05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Bernharð Stefánsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr., en það var út af skrifl. brtt. frá hv. 1. þm. Reykv., um það, að undanskilja þessu gjaldi vélar og annað efni til Sogsvirkjunarinnar, sem ég vildi upplýsa, að það stendur ákaflega svipað á um rafveitu, sem fyrirhuguð er á Siglufirði. Ég býst við, að þessi till. hv. 1. þm. Reykv. sé byggð á því, að samningar hafi farið fram um þetta verk nú þegar og áður en gjaldið er lögleitt, og að leggja það á þessar vörur mundi því koma í bága við þessa samninga. En að þessu leyti stendur alveg eins á með rafveituna, sem er fyrirhuguð á Siglufirði. Nú þessa dagana hefir verið gengið frá samningum milli bæjarstj. Siglufjarðar og útlends firma, sem hefir fengið sérleyfi til rafvirkjunar á Siglufirði með nánari ákvæðum um sölu rafmagns til bæjarins o. s. frv. Ég hefi því leyft mér að afhenda hæstv. forseta brtt. við brtt. hv. 1. þm. Reykv., um það, að sama skuli gilda um þær vörur, sem nauðsynlegar eru til rafvirkjunarinnar á Siglufirði. Er till. mín svo hljóðandi: „Við till. bætist: svo og tæki og efni til rafveitu á Siglufirði, samkv. þegar gerðum sérleyfissamningi.“ Þó einhver vildi halda því fram, að þetta væri fordæmi og þá teygjanlegt, og vildu fara að setja inn í frv. fleiri svipuð ákvæði, þá álít ég, að ekki sé annað sambærilegt en það, þar sem samningar hafa farið fram og allt er afráðið manna á milli um framkvæmdirnar.