09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Mig langar til að svara hæstv. ráðh. fáum orðum. Honum þóknaðist að vera með skæting gagnvart mér og öðrum fyrir að hafa mælt gegn frv. Það heitir á hans kurteisa máli að „blása sig upp“, ef þm. láta í ljós skoðun sína á málum. Ég ætla nú ekki að fara að gjalda honum í sömu mynt. En þar sem hæstv. ráðh. sagði, að ég væri í ósamræmi við sjálfan mig, er ég í ræðu minni annarsvegar taldi tormerki á því, að áhugamál míns kjördæmis fengju framgang hjá stj., en sagðist hinsvegar hafa átt tal við hæstv. ráðh. og þeir hefðu sagt, að málinu yrði frestað til 3. umr., þá svara ég því, að reynslan verður að skera úr því, hve örlátir stjórnarflokkarnir verða við þetta mikla framleiðslufélag landsmanna.

Þá heyrðist mér á hæstv. fjmrh., að hann álíti, að eftir okkar till. ættu fjárl. að nema 11 millj. í stað 15 millj., og dró hann af þessu þá ályktun, að við vildum stöðva allar opinberar framkvæmdir. Ég hefi nú mælt í móti þessu frv., og það krafa mín og allra útgerðarmanna, að útflutningsgjaldi af sjávarafurðum verði af létt. Segir hann, að ég vilji þannig hafa af ríkissjóði 4 millj. kr. Þetta er nú rangt reiknað. Þó að löng sé nú orðin stjórnartíð hæstv. ráðh. og hann virðist farinn að gleyma því, að aðrir hafi nokkurn tíma komið nálægt fjármálum ríkisins, þá er það nú samt svo, að sjálfstæðismenn hafa líka afgr. fjárl., en ekki með þessum hætti. Sjálfstæðismenn stóðu að fjárl. l924, en lögðu samt ekki niður verklegar framkvæmdir, heldur juku þær þvert á móti.

Viðvíkjandi aths., sem ég gerði um fyrirsögn frv. og efni, heyrðist mér á hæstv. ráðh., að hann gerði ráð fyrir, að þetta yrði alls ekki bráðabirgðatekjuöflun. Hann talaði um, að í venjulegu árferði myndi einhver hluti af þessu fé nást inn á venjulegan hátt. Þetta er nú mjög teygjanlegt orðalag. Hinsvegar kannaðist hann við, að mestur hluti þess myndi halda áfram að nást inn á þennan óvenjulega hátt. Þessi tekjuöflun verður eftir því framhaldandi gjaldstofn, og á því ekki að vera að flagga með því að þetta sé bara til bráðabirgða.

Um hina fullyrðingu hæstv. ráðh., að meiri hluti þessa gjalds snerti ekki þarfir almennings, er það að segja, að hún hefir verið greinilega afsönnuð. (Fjmrh.: Ég hefi ekki talað um það). Ég hefi skrifað þetta upp eftir honum, en mér þykir vænt um, ef hæstv. ráðh. vill falla frá því nú.

Nú er þetta ekki eina álögufrv. frá þessum mönnum. Hér á dögunum var á ferðinni annað frv. hér á þingi, og hafði það einnig í för með sér aukna skatta á nauðsynjar almennings, en það hverfur þó alveg í skuggann, þegar þessi stóri skattur kemur. Það frv. var lagt fram í vor, og tel ég víst, að það eigi að verða að l. Þar eru margar nauðsynjavörur tollaðar fram yfir það, sem nú er, og þó að það sé í orði kveðnu gert til þess að bæta aðstöðu innlends iðnaðar, verður árangurinn sá, að þeir, sem eiga að nota þessar vörur, verða að kaupa þær dýrara verði.

Hæstv. ráðh. miklaði það fyrir sér, að ég færi fram á 4 millj. kr. tekjulækkun með því að leggja til, að frv. yrði fellt. Samkv. því, sem upp er gefið í forsendum frv., er ætlazt til, að þetta verði 1 millj. kr. tekjuöflun. Nú er á fjárl. gert ráð fyrir 130 þús. kr. tekjum umfram gjöld. En til þess að vera öruggur, vill hæstv. ráðh. fá samþ. þennan tekjuauka, sem nemur 1 millj. Jafnvel þó að allar þessar framkvæmdir væru nauðsynlegar, sem ekki er hægt að segja, eins og nú árar, þá þyrfti ekki heila milljón til að vinna upp á móti hallanum. Það, sem vantar inn í frv., eru 300 þús. kr. til alþýðutrygginganna, 200 þús. kr. til nýbýlamyndunar og 55 þús. kr. til kartöfluverðlauna, samtals 555 þús.

Það getur verið, að hann og aðrir í stj.flokkunum megi gera ráð fyrir því, að einhversstaðar muni ísinn bresta undan hælum þeirra, eins og hv. 3. þm. Reykv. orðaði það. En þeir eru þá ekki í vandræðum, þeir góðu menn. Þverrandi gjaldgetu þjóðarinnar svara þeir sí og æ með auknum sköttum og tollum. Það er með þessa menn eins og sagt er í ritningunni, að konungur kom eftir annan, og þótti sá fyrri hafa verið strangur í því, að leggja álögur á fólkið, en sá, sem á eftir kom, sagði við fólkið: „Faðir minn refsaði yður með svipu, en ég mun ekki refsa yður með svipu, heldur mun ég refsa yður með skorpionum“. Þessi aðferð er viðhöfð hér, því eftir því sem þjóðin á verra með að greiða skatta og tolla, þeim mun meira eru þeir hækkaðir af stj.