05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að minnast á skrifl. brtt. frá tveimur hv. þm. Till. þessar hafa komið fram síðan ég talaði áðan; er önnur þeirra frá hv. 10. landsk., og er 1. liður hennar um það, að úr 5% flokki falli orðið „skóflur“, og get ég fallizt á þá till. Ennfremur get ég fallizt á 6. lið þeirrar till., því það var meiningin, að landbúnaðarverkfæri væru undanþegin, en af því ekki er ljóst, hvort tekizt hefir að telja þau öll upp, er gott á þennan hátt að taka af öll tvímæli. — Í c-lið till. er talað um fóðurvörur allskonar og sement. Það er gert ráð fyrir, að á allar byggingarvörur sé lagt 2% gjald, og það er með ráði gert. 2% gjaldið er lagt á ýmsar nauðsynjavörur og er haft svo víðtækt til þess að það geti orðið sem lægst og komið sem léttast niður á hvern vöruflokk. Af þessum ástæðum get ég ekki gengið inn á, að einstakar tegundir af byggingavörum verði undanþegnar þessu gjaldi, sem er svo sáralágt, að þegar það er lagt á innkaupsverð þessarar vöru, munar ákaflega lítið um það. T. d. hefir fróður maður sagt mér, að gjaldið á járnplötum, sem munu reiknast til þessa gjaldflokks, nemi ekki nema örfáum aurum, hve mörgum veit ég þó ekki, en ég get ekki verið með því og sé ekki ástæða til þess að kippa út úr nokkrum vöruflokkum, því ef sömu tekjur eiga að nást, þá leiðir það aðeins til þess að þyngra gjald leggst á annan varning.

Ég sé ekki heldur ástæðu til að fella fóðurvörur undan, því það er ekki æskilegt, að fóðurbætir sé fluttur inn nema mjög í hófi, eins og hv. 10. landsk. tók fram, og það vegna þess, að mikinn fóðurbæti má fá innanlands, og má nota hann meira en gert er, svo ef fóðurbætir er notaður í hófi og innlendur fóðurbætir notaður svo sem mest verður við komið, þá verður þessi innflutningur svo sáralítill, og er æskilegt, að hann sé sem minnstur. Ég hygg það á misskilningi byggt, að þetta komi hart niður. Harðindi koma venjulega mest við sauðfé, og þá er bezt að grípa til innlenda fóðurbætisins.

Um hveiti og baunir vil ég segja það, að það er ekki óviljandi látið falla undir þennan flokk. Það er nú almennt litið svo á, að hveiti sé ekki eins nauðsynleg vara eins og aðrar vörur, sem eru í 2% flokki, og það er svo sáralítið gjald, að ákaflega lítið munar um það, þegar gerð eru innkaup, einmitt af því að það er látið falla í þennan flokk. En ef fella á undan stóra vöruflokka, en ná samt sama gjaldi, þá yrði að taka því meira af þeim vörum, sem gjaldið væri lagt á, og kæmi það á engan hátt betur við. Það eru þannig tvær eðlilegar breyt., sem ég get fallizt á, í þessum till., og eru það a- og b-liður í till. hv. 10. landsk.

Þá eru aðeins örfá orð um það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði hér áðan, að honum hefði komið það á óvart, að ég væri óánægður með áætlun fjárl., af því ég hefði talað um hana og samþ. hana. En þetta er misskilningur, því það var allt með þeim fyrirvara gert, að ef athugun á innflutningi sýndi nauðsyn þess, að horfið yrði að þessu ráði, þá yrði það gert.

Ég ætla ekki að fara að karpa um það nú, hvort ég hafi lofað því, að enginn liður fjárl. færi fram úr áætlun, að gerð hefði verið tilraun til þess að áætla réttar en áður hefði verið og það yrði sennilega minni munur á fjárl. og landsreikningum heldur en áður. Frekar var ekki farið út í það af minni hálfu.