13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Um þetta mál hafa þegar orðið allmiklar umr. bæði í Ed. og einnig í blöðum og manna á meðal. Má því segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að bæta nokkru verulegu þar við, enda mun ég láta mér nægja að láta fáein orð fylgja þessu frv. af hálfu okkar meiri hl. fjhn., sem leggjum til, að frv. verði samþ. með nokkrum smávægilegum breyt.

Það er fyrir löngu orðið kunnugt, hvað þetta mál fjallar um. Það er farið fram á að afla ríkissjóði tekna til þess sérstaklega að standa straum af vissum útgjöldum, sem er ákveðið, að komi til framkvæmda á næsta ári í samræmi við væntanlega löggjöf, sem sumpart hefir þegar verið ákveðin af Alþingi og sumpart gert ráð fyrir, að verði samþ. á þessu þingi.

En það má öllum vera ljóst, að ef lagt er í ný veruleg fjárútlát, þá verður það einnig að fylgja því, að sjá fyrir tekjum til þess að bera uppi útgjöldin. hér er fyrst og fremst farið fram á að fara tvær tekjuöflunarleiðir. Annarsvegar er það allveruleg hækkun á tekjuskattinum frá því, sem hann er nú, aðallega á skattskyldum tekjum, sem eru yfir 6000 kr., og hinsvegar er farið fram á, að lagt sé gjald á vissar tegundir af vörum, sem fluttar eru til landsins. Er þeim skipað í flokka og lagt misjafnlega hátt hundraðsgjald á vörurnar, eftir því sem flokkarnir tilgreina.

Um fyrri tekjuöflunarleiðina, sem er að finna í 2. gr. frv., er það að segja frá sjónarmiði Alþfl., að hann telur, að þegar þurfi að afla tekna handa ríkissjóði, þá sé fyrst á það að líta, hverju verði náð með beinum sköttum eða öðrum tekjuöflunarleiðum, sem Alþfl. telur réttastar eins og nú standa sakir, svo sem einkasölum á vissum vörutegundum, sem geta aflað ríkissjóði tekna án þess að landsbúum sé að því nokkurt óhagræði.

Um tekjuskattinn er því það að segja, að bæði frá sjónarmiði meiri hluta fjhn. og einnig frá sjónarmiði míns flokks verður hann að teljast rétt leið til tekjuöflunar. Hann kemur ekki að neinu verulegu leyti við þá menn, sem hafa lágar tekjur, því að aðalhækkunin samkv. þessu frv. leggst á tekjur manna, sem eru allverulega tekjuháir á íslenzkan mælikvarða. Því að hækkun sú, sem nokkru nemur, þegar miðað en við gildandi tekjuskattsl., er þá sú heimild, sem hefir verið samþ. um álagningu 10% gjalds þar á, en hækkunin fyrir neðan 6000 kr. er sama sem engin, aðeins til samræmis, til þess að fá eðlilegan skattstiga, og því er hækkunin örlítil á lágtekjur frá því, sem nú gildir, að viðbættri 10% álagningunni, sem heimild er til samkv. núgildandi l. að leggja ofan á tekjuskattinn almennt. En þegar kemur upp fyrir 6000 kr. skattskyldra tekna, þá hækkar skatturinn verulega, en það er aðgætandi, að 6000 kr. skattskyldar tekjur og þar fyrir ofan svara yfirleitt til brúttótekna sem væru 8—11000 kr., og má segja, að þeir menn, sem hafa 10 þús. kr. tekjur og þar fyrir ofan, séu mennirnir, sem frekast geta byrðarnar borið í þjóðfélaginu. Eftir því sem tekjurnar hækka, fer gjaldið hlutfalislega hækkandi, svo að segja má, að þegar komið er upp í 28000 kr. skattskyldar tekjur, þá sé hann orðinn mjög hár, en hann er þá líka tekinn af mönnum, sem hafa svo háar tekjur, að þeim ætti að vera útlátalítið að gjalda það til ríkis og bæja.

Ég tel því, að þessi tekjuöflunarleið sé þess eðlis, að frá sjónarmiði þeirra, sem fyrst og fremst leggja áherzlu á, að tekna sé aflað hjá þeim, sem mestar hafa tekjurnar og mest umleikis, þá sé hún mjög í samræmi við skoðanir stjórnarflokkanna á skattamálum, einkum Alþfl., en þó einnig Framsfl.

Hitt kann að þykja nokkru undarlegra, að Alþfl. hefir einnig horfið að því ráði, að lagt verði gjald á nokkrar innfluttar vörur meira en nú er gert. En til þess liggja þau rök, eins og fram hefir verið tekið við umr. um þetta mál í Ed. og einnig í blöðum Alþfl. og víðar, að Alþfl. álítur, að þar sem hann stendur að stj. og vill stuðla að því að koma í framkvæmd ýmsum málum, sem hafa í för með sér verulegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, þá sé það skylda hans sem stuðningsflokks stj., sem vill vinna að framkvæmd nauðsynlegra mála, sem óhjákvæmilega hafa í för með sér allveruleg útgjöld, þá sé honum nauðsynlegt að finna tekjuöflunarleiðir til þess að vega á móti útgjöldunum.

En þar sem ekki náðist fullkomið samkomulag milli Alþfl. og Framsfl. um það, hvernig skyldi afla teknanna, lengra en það, sem tekjurnar af tekjuskattsaukningunni náðu, þá varð það ofan á af þessari brýnu nauðsyn, að Alþfl. mælir með því að leggja þetta gjald á þær aðfluttu vörur, sem eru tilgreindar í frv.

Það má segja um þetta gjald, að það sé ekki í anda Alþfl., svo að ég minnist fyrst og fremst á sjónarmið þess flokks. Það er að því leyti gagnstætt anda Alþfl. að það er mjög nálægt skattamálastefnu sjálfstæðismanna, sem vilja fyrst og fremst afla tekna með tollum af aðfluttum vörum og telja, að fyrir löngu sé komið of langt í álagningu beinna skatta hér á landi. Það hefir líka verið fundið þessari tekjuöflunarleið til foráttu, að með henni væri lagt gjald á þær nauðsynjavörur, sem hingað eru fluttar, því verður ekki heldur neitað, að hér er farið fram á að leggja gjald á nauðsynjavörur. Mönnum hefir orðið tíðræddast um kaffið og sykurinn, sem lagt er til, að gjald verði lagt á. Gjaldið, sem lagt er á sykurinn, er 5% af innkaupsverði, en þegar það er aðgætt, að það var Alþfl., sem kom því beinlínis til leiðar, að á Alþingi 1934 var lækkaður til stórra muna tollur á kaffi og sykri, þá er varla hægt um að sakast, þó að nú sé lagt gjald 2 þessar vörur, sem er ekki nema örlítið brot af þeirri lækkun, sem Alþfl. kom á 1934.

Þegar samsteypustjórnin var við völd undir forustu hv. þm. V.-Ísf. og Sjálstfl. átti þar einn mann, var hnigið að því ráði að leggja 25% gengisviðauka á kaffi og sykur, og var það veruleg hækkun. Alþfl. stóð þá gegn þessu, en nú hefir hann neyzt til að ganga inn á að leggja örlítið gjald á þessar vörur, en þetta gjald er svo lítið, að segja má, að það geti vart orðið tilfinnanlegt fyrir alþýðu manna, sem þessarar vöru neytir. Eftir núv. verðlagi á þessum vörum mun hækkunin nema 4 aurum á kg. af kaffi, en tæplega 1 eyri á kg. af sykri. Og þegar athugað er, að á 1/4 kg. pakka af kaffi leggst 1 eyrir, þá er sannarlega ekki hægt að segja, að hér sé að ræða um stórkostlega hækkun á vöruverði.

Um þetta gjald af innfluttu vörunum er það annars yfirleitt að segja, að undanþegnar gjaldinu eru fyrst og fremst allar vörur til framleiðslunnar sjálfrar, bæði landbúnaðar og sjávarútvegs, því að í undantekningarákvæðum 3. gr. eru taldar upp allrækilega þær vörur, sem notaðar eru til framleiðslu til lands og sjávar, og þær allar undanskildar þessu gjaldi. Töldu stjórnarflokkarnir, að nauðsynlegt væri að undanþiggja þessar vörur gjaldinu. Það er aðgætandi líka, að ekkert gjald er lagt á þær vörur, sem samkv. viðskiptasamningi milli Íslands og Stóra-Bretlands frá 1933 var samið um, að ekki skyldi leggja hærra gjald á, eftir að sá samningur öðlaðist gildi, en þar á meðal er mestur hluti af allri ódýrari vefnaðarvöru, t. d. karlmannafataefni úr ull, kjólaefni úr baðmull, tvisttau og rifli úr baðmull, gluggatjaldaefni úr baðmull, léreft úr hör eða hampi, sokkar, nærföt, önnur en úr silki eða gervisilki, línfatnaður, regnkápur, enskar húfur o. s. frv. Hér er talinn upp mestur hluti af ódýrari vefnaðarvöru, sem almenningur kaupir, og er hann því undanskilinn þessu gjaldi. Einnig er rúgur og rúgmjöl undanskilið þessu gjaldi sem óhjákvæmileg neyzluvara almennings. Þannig er það auðsætt, að með frv. er þess gætt að undanskilja frá vörugjaldinu flestar þær vörur, sem einkum eru notaðar til allrar framleiðslu, bæði til lands og sjávar og einnig þær vörur, sem alþýða manna má ekki án vera.

Svo að ég hverfi að lokum örlítið að því, sem hefir verið varpað að okkur Alþfl.-mönnum út af þessu máli, þá er það kunnara en frá þurfi að segja, að það er stefna allra jafnaðarmanna um allan heim, að tekna til ríkis og bæjarfélaga sé fyrst og fremst aflað með beinum sköttum, og þá frá þeim mönnum, sem bezta hafa afkomuna og mestar tekjur, en vilja hinsvegar, að sem minnst hvíli á nauðsynjum manna, og helzt ekkert, en þó megi gjarnan leggja gjald á svokallaðar lúxusvörur eða það, sem aðallega er keypt af þeim, sem meiri efni hafa, en þeir fátækari verða að neita sér um, vegna þess hvað þeir hafa úr litlu að spila og lítil föng á að afla tekna fyrir sig og sína.

En þó að þetta sé stefna jafnaðarmanna, þá hafa þeir með þátttöku í stjórnum landa orðið að nokkru leyti vegna aðstæðnanna að víkja frá þessu í sambandi við þá flokka, sem þeir hafa unnið með að umbótamálum við stjórnarframkvæmdir. Ég vil þar minna á það, að 1932 var aflað tekna í ríkissjóð Dana til atvinnubóta og verklegra framkvæmda vegna atvinnuleysis, og þessara tekna var aflað með 40% álagi á tekjuskattinn og einnig með auknum tolli af kaffi og nokkrum öðrum vörutegundum. Annað samkomulag náðist ekki við þá flokka, sem þeir hafa þurft að hafa samvinnu við. Fyrir tæpu ári síðan var í Noregi lögleitt, undir forustu jafnaðarmanna, viðskiptagjald af allri vöruumsetningu í landinn, og þessu fé var varið til þess að bæta úr atvinnuleysinu í landinu. Þannig hafa jafnaðarmenn vegna þeirra neyðartíma, sem yfir hafa staðið, og vegna samvinnu sinnar við aðra flokka, orðið að ganga inn á tekjuöflunarleiðir, sem þeir telja ekki allskostar heppilegar og að sumu leyti ranglátum. En síðustu og verstu tímar hafa allstaðar fært mönnum heim sanninn um það, að óhjákvæmilegt er að víkja í bráð frá þráðbeinum leiðum að settu marki og hnika til, vegna aðstæðnanna, frá sumum kennisetningum. Íslenzkir Alþfl.menn hafa og neyst til þess að fara inn á þar tekjuöflunarleiðir, sem að sumu leyti eru ekki í fullu samræmi við stefnu flokksins í skattamálum, og ekki þyrfti að grípa til, ef ástandið í atvinnuháttum og viðskiptum þjóðanna væri ekki eins úr fornum skorðum fært eins og nú er. Ef við hefðum getað gert ráð fyrir, að hægt hefði verið að flytja inn til landsins allar þær vörur, sem landsmenn vilja kaupa og álíta sig þurfa með, þá hefði ekki þurft að grípa til þess gjalds, sem nú er lagt til, að lögfest verði. En það er miðað við það í þessu frv., að vegna þeirra erfiðleika, sem að okkur steðja sökum örðugleika á sölu afurða okkar á erlendum markaði, neyðumst við til, til þess að geta haldið þjóðarbúskap okkar í sæmilegu lagi, að takmarka svo allan aðflutning til landsins, að hann verði skorinn niður í 38 millj. kr. á næsta ári. Flokkarnir, sem standa að núv. stj., sjá sér ekki annað fært en að reikna með því, að ekki verði flutt meira til landsins en sem nemur þessari upphæð. Það eru því miður ekki líkur til þess, að gjaldeyrir fyrir seldar íslenzkar afurðir nemi meira en sem verður til þess að greiða innflutningsvörur fyrir 38 millj. kr., auk hinna alkunnu duldu greiðslna, sem árlega teljast nema um 7 millj. kr., svo að það verður samtals um 45 millj. kr. útgjöld, sem verður að fást á móti, til þess að fullkominn greiðslujöfnuður verði út á við, við getum kannske komizt af í 2—3 ár með því að safna skuldum erlendis og hafa innflutninginn miklu meiri en útflutninginn, en þeim búskap verður ekki haldið áfram til lengdar. Þess vegna er þetta frv. miðað við þær sorglegu staðreyndir, sem ástand umheimsins hefir skapað okkur og þær sorglegu afleiðingar, sem þetta hefir í för með sér, að það verði að takmarka verulega allan innflutning á vörum til landsins, öðrum en þeim, sem fullnægja brýnustu nauðsynjum fólksins til þess að það geti lifað og rekið framleiðsluna í landinu. Þess vegna hefir orðið að fara inn á þessa leið, sem er síður en svo geðþekk, að leggja gjald á þessar vörur, sem a. m. k. frá Alþfl. sjónarmiði er mjög óviðfelldið. Þess vegna er líka lagt til, að þetta gildi aðeins eitt ár, því að hugsast mætti, að annað tveggja skeði, að ástandið batnaði svo, að hægt væri að einhverju leyti að hverfa frá þessu gjaldi, og ef ástandið skánaði eitthvað verulega, að hægt væri að auka magn allra útfluttra íslenzkra afurða. Þá yrði bæði útflutningur og innflutningur meiri, og kæmu því þar auknar tekjur í ríkissjóð.

Þó það sé næsta ólíklegt að skyndilega og fljótt rakni úr viðskiptaörðugleikum okkar, virtist stjórnarflokkunum samt réttara að lögfesta ekki þessa tekjuöflun að sinni nema fyrir árið 1936, ef ske kynni að þá yrði hægt að hverfa að einhverju leyti frá þessu neyðarástandi.

Ég vil svo að síðustu leggja það til f. h. meiri hl. fjhn., að þær breyt. verði gerðar á frv., að undanþiggja frá þessu gjaldi blöð, bækur, tímarit og björgunartæki. Það er talið, að gjald af þessu muni ekki nema yfir 4 þús. kr. Er því hér um svo litla fjárhæð að ræða, að ríkissjóð munar hana litlu, en hinsvegar er óviðfelldið að leggja aukagjald á þessa hluti. Að öðru leyti en þessu legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt, vegna þeirra ástæðna, sem ég hefi tekið hér fram og teknar hafa verið fram í blöðum stjórnarflokkanna og hv. Ed.