að fólk geti yfirleitt ekki veitt sér það.

Það mætti e. t. v. segja, að við gætum verið án þriggja vörutegunda, sem nefndar eru í 3. tölul., en það er kakó, kryddvörur og sagó. Þó þykir mér undarlegt að reynt skuli vera að ásælast toll af þessum vörum. Sagó er sjúklingingafæða og smábarna. Kryddvörur eru til bragð bætis, og þykir öllum þær góðar í munni, og sama er að segja um kakó, sem þar að auki er heilnæmur drykkur og handhægur.

Þá legg ég áherzlu á, að ekki verði bætt við toll á skófatnaði, sem verður að teljast til lífsnauðsynja allrar þjóðarinnar. Hér þýðir ekkert að segja eins og konan, sem kom í skóbúðina á dögunum. Þar fengust ekki skór, og búðarstúlka kenndi yfirvöldunum um, að skórnir fengjust ekki innfluttir. Konan sagði, að þá væri ekki annað en að sauma sér íslenzka skó. Þetta er hægt að segja, en síður hægt að framkvæma, og hrædd er ég um, að okkur brygði við, ef við þyrftum að fara að gera okkur á fæturna að gömlu lagi. Skófatnaðurinn er þegar mikið tollaður. Skófatnaðarkaup eru með stærstu útgjöldum margra fjölskyldna. Þá eru buxnatölur, krókapör, smellur, leggingar, snúrur og teygjubönd. Sumt af þessu þyrfti kannske ekki að vera til, frá sjónarmiði karlmanna. En sú saumakona verður vandfundin, sem ekki telur þetta nauðsynjar.

Mestum tolli gerir þó frv. ráð fyrir á grænmeti, sem sé 23%. Nú er lögð mikil áherzla á bætiefni í fæðu manna. Virðist því vera nokkuð úr vegi fyrir löggjöfina að fara að tolla þessar vörur svo mjög, að það verður ofurefli annara en efnaða fólksins að kaupa þær. Hefir mikið verið talað um, að auka beri grænmetis- og kartöflurækt hér á landi. Það er gott og blessað. En hér eru stutt sumur, og getur oft farið svo, að lítið verði til af innlendu grænmeti eftir sumarið. Hvað eiga menn þá að gera, ef ekkert er hægt að fá af því tægi annað en uppskrúfaða ávexti, sem fáir geta keypt?

Þá eru þurrkuðu ávextirnir. Þeir eru að vísu ekki eins hollir og þeir nýju, en þó er gott að geta gripið til þeirra, þegar annað fæst ekki. Þeir eru nú þegar orðnir fulldýrir, svo að fæstir geta lagt sér þá til munns. T. t. sveskjupundið komið upp í kr. 1.50. Trúi ég því ekki öðru en að hv. þdm. sjái sér fært að fella niður með öllu þennan toll.

Loks hefi ég lagt til, að tollur falli niður af hljóðfærum og músíkvörum. Mér er reyndar ekki ljóst, við hvað átt er með músíkvörum, en líklega er það helzt grammófónar, nótnabækur og þess háttar. Músík er einhver fegursta list, sem menn geta notið og er leiðinlegt að torvelda mönnum með lögum að njóta þeirrar listar.

Ég legg brtt. þessar hér fram og vona, að einhver af þeim fái að lifa, en legg sérstaka áherzlu á ávextina. Margt er það, sem er nytsamt, en fátt þó nauðsynlegra en það að geta keypt ávexti handa ungum og gömlum, og litið gagn að því, að þeir séu til í búðum, ef þeir eru svo dýrir, að fólk geti ekki keypt þá.