09.12.1935
Sameinað þing: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

1. mál, fjárlög 1936

Magnús Guðmundsson:

Ég held, að hv. þm. Ísaf. hafi ekki skilið, hvað ég var að fara áðan. Það, sem hér liggur fyrir, er aðeins að lækka þann lið, sem ætlaður er til alþingiskostnaðar. Í þeim lið er ekkert sagt um það, hvort leggja eigi niður prentun á ræðuparti þingtíðindanna. Hitt er rétt, að þetta stendur í nál., en það verður ekki að lögum. Og þótt þessar tölur breyttust í fjárl., þá hefir það engin áhrif á þau ákveði þingskapanna, sem fyrirskipa, að það skuli prenta umr. á Alþingi. Ég er hissa á því, að hv. þm. Ísaf. skuli ekki geta skilið þennan mikla mun. Við skulum segja, að þessi till. yrði samþ., en svo yrði aftur fellt að leggja niður prentun á ræðuparti Alþingistíðindanna. Hvað skeður þá? Ekkert annað en það, að þessi liður reynist of lágt áætlaður, því að það er ómögulegt fyrir hæstv. stj. að fella niður prentun þingtíðindanna bara fyrir þá sök, að lækkað hafi verið framlag til þingkostnaðar, því að það stendur fyrirmæli í lögum um það, að prenta skuli þingtíðindin. Ég vona, að allir hv. þm. skilji, að með samþykkt þessarar till. er ekki á nokkurn hátt brotið ákvæði þingskapanna um þetta atriði. Það eina, sem hægt er að segja í þessu tilfelli, er það, að liðurinn sé óskynsamlega áætlaður, en hann er áætlaður með það fyrir augum, að ef þessi möguleiki bregzt, þá er gert ráð fyrir, að fjvn. komi með aukatill. í þessu efni.