05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Guðrún Lárusdóttir:

Hæstv. fjmrh. fór mjög hógværum orðum um brtt. mínar, þó hann vildi þær flestar feigar, eins og ég gat búizt við. En mér fannst, að það byggi í orðum hans hlýr hugur til þeirra og að hann hefði ekkert góða samvizku af aukatollinum, sem nú á að demba á, á þessum vandræðatímum.

Hann sagði, að lítið væri keypt af hreinlætisvörum, en ég vil ekki samþ. það, og allra sízt, að litið sé keypt af útlendum hreinlætisvörum, því þær bera ómótmælanlega mikið af þeim innlendu, og allir vilja kaupa þá vöru, sem þeir álíta bezta. Það er slæmt, ef beztu vörurnar hækka svo í verði, að fólk getur ekki keypt þær. Hann sagði, að innlend fæðuefni gætu komið í staðinn fyrir kaffi og sykur. Ég gleðst af því, ef hann gerir mjólkina, með sínum sykurefnum, svo ódýra, að almenningur geti veitt sér hana. því miður hagar svo til hér í Reykjavík, að mjólk er allt of dýr til þess að fólk geti almennt veitt sér hana í stað kaffis og vafalaust verður þess langt að bíða, að svo verði.

Ráðh. var þá ekki heldur alveg á því að rýmka til um tollinn á fatnaðinum. Það skal játað, að það er leitt að íslenzka þjóðin skuli ekki geta unnið í og saumað sjálf þann fatnað, sem hún þarf að nota. Er nú í áratugi hefir verið fluttur inn fatnaður til notkunar innst sem yzt, og hinn létti, mjúki útlendi nærfatnaður hefir náið þeim vinsældum, að yngri kynslóðin er orðin alveg alvön prjónafötnnum, og mun eflaust eiga mjög erfitt með að sætta aig við þau. Auk þess má benda á það, að útlendi nærfatnaðurinn er helmingi ódýrari en hinn innlendi, sem ég skal þó játa, að er miklu vænni. Það væri æskilegt, að okkur tækist að gera þessa vöru samkeppnisfæra, en eins og stendur er hún allt of dýr, jafnvel þótt fólk sætti sig við hana að öðru leyti.

Um skófatnaðinn sagði hæstv. ráðh., að fátæka fólkið notaði nær eingöngu gúmmískó. Þetta er hin mesta fjarstæða, sem betur fer, því að gúmmískófatnaður er af öllum viðurkenndur að vera óhollastur af öllum skófatnaði. Seinast í dag kom kom til mín, sem sagði mér, að barnið sitt þyldi ekki að ganga á gúmmískóm og þyrfti að fá aðra tegund skófatnaðar. Læknar viðurkenna allir óhollustu þessa skófatnaðar, og sumir halda því jafnvel fram, að notkun hans spilli sjóninni. Þótt slíkur skófatnaður geti verið góður á votengjum, er hættuleg fjarstæða að ætla að þröngva honum upp á fólk til daglegrar notkunar.

Þegar að ávöxtunum kom, sagði hæstv. ráðh., að við hefðum nóga ávexti. Ja, hvaða ávextir eru það nú eiginlega? Hvað ræktum við t. d. af eplum? Epli eru af læknum talin einhver hinn allra hollasti ávöxtur, og þeir ráðleggja foreldrum að láta börn sín borða sem allra mest af honum. (Fjmrh.: Ég hugsa, nú að flestir verði nú samt að vera án þess). Já, en af hverju? Af því, að eplin eru alltof dýr. Enskur læknir frægur hefir sagt, að börnin fengju sólskin úr eplunum, og margar mæður hafa sagt mér, að kirtlaveik börn þeirra hafi tekið miklum stakkaskiptum eftir að þau fóru að borða epli. Við þurfum að fá nóg af góðum og ódýrum ávöxtum. Við getum ekki framleitt þá ennþá, en þegar það verður, skal ég greiða atkv. með tolli þeim, sem hæstv. fjmrh. vill leggja á aðflutta ávexti.