05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að hefja almennar umr. um þetta frv., vegna þess að bæði hefi ég gert það nokkuð hér við fyrri umr. og einnig í eldhúsumr. En ég hugsaði mér að bera fram hér eina brtt., sem flutt er fyrir tilmæli rafmagnsstjóra og bæjarstj. Rvíkur, og ég hefi talað við hæstv. fjmrh. og form. fjhn., og þeir eru því alveg samþykkir. En brtt. er um það, að í þann kafla 3. gr., þar sem tilgreindar eru vörur, sem undanþegnar eru þessu nýja gjaldi, að taka þar undir vörur, sem fluttar eru inn vegna Sogsvirkjunarinnar, því líklega er það af athugunarleysi, að þetta er ekki undanskilið í frv. Það stendur svo á um þessa virkjun, að mjög mikill hluti af því, sem til hennar þarf, mun verða fluttur inn á næsta ári og Sogsvirkjunin yrði væntanlega að greiða 100 þús. kr. í innflutningsgjöld. Sogsvirkjunin hefir verið undanþegin ýmsum gjöldum. Allir útreikningar um þetta fyrirtæki eru gerðir án tillits til þessa nýja gjalds, og þess vegna ekki nema eðlilegt, að þessar vörur séu undanþegnar því.

Ég býst ekki við að þurfa að tala meira um þetta, vegna þess að hæstv. fjmrh. og form. fjhn. hafa tjáð sig hlynnta því.

Hv. 2. þm. Rang. bað mig, svo brtt. hans færu ekki svo frá umr., að um þær yrði þagað, að skýra þær með fáeinum orðum, ef hann yrði ekki sjálfur viðstaddur. Fyrsta brtt. hans er um að breyta til um ákvæðin um það, hvaða partar af tekjuskattinum skuli ganga til bæjarsjóða og sveitarsjóða. Það er svo ákveðið í frv., að helmingurinn af skattaukanum skuli ganga til bæjar- og sveitarsjóða, en í brtt. hv. 2. þm. Rang. er svo ákveðið, að 1/10 af skattinum skuli ganga til bæjar- og sveitarsjóða. Þetta er fyrirkomulagsbreyting, sem ég hygg hentuga. Þetta kostar samkv. frv. tvöfalda reikninga. Annarsvegar að reikna tekjuskattinn fyrst og síðan tekjuskattaukann og hvað mikið af honum kemur til bæjar- og sveitarsjóða, en þetta verður einfaldara með brtt. hv. 2. þm. Rang., en hann miðar við það, að nákvæmlega sama upphæð komi út til bæjar- og sveitarfélaga. Skatturinn er áætlaður 400 þús., og helmingurinn er þá 200 þús., en allur skatturinn er áætlaður um 2 millj. og 1/10 af því er líka 200 þús., svo sama upphæð gengur til bæjar- og sveitarsjóða, en munurinn er sá, að þetta er einfaldara í útfærslu.

Um a- liðinn í brtt. þarf ég ekki að tala hér; ég held að hann sé fólginn í öðrum brtt., sem talað var um hér næst á undan mér. Um b-lið till. býst ég við, að allir geti orðið sammála, en það er um að undanþiggja fiskipressur. Það er áhald, sem er nauðsynlegt að hafa, þegar f1ytja á út harðfisk, til þess að pressa fiskinn saman, svo hann rúmist betur í skipum. Þetta er í samræmi við mörg önnur áhöld, og eitt af mörgu, sem alltaf hlýtur að vanta í slíka upptalningu.

Ég hefi afhent hæstv. forseta afrit af þessari brtt., sem ég mælti hér fyrir fyrst, og vil óska, að hann leiti um hann afbrigða, svo þetta gæti komizt til ákvörðunar nú.