09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég þarf sem nm. í fjhn. að fá upplýsingar viðvíkjandi þessu frv. Og það er vegna þess, að við athugun þykist ég sjá, að frv. sjálft sé ekki í samræmi við það, sem gefið er upp af hæstv. fjmrh. í grg. þess. Viðvíkjandi tekjuskattkattshækkuninni segir í grg. frv., sem mér skilst vera samin af hæstv. fjmrh. eða einhverjum fyrir hans hönd, að þessum skatti sé þannig háttað, að hækkunin byrji fyrst á 6000 kr. skattskyldum tekjum. En við samanburð á skattstiga frv. við skattstiga gildandi laga kemur í ljós, eins og í rauninni hefir verið drepið á, að skatturinn fer að hækka miklu fyrr heldur en þarna er gefið upp. Samanburðurinn á skattstigunum er sem sé þannig, að af 2000 kr. skattskyldum tekjum greiðist 30 kr. samkv. báðum, en af því, sem þar er umfram, greiðist eftir gildandi l. 4%, en samkv. frv. 5% Af 4000 kr. skattskyldum tekjum verður skatturinn 80 kr. samkv. frv., en 70 kr. samkv. gildandi lögum, og þannig heldur þetta áfram, að í stað þess að skatturinn er 7% af því, sem er fram yfir 3000 kr., á hann að verða 71/2% ; af 4000 kr. 155 kr. í stað 144 kr., o. s. frv. Mér heyrðist hæstv. fjmrh. segja, að þetta væri einnar krónu munur, eða svo. (Fjmrh.: Það gerir 10% viðaukinn á skattinum nú). Hann er bráðabirgðaákvæði, sem alls ekki hefir verið fast, og hefði væntanlega þurft að fá samþ. á þessu þingi, ef hann hefði átt að gilda áfram. Svo skatthækkunin frá gildandi l. er þetta, sem ég hefi greint, á þessu lága skattsviði, 3—6 þús. kr. skattskyldum tekjum, eða m. ö. o. um og yfir 10%. Út af þessu vil ég spyrjast fyrir um það, hvort það mundi verða samþ. af hæstv. fjmrh., ef fram kæmi frá fjhn. till. um að lækka skattstigann sem þessu svarar.

Annað er það, að ég sé, að í frv. hefir upphaflega verið gert ráð fyrir, að allri skatthækkuninni samkv. frv. yrði skipt milli ríkissjóðs og bæjar- og sveitarfélaga. En við meðferð málsins í Ed. hefir þessu verið breytt þannig, að mig minnir samkv. till. hæstv . fjmrh., að skiptingin komi aðeins til greina um hækkun skattsins af hærri en 6000 kr. skattskyldum tekjum. Mér er ekki vel ljóst, hvernig á þessari breyt. á frv. stendur. Það er eins og hæstv. fjmrh. hafi ekki gert sér grein fyrir því, þegar hann samdi frv. og lagði það fram, að um tekjuauka samkv. því yrði að ræða af lægri en 6000 þús. kr. skattskyldum tekjum, eða þá að hann hefir af ásettu ráði reynt að leyna því, í hvaða tilgangi sem það kynni að hafa verið gert. En hitt er víst, að frá frv. er gengið þannig, að skattaukinn ætti allur að skiptast að jöfnu milli ríkissjóðs og sveitar- og bæjarfélaga, og auðvitað er ekki síður ástæða til að skipta þeim skattauka, sem tekinn er af lágum tekjum, milli þessara aðilja, heldur en þeim, sem tekinn er af háum tekjum, því vitanlega eru miðlungstekjurnar einmitt tryggasti tekjustofninn, og ef gengið er meira á þær til að afla ríkissjóði tekna heldur en góðu hófi gegnir, þá verður það sannarlega jafnvel ennþá tilfinnanlegra fyrir sveitar- og bæjarfélögin heldur en þó gengið sé nokkuð á hátekjurnar með hátekjuskatti, því hann mun nú úr þessu fara að reynast mjög ótryggur gjaldstofn hvort sem er.

Að öðru leyti hefi ég ekki miklu við það að bæta, sem flokksmenn mínir hafa sagt um þetta tekjuöflunarfrv. Hæstv. ráðh. gaf í skyn, að það fyrirbrigði, að tolltekjur ríkissjóðs fara nú svo minnkandi, að ár frá ári verður að gera leiðréttingu á fjárl.áætlun þeirra til lækkunar, stafaði af innflutningshöftunum. Hann virðist ekki vilja viðurkenna, að þessi hækkun stafi af því, að kaupgeta almennings í landinu minnkar, svo hann getur ekki keypt þær vörur eins og áður, sem tollaðar eru, heldur telur, að það séu aðeins innflutningstakmarkanirnar, sem skera niður ríkistekjurnar. Þar við er það að athuga, að ennþá hefir ekki komið til þess samkv. innflutningsskýrslum, að innflutningurinn hafi rýrnað til neinna verulegra manna. Innflutningur yfirstandandi árs virðist jafnvel ætla að komast yfir það mark, sem hann áður hefir verið lægstur á seinni árum. Í oktoberlok var innflutningurinn sem sé kominn upp í 36 millj., en árið 1932 var innflutningurinn allt árið ekki nema 37 millj. 351 þús. kr. Svo það verður a. m. k. ekki séð, að innflutningurinn þetta ár verði lægri en áður eru dæmi til. Hinsvegar brygði mjög undarlega við, þegar vitað er, að atvinnuleysi meðal almennings fer vaxandi ár frá ári, svo að hér í Reykjavík eru t. d. að staðaldri um og yfir 1000 atvinnulausra manna, sem er miklu hærri tala heldur en áður hefir þekkzt, ef kaupgetan í landinu væri þrátt fyrir það hin sama og áður, meðan atvinna var meiri og afkoma fólksins þar af leiðandi betri. Það liggur í augum uppi, að kaupgeta almennings hlýtur að fara minnkandi ár frá ári, og það hlýtur að hafa aftur áhrif á tekjuöflun ríkisins; þ. e. a. s., kaup almennings á þeim vörum, sem tolllagðar eru, fara minnkandi. Þær leiðréttingar, sem orðið hefir að gera á tolltekjuáætlun fjárl., bæði í fyrra og aftur núna, stafa þannig að svo og svo miklu leyti beinlínis af því, að almenningur verður að draga við sig kaup á þessum vörum. T. d. má taka, að nú er gerð leiðrétting á tóbakstolltekjunum til lækkunar, og er þó ekki kunnugt, a. m. k. neinar hömlur séu á innflutningi tóbaks eða skortur á þeirri vöru í landinu. Ef tolltekjur af tóbaki minnka, þá er það vitanlega af því, að minna er keypt af því og notað í landinu. (Fjmrh.: Það hefir líka hækkað í verði). Já, við vorum einmitt að segja hæstv. ráðh. það í fyrra, sjálfstæðismenn, þegar hann lagði fram till. um mikla hækkun á tóbakstollinum, að hún mundi aðeins hafa áhrif í þá átt að minnka sölu á þessari vörutegund. Og það er alveg sama, hvort lagður er aukinn tollur á einhverja vöru eða verð hennar hækkað með einkasölu, hvorttveggja hefir áhrif í þá átt að auka dýrtíðina í landinu og að almenningur getur minna keypt en ella. Allt styður þetta að því, að það er ekki allskostar rétt hjá hæstv. fjmrh., að þetta fyrirbrigði, hvernig tekjustofnar ríkissjóðs vilja nú bregðast, stafi af innflutningshömlunum eingöngu, heldur stafar það af hinu, að kaupgeta almennings svarar ekki til hins hækkaða vöruverðs, af hvaða ástæðum svo sem sú hækkun er.

Það er því fyrirsjáanlegt, að sú hækkun, sem nú á að gera á tollum, þó hún sé að miklu leyti á nauðsynjavörum, mun verka á móti tilgangi sínum, þannig að tekjurnar í ríkissjóð verða minni heldur en gert er ráð fyrir. Yfirleitt er nú svo komið fyrir hæstv. ríkisstj., að hún er líkt stödd eins og maður, sem gengur eftir svo veikum ís, að hann þá og þegar stígur niður úr í hverju spori. Á þessari braut síhækkandi tolla og skatta fer hæstv. stj. að stíga niður úr í hverju spori; þ. e. a. s. gjaldstofnarnir fara að láta undan, og að lokum hlýtur allt að bresta undan þessari skattaherferð. Þetta gildir jafnt um tekjuskattshækkanirnar, sem framkvæmdar eru hver ofan á aðra, eins og tollhækkanirnar, sem ár frá ári er bætt á neyzluvörur almennings, hvort sem þær nú eru kallaðar nauðsynjavörur eða munaðarvörur.

Það er leiðinlegt, að svo skuli vera um þetta samkomulags- eða samningsmál hv. stjórnarflokka, að þegar það er til 1. umr. hér í d., þá skuli aðeins vera nokkrir menn, sem verða að taka á sig allan þungann af þeirri ábyrgð, sem fylgir þessu frv. og virðist eiga að hvíla sameiginlega á báðum flokkunum. Það hefir áður verið drepið á það við umr., að það var eins og einhver bráð nauðsyn á að verða á burt úr salnum kæmi yfir alþýðuflokksmennina hér í d., þegar þetta mál var tekið fyrir, því skömmu eftir að umr. hófst voru þeir allir horfnir. Síðan hefir að ég hygg aðeins einn þm. úr þeim flokki látið sjá sig í d., a. m. k. við og við; hinir virðast gersamlega hafa horfið, og má mikið vera, ef ekki þarf að gera gangskör að því að hefja leit að þeim þegar að atkvgr. kemur, ef málið á að bjargast til 2. umr. á þessum degi. Að vísu er hér viðstödd sú hjálparhella, sem allt veltur á nú, líf hæstv. stj. a. m. k. (MT: Þetta er nú oflof!). En hún er ekki einhlít að þessu sinni. Hitt mætti virðast, að það væru ekki málsvarar Framsfl. fyrst og fremst, sem hér þyrftu að vera til andsvara, þegar um er að ræða þá hækkun á nauðsynjavörum, sem gera á með þessu frv. Það hefir að vísu verið reynt í blöðum hæstv. stj. að telja mönnum trú um, að hér væri ekki um toll af nauðynjavörum að ræða. En við nánari athugun er enginn vafi á því, að helmingurinn af þeim tekjum, sem ætlunin er að afla með þessu frv., er einmitt tekinn af brýnustu nauðsynjavörum. Hvað mikill meiri hluti væntanlegs tekjuauka er gert ráð fyrir, að tekinn verði af nauðsynjavörum, kemur ekki ljóslega fram að vísu, en hinsvegar má ætla, að gert sé ráð fyrir, að allar tekjurnar náist af þremur fyrstu tollflokkunum, sem taldar eru í frv., því væntanlega verður að mestu leyti bannaður innflutningur á þeim vörum, sem falla undir síðasta flokkinn, 25% flokkinn, sem að miklu leyti grípur yfir ýmiskonar lúxusvörur svokallaðar. Þó skiptar séu sjálfsagt skoðanir um það, hvort allt, sem talið er í þeim flokki, er hreinn óþarfi. Ætla má, að a. m. k. 500 þús. kr. verði innheimtar í þessu viðskiptagjaldi af tveimur fyrstu flokkunum, 2% og 5% flokkunum, sem eingöngu taka til fullkominna nauðsynjavara. Nú, í 3. flokki eru auðvitað margskonar vörur, sem fluttar verða inn og nauðsynlegar eru almenningi, og má því búast við, að hann fylli nokkuð þá áætluðu upphæð, sem ætlunin er að afla með þessum tolli.

Málsvarar þessa frv. eru í rauninni hættir að halda því fram, að þessi tollur lendi ekki að neinu leyti á framleiðslu landsmanna, enda er það tilgangslaust, því hver maður, sem les yfirlitið yfir þær vörutegundir, sem hér er um að ræða, sér í hendi sér, að þessar vörur eru allar beinlínis eða óbeinlínis nauðsynlegar til framleiðslunnar. Þess vegna er hér ekki aðeins verið að leggja skatt á allan almenning, heldur líka á sjálfa framleiðsluna, þó deila megi um það, sem að vísu verður ekki deilt um með rökum, að allir tollar af nauðsynjavörum hljóta að lokum að lenda á framleiðslunni, því framleiðslan er það vitanlega, sem ber uppi alla framfærslu manna í landinu. Og um leið og framfærslukostnaður almennings hækkar eru vitanlega þar með lögð ný útgjöld á sjálfa framleiðsluna. Ef nokkuð liggur á bak við þá staðhæfingu stjórnarflokkanna, að þessi tollur lendi ekki á framleiðslunni, þá getur það ekki verið neitt annað en það, að það sé ekki þeirra tilætlun, að hinn vinnandi lýður í landinu, sem fyrst og fremst á að greiða þennan skatt til ríkissjóðs, eigi að fá það upp bætt með kauphækkun. Það hefir verið litið svo á almennt af hinum vinnandi lýð, að ef verðbreyting yrði í landinu á almennum nauðsynjavörum, af hverju sem það stafaði — en sérstaklega hefir verið um þetta rætt í sambandi við breytingar á verðgildi peninga —, þá hlyti að leiða af því, að kaupgjald í landinu yrði að hækka. Þegar nú slíkur tollur er lagður á, sem leiðir af sér allsherjar verðhækkun á nauðsynjum fólksins, þá er auðsætt, að ekki er í rauninni um neitt annað að ræða heldur en lækkun á verðmæti gjaldmiðilsins. Það, sem hér er um að ræða, er því í raun og veru gengislækkun á íslenzkri krónu. En ef stjórnarflokkarnir standa við það, að afleiðingarnar af þessari breyt. á verðgildi krónunnar eigi ekki að koma niður á framleiðslunni í kauphækkun, þá ganga þeir með því tvímælalaust á móti þeim kröfum, sem haldið hefir verið fram af öllum verkalýð í landinu. Og get ég hugsað mér, að verkafólkinu þyki það allþungar búsifjar, ef nú á að fara að hækka þannig vöruverðið ár frá ári án þess að það fái nokkrar bætur fyrir. Hinsvegar hlýtur afleiðingin af þessu hvorutveggja, tollhækkuninni og skatthækkuninni, að verða vaxandi erfiðleikar við atvinnuframkvæmdir einstaklinga, og þar af leiðandi hlýtur líka að fara vaxandi atvinnuleysið í landinu, svo mönnum verður minna úr þeim tekjumöguleikum, sem menn annars hafa. Hefir fylgt listi yfir þær framkvæmdir og þau mál, sem þessum sköttum er ætlað að hafa stuðning sinn í, og er hann prentaður í grg. fyrir frv. Þar eru fyrst ætlaðar til alþýðutrygginga 300 þús. kr. Það er vissulega athugavert fyrir allan landslýð, hvort það borgar sig á þessum tímum að fá slíkar tryggingar og kosta til þess þessari 300 þús. kr. upphæð, sem beinlínis er tekin úr vörzlum almennings, auk þess sem þar á ofan á að bæta nýjum gjöldum á allan almenning, iðgjöldunum. Þessi gjöld geta sem sé orðið allt að 300 kr. á einstakling. Að vísu má segja, að menn eigi að fá nokkur hlunnindi fyrir þetta, en skyldu þeir þó ekki verða fáir, sem fá hlunnindi, er því svara, sem þeir verða að greiða beint eða óbeint? Beint eiga menn að greiða iðgjöldin, sem ég nefndi áðan, en óbeint verða teknar af einstaklingunum þessar 300 þús. kr. Og hér við bætist, að einn aðalþáttur trygginganna á ekki að koma til framkvæmda að svo stöddu, heldur á að byrja á því að safna iðgjöldum almennings í sjóð, sem á að verða nokkrar milljónir, áður en farið verður að nota hann. Nú má spyrja: Er hagur almennings í landinu þannig, að hann megi við því að leggja mikið fé í slíka sjóði? Ef til vill má segja, að einstaka menn megi við þessu, en áreiðanlega ekki þorri manna. Virðist því auðsætt, að tími til slíkrar fjársöfnunar er illa valinn, þegar allur þorri manna til sjávar og sveita hefir ekki tekjur fyrir brýnustu þörfum.

Þá er gert ráð fyrir því, að mikið fé verði lagt til landbúnaðar í ýmsum myndum, þar á meðal 200 þús. kr. til nýbýlamyndunar. Eftir því, sem hljóðið hefir verið undanfarið í forsvarsmönnum landbúnaðarins, hlýtur mönnum að koma það undarlega fyrir sjónir, að nú eigi að fara að stofna til storkostlegra útgjalda úr ríkissjóði til þess að auka landbúnaðinn. Yfirleitt hefir það verið á þeim að heyra, að mesta ólán landbúnaðarins sé það, að hann getur ekki komið afurðum sínum í verð. Það hefir verið rannsakað, hvert er framleiðsluverð hérlendra landbúnaðarafurða, og allir vita, að það er hærra en gangverð þeirra vara hér innanlands nú á tímum. Til hvers er þá að auka framleiðsluna, sem ekki getur leitt til annars en þess að auka meðalverð afurðanna og gera landbúnaðinum erfiðara að komast af? En nú á að fara að verja 200 þús. kr. til aukningar þessari framleiðslu, sem bætist þó við það, sem nú er óseljanlegt eða verður að selja undir verði. Ég sé ekki, að þetta mál sé svo nauðsynlegt hæstv. stj., að það geri óhjákvæmilega slíka skattaálagningu sem þessa, því að það er gífurleg tollahækkun að bæta úti 800 þús. kr. ofan á allt það, sem reytt er af mönnum nú þegar með hverjum bita. Svipað má segja um flest það, sem ráðgert er að verja þessu fé til. Ég get ekki fallizt á, að nauðsyn þess sé svo mikil, að forsvaranlegt sé að leggja á þennan skatt þess vegna.

Fleira hefði verið ástæða til að athuga af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, t. d. það, er hann sagðist ekki hafa tekið eftir því, að sjálfstæðismenn temdu sér sérstaka sparsemi. Þetta er óneitanlega í nokkru ósamræmi við það, sem maður er vanastur að heyra úr herbúðum stjórnarflokkanna. Við erum vanir að heyra það, að við séum málsvarar auðsöfnunarinnar á þessu landi og stöndum sem grimmir varðhundar hvenær sem seilzt er í þennan uppsafnaða auð til handa ríkissjóði. Ég býst við, að stjórnarsinnum þyki þetta sanni nær um okkur en það, sem hæstv. fjmrh. sagði. Þá er líka vert að athuga í sambandi við orð hans, hvernig sparnaði hefir miðað áfram í landinu. Ég er viss um, að það gefur mikilsverðar upplýsingar, ef það er athugað í sambandi við þetta mál. Það er rétt, sem haft er eftir sænskum hagfræðingi, er skipulagsn. fékk sér til aðstoðar, að sparifjársöfnun er skammt komið hér á landi. Sparifé Svía nemur ca. 1500 kr. á mann, en Íslendinga ekki nema 650 kr., eða tæpum helmingi. Sparifjársöfnun er hafin fyrir tiltölulega skömmum tíma á Íslandi. En þessi maður benti líka á það, hve öllum framkvæmdum er skammt komið hér á landi, en það skýrir líka, hve sparifjársöfnun er komin stutt á leið, því að þeir einstaklingar, sem haft hafa nokkurt fé til umráða, hafa heldur kosið að leggja það í fyrirtæki ýmiskonar. Hér var um eitt skeið beinlínis kapphlaup um að leggja fé í togaraútgerð. Allir vita, hvað orðið hefir um það fé. Það hefir sokkið. Ef því hefði verið haldið föstu í sparisjóðum. væri þar meiri upphæð á mann en nú er. Annars er gleðilegt að fá viðurkenningu á því úr stjórnarherbúðunum, að æskilegt sé, að menn spari fé, því að í rauninni finnst manni forsvarsmenn stjórnarflokkanna hafa beitt sér fyrir að magna það almenningsálit, að öll starfsemi, sem lyti að því að safna auði, væri svívirðilegt athæfi. Þessi hugsunarháttur hefir sérstaklega verið studdur af Alþfl. Er það tvímælalaust, að þessi hugsunarháttur er að eyðileggja fjárhagsaðstæður þjóðarinnar. Er því gleðilegt að heyra úr þessum herbúðum slík viðurkenningarorð. Efast ég um, að við hefðum fengið að heyra þau, ef ekki hefði farið svo, að við urðum að fá hingað erlendan fræðimann, sem er úr bróðurflokki annars stjórnarflokksins, því að svo mjög fer skoðun hans í bága við kenningar þeirra.