09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (2825)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Thor Thors:

Það er ekki ýkjamargt, sem ég þarf að svara hæstv. fjmrh. — Það er rétt, sem hann tók fram, að það hefir oft verið deilt um þessi mál á Alþ., og nú nýskeð um þetta frv. í Ed.

Það er eins og fyrri daginn, að þessi hæstv. ráðh. sér ekki aðrar leiðir til úrræða heldur en að leggja stöðugt ný og ný gjöld á þjóðina. Og þegar honum er bent á alvarlegu hliðina á því máli og afleiðingarnar af þessari skattpíningu ríkisstj., þá talar hæstv. ráðh. með gleiðgosalegu brosi og gríni og gamamyrðum um ástandið. Það er varla hægt að beita meiri óskammfeilni heldur en fram kemur í þessum endurteknu herferðum hæstv. fjmrh. á hendur skattborgaranna í landinu. Ég þarf ekki að færa fleiri rök að því, tölurnar tala þar sínu máli, og halda áfram að tala. Hæstv. ráðh. getur ekki neitað því, að á síðasta þingi voru skattar og tollar hækkaðir um 2 millj. kr., og nú er hér á ferðinni frv. um 1200 þús. kr. hækkun á sköttunum. Ég þarf ekki að benda á önnur rök fyrir óskammfeilni hæstv. ráðh. um fjársókn í vasa skattborgaranna. Hæstv. ráðh. sagði, að tölurnar á tekjuhlið fjárl. væru ekkert hærri en áður. Það en af því að tekjustofnarnir eru að þverra, og ríkissjóður fær ekki þær tekjur, sem til er ætlazt samkv. tekjuöflunarlögum. En hvað tekur hæstv. ríkisstj. þá til bragðs? Með flutningi þessa frv. beitir hún samskonar kurteisi eins og aðkomumaður, sem barið hefir að dyrum hjá nágranna sínum og beðið hann um fjárhagslegan stuðning, en ekki fengið úrlausn. Hann kveður brosandi og segir, að þetta skipti nú annars ekki miklu máli. En stundarkorni síðar kemur hann aftur, fer þá inn um glugga hjá nágranna sínum og tekur á brott með sér það, sem hann áður hafði beðið um. Hæstv. ráðh. talaði um, að tekjur ríkissjóðs hefðu minnkað og því yrði að finna nýja tekjustofna. En af hverju hafa þær minnkað? Af því gjaldgeta borgaranna hefir minnkað. Af hverju þarf hv. fjvn. að færa tekjuskattinn og eignarskattinn svo mikið niður í fjárlfrv. næsta árs, frá hinni upphaflegu áætlun fjmrh., eða úr 1950 þús. kr. niður í 1550 þús. kr.? vissulega af því, að tekjur manna hafa minnkað.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að ég hefði verið að óska eftir því, að fjárl. væru nú ekki hærri en þau voru 1918. Hvílíkur útúrsnúningur! Ég gerði samanburð á niðurstöðutölum tekna og gjalda, í fjárl. 1918 og í fjárlfrv. þv., sem nú liggur fyrir, og einnig á nokkrum einstökum liðum þeirra fjárl. Út af þessu segir hæstv. ráðh., að ég hafi viljað setja fjárl. í sama farið og þau voru þá. Þetta er ekkert annað en hans eigin hugarburður og tilgátur. Ég benti aðeins aftur í tímann til samanburður á því, hvert nú væri stefnt um tekjuöflun til ríkissjóðs og eyðslu á opinberu fé, og til þess að undirstrika það, að þessa stefnu yrði að stöðva. Það er þjóðarnauðsyn, og að því hlýtur að koma fyrr eða síðar. Ég skal ekkert um það segja, hvort það verður í stjórnartíð þessa hæstv. ráðh., en býst síður við því. Ég hygg, að hann hafi ekki viljaþrek til þess að stöðva ógæfuna; hann lætur stöðugt undan kröfum sósíalista, sem sífellt þurfa að veifa í kringum sig ýmiskonar skrumauglýsingum til þess að tapa ekki lýðhyllinni. En það sjá allir skynbærir menn, að íslenzka þjóðin er ekki svo efnum búin, að hún geti fullnægt öllu skrumi og slagorðum þeirra þjóðmálaskúma, sem mest slá um sig í þjóðmálunum. — Það væri náttúrlega mjög æskilegt, ef alltaf væri hægt að afla ríkissjóði nýrra tekna til síaukinna framkvæmda. En allir vita, að tekjuöflun er svo takmörkuð hér á landi og gjaldgeta einstaklinga þverrandi á þessum síðustu og verstu tímum. Það er því fyllsta ástæða til þess að nema staðar í þessu efni og líta á þær staðreyndir, sem við blasa. Og þeir menn, sem það vilja gera, láta vissulega stjórnast af meiri þjóðhollustu heldur en hinir, sem láta einskis ófreistað til að fullnægja kröfum lýðskrumaranna.

Hæstv. fjmrh. sagði, að þessi nýi tekjuskattsviðauki, sem búizt er við, að nemi um 400 þús. kr., kæmi aðeins niður á örfáum stórefnamönnum. Þetta eru sömu slagorðin og hljómuðu á þinginu 1934, þegar tekjuskatturinn var hækkaður um 950 þús. kr., og alltaf var látið klingja, að sú skattahækkun kæmi aðeins niður á örfáum stórlöxum í Reykjavík. Nú er hér enn um 400 þús. kr. hækkun að ræða, og allt á þetta að leggjast á örfáa stórefnamenn í Reykjavík. — Ég hygg nú, að öllum hljóti að vera það ljóst, að hér þarf fleiri til að bera þessar álögur en örfáa menn í Reykjavík. Slagorð eins og þessi eru einskis virði. Það er augljóst, að 1350 þús. kr. upphæð er ekki lögð á örfáa, breið bök, heldur þarf fjöldamörg bök íslenzkra skattborgara til þess að rísa undir þeirri upphæð. — Það vill nú svo til, að hvorki ég né hæstv. fjmrh. höfum aðstöðu til að segja neitt afgerandi um þetta, né svara því, hversu margir komi til með að greiða skattaukann. Það eru einungis skattaskrárnar á næsta ári, sem skera úr því, hvort það verða aðeins hin örfáu breiðu bök, sem bera þessa nýju skatta. við sjáum, hvað setur. — Hæstv. fjmrh. var að reyna að sýna fram á það með tölum, að skattaukinn kæmi aðeins niður á breiðu bökin. Ég náði ekki þeim tölum, sem hann fór með, en lofa því, að það skal verða sýnt fram á það við 2. umr. með tölum, hvernig skattstiginn verkar. En ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi ekki skýrt allskostar ráðvandlega frá því. Hv. 2. þm. N.-M. skaut því fram í ræðu hans, að hann hefði sleppt því að reikna með útsvari af eignum. (Fjmrh.: Hvað kemur það við útsvarsgreiðslu af launum?). Ég hygg, að flestir af þeim, sem hafa ríflegar tekjur, eigi líka eignir. (Fjmrh.: Hvað á hv. þm. miklar eignir?) Ég hygg, að ég eigi fullkomlega eins mikið og hæstv. ráðh. En ef á að gera hér að umtalsefni eignir einstakra þingmanna, þá skal ég ekki telja eftir mér að benda á efnahagsástæður ýmsra sósíalista og einnig samflokksmanna hæstv. ráðh. — Þá talaði hæstv. fjmrh. mikið um eyðsluvenjur þjóðarinnar og hélt því fram, að ríkisvaldið hefði ekki seilzt svo langt, að það bannaði einstaklingum að spara; ennfremur sagði hann, að sjálfstæðismenn hefðu ekki sýnt neina sparnaðarhneigð öðrum fremur. Ég hygg, að það hafi verið alveg upp og ofan. Ég skal fúslega játa það, að enginn stjórnmálaflokkur hefir gætt þess svo sem vera ber. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann líti svo á, að slík skattalög, sem hér um ræðir, skerpi hvatir manna til þess að spara af tekjum sínum, þegar ríkisvaldið tekur allan kúfinn af tekjum þeirra, og miklu meira, með sköttum til ríkissjóðs.

Hæstv. ráðh. sagði, að við sjálfstæðismenn töluðum mikið um það, að við vildum létta af þjóðinni útgjöldum, en ef farið væri að okkar ráðum, þá mundi það leiða til algerðs ábyrgðarleysis, skildist mér, eða a. m. k. til mjög verulegs niðurskurðar. Flokksmenn hans hafa og haldið þessu mjög á lofti í stjórnmálabaráttunni að undanförnu; en þeir gleyma að geta þess, að sjálfstæðismenn hafa margsinnis lýst því yfir á þingi, að þeir væru reiðubúnir til samvinnu um fjármálin. En þeirri samvinnu hefir alla tíð verið hafnað. Og ég geri ráð fyrir, að henni sé neitað vegna þess, að það hæfi ekki sósíalistum að nema staðar á þeirri óheillabraut, sem nú er farin. Ég veit, að ýmsir framsóknarþm. óska þess í rauninni, að numið sé staðar á þessari braut og tekin upp ný stefna í fjármálunum, en þeir fá ekki þeirri ósk sinni framgengt, fremur en fjölda mörgum öðrum, fyrir yfirgangi sósíalista. Hæstv. ráðh. sagði, að þegar almenningur væri farinn að kynna sér þessa stefnu stj., þá yrðu menn í hjarta sínu þakklátir fyrir þessar ráðstafanir. Hvílík einfeldni ! Ég er sannfærður um, að því fleiri sem kynna sér þessar ráðstafanir, því fleiri mótmæla þeim, því lengur sem hæstv. núv. stj. situr við völd, því greinilegar koma fram afleiðingar verka hennar á þjóðinni, illu heilli. Og þær afleiðingar leiða áreiðanlega til vaxandi óánægju og mótmæla, og ég efast um, að þegar stundir líða fram og hæstv. fjmrh. þarf að líta yfir farinn veg, þá geti hann verið þakklátur þeim mönnum, sem keyrðu hann áfram á þessari óheillavænlegu braut.