05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Þorsteinn Þorsteinsson:

Hæstv. fjmrh. hefir nú lýst skoðun sinni á brtt. mínum. Má segja um hann eins og þar stendur: Hann talaði, og það varð, en hvort allt verður harla gott að lokum, er annað mál.

Hann sagði, að þakjárn væri verðlagt í innkaupi og einstaklingana munaði ekki um að greiða þennan litla toll. En munar þá ríkissjóð nokkuð um hann? Ég þykist vita, að hæstv. ráðh. segi, að safnist, þegar saman kemur. En eftir því sem hann hefir lýst hinum glæsilegu hag ríkissjóðs undanfarið, er ástæða til að ætla, að hann muni minna um þennan toll en fátæka einstaklinga. (Fjmrh.: Hann er illa staddur líka). Ekki peningalega, eftir yfirlýsingum hæstv. ráðh., og ég vil ekki fara að koma með aðdróttanir um það, að hann sé illa staddur vegna illrar stjórnar.

Eins og bent var á hér í gær, sverfur kreppan nú svo mjög að mönnum, að þeir byggja ekki nema það allra nauðsynlegasta, hvort heldur um nýbyggingar eða endurbætur er að ræða. Þetta er því allt annað en að skattleggja efni í lúxusbyggingar, svo sem marmaraflísar o. þ. h. Það er því réttlátt og sjálfsagt, að þessar vörutegundir séu tollfríar.