13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (2844)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það er eiginlega leiðinlegt, að það skuli ekki hafa verið uppgötvað fyrr hér á Alþingi, að hafa einskonar formála fyrir hverju tekjuaukafrv., þar sem það er tekið fram, til hvers tollunum og sköttunum skuli varið og hvað skuli gert með hvern skatt út af fyrir sig. — Þetta gleymdist 1921, þegar tekju- og eignarskattslögin voru sett, og hefir yfir höfuð alltaf gleymzt fram að þessu herrans ári, að telja það upp í 1. gr. hverra skattalaga, til hvaða framkvæmda hverjum skatti skuli sérstaklega varið. En nú er allt í einu tekinn upp sá siður, með því frv., sem hér er til umr., að tilgreina í 1. gr. frv., til hvaða hlutverks hverjum skatti skuli varið. Ætlar hæstv. fjmrh. að hafa þær tekjur, sem inn koma samkv. þessu frv., í sérstökum sjóði, og það, sem inn kemur samkv. hverri skattagrein fyrir sig, í sérstökum kassa? Það getur náttúrlega vel verið, en ég hefi ekki trú á því.

Það er búið að sýna fram á það hér í umr., að sú upphæð, sem talið er, að þessi skattar muni gefa, fer a. m. k. fyrsta árið fram úr því, sem talið er að þurfi og áætlað er í frv. Annars er það dálítið einkennilegt, ef menn eiga, þegar þeir koma í kaupstaðinn, að hafa í sérstökum vasa þá peninga, sem þeir ætla fyrir kaffi, og í öðrum vasa það, sem þeir ætla að kaupa sykur fyrir, en í vestisvasanum þær krónur, sem þeir ætla að eyða fyrir vín og tóbak! Það lítur út fyrir, að ríkisstj. eigi að haga sér að því er snertir flokkun og geymslu ríkistekna svipað þessu.

Mér finnst nú, satt að segja, af því að þessi hæstv. ríkisstj. er svo mikið gefin fyrir skipulagningu á öllum sviðum, þá ætti hún að breyta snarlega öllum skattalögum, sem nú eru í gildi, og setja nákvæm fyrirmæli um það í 1. gr. hverra tekjulaga, til hvers eigi að nota hvern tekjuflokk fyrir sig. En þá þyrfti jafnframt að hafa sérstakan sjóð fyrir hvern tekjuflokk og marga peningakassa. (SK: Eða skatthol með mörgum skúffum!). Já, það gæti verið skatthol. Annars er þetta svo fáránlegt, að slíks þekkjast hvergi dæmi, að það sé tekið sérstaklega fram í skattalögum, til hvers hver skattur skuli notaður. Þetta vita allir, að á sér hvergi stað. Nema hæstv. fjmrh. ætli að geyma þessar tekjur í sérstöku skattholi, til aðgreiningar frá öðrum tekjum ríkissjóðs, og hafa sérstakt bókhald fyrir hvern tekjuflokk.

Sennilegt er, að þær ríkisstj., sem flutt hafa hér áður frumvörp til tekjulaga á alþingi, frá því að Íslendingar fengu fjármálastjórnina í sínar hendur, hefðu tekið upp þessa venju, ef það væri síður að fylgja henni meðal hvítra manna.

Nei, það, sem fyrir stjórnarflokkunum vakir með formi þessa frv., er ekkert annað en hræðsla við það, að þjóðin sjái, í hvert óefni er stefnt með frv. Þess vegna er strax komið með plásturinn í 1. gr. — Þetta er ekkert annað en tilræði við þjóðina; það er verið að læðast að henni með þessa gífurlegu skatta- og tollahækkun, og 1. gr. frv. beita á önglinum. Þetta, sem hv. 2. þm. N.- M. segir, að sé svo skelfing óskop nauðsynlegt, já, alveg óhjákvæmilegt! Þar fer allt saman í þessu máli, halur og bíll, og hæfir hvað öðru. Fyrst og fremst hin fáránlega lagagr., sem hvergi á sinn líka, og síðan þessi frábærlega yfirlýsing hv. 2. þm. N.-M.! Annars kvaddi ég mér hljóðs til þess að minnast á brtt. mína á þskj. 806. Ég og annar hv. þdm. áttum hér nokkra viðræðu við hæstv. fjmrh. um þetta tekjuaukafrv. við 1. umr. — Eins og kunnugt er, þá er hér um að ræða rúmlega 1 millj. kr. viðbótartekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ráðh. hélt því fram, að ef við sjálfst.menn værum á móti þessu frv. án þess að gera tilraun til að benda á nokkuð í staðinn, þá þýddi það sama sem að við vildum skera niður á tekjuhlið fjárl. um 5 millj. kr. Og svo lætur hæstv. fjmrh. blað sitt hér í bænum endurtaka þessa frómu ályktun sína og hampa því, að íhaldsþingmenn vilji skera niður af tekjum ríkissjóðs um 5 millj. kr., og það þýði niðurskurð á öllum verklegum framkvæmdum í landinu, og meira til. Þetta er náttúrlega fremur ódýr sigur fyrir hæstv. ráðh. í orðaskiptum um þetta frv.! Þegar hann er búinn að neita og þræta, þræta og neita dag eftir dag hér í þessari hv. þd., þá er ekkert annað fyrir hann að gera heldur en að láta Nýja dagbl. gefa sér sigurinn á þennan hátt.

Ég get vel trúað því, að hæstv. ráðh. haldi áfram í þessum sama dúr. Hann hefir þingið á sínu bandi, sérstaklega til þess að knýja fram tekjuöflunarfrumvörpin, og við erum hinsvegar búnir að sýna fram á, að þjóðinni er algerlega um megn að rísa undir þessum sköttum; þeir eru gersamlega óbærir.

Svo vík ég aftur að brtt. minni. Ég leyfi mér þar að leggja það til, að fatnaður verði algerlega undanþeginn þessari tollálagningu. Á algengum fatnaði er nú vörutollur, sem nemur kr. 1.80 á kg., ennfremur 15% verðtollur og ofan á þann verðtoll er bætt 25% gengisviðauka. Nú vill hæstv. fjmrh. bæta enn 10% tollhækkun ofan á þetta, sem fyrir er. Mér þykir það of langt gengið, og ég ætla, að hv. þdm. geti fallizt á að undanskilja almennan fatnað þessum viðbótartolli.

Önnur brtt. mín gengur út á það, að undanskilja almennan skófatnað þessum tolli; það er ekki nóg að undanskilja gúmmískófatnað, eins og gert er í frv., þó að hann sé mest notaður af sjómönnum, og þess ber að gæta, að mörgum, sem vinna í landi, leiðist að nota eingöngu gúmmískófatnað, nema við grófgerðustu vinnu. Þeir eru því teknir upp á því að nota ódýran leðurskófatnað, eða jafnvel tréskó. Og ef á að sýna nokkurt réttlæti í þessu, þá ætti, auk gúmmískófatnaðar að undanskilja þessum tolli algengan og ódýran hversdagsskófatnað úr leðri. Ég legg því til, að þessi skófatnaður verði undanþeginn tollaukanum.

Það þykir mörgum undarlegt, að í þessu nýja tollafrv. er ætlazt til þess, að innkaupsreikningar yfir hverskonar ávexti eigi að stimplast með 25% tollaálagningu, við hliðina á konfekti, brjóstsykri, gullstássi, silfurvarningi og öðrum óþarfa og lúxusvörum. — Ég skal geta þess, að ávextir eru nú tollaðir sem svarar 25% verðtolli; núv. vörutollur nemur svo miklu, ef miðað er við þar ávaxtasendingar, sem hingað komu með síðustu skipum frá útlöndum. Mér heyrðist, að hæstv. fjmrh. væri eitthvað að rengja þetta um daginn, en ég get sýnt honum það svart á hvítu, að sá vörutollur, sem nú er greiddur af appelsínum t. d., nemur raunverulega 23% verðtolli á þær. Þar við bætist þetta nýja 25% viðskiptagjald. Og þetta þýðir til samans 50% tollaálagningu á nýja ávexti. — Í þessu sambandi vil ég geta þess, að ég hefi heyrt því haldið fram af læknum og öðrum fróðum mönnum, að heilsulitlu fólki væri nauðsynlegt að borða ávexti. Vegna viðskiptasamninganna við Suðurlönd er miklu meira flutt hér inn nú af nýjum ávöxtum heldur en áður tíðkaðist, og ber sízt að átelja það. Væri sannarlega fagnaðarefni, ef innflutningur og neyzla nýrra ávaxta gæti útrýmt að einhverju leyti vín- og tóbaksnautn. En þegar lagður er 50% tollur á nýja ávexti, þá er varla við því að búast, að nokkur geti látið það eftir sér að kaupa þá vöru. Ég lít svo á, að það sé gersamlega óverjandi stefna, að tolla þessa fæðutegund svo hátt, eða eins og óþörfustu lúxusvöru, svo að menn geti alls ekki keypt hana nema til hátíðabrigðis á stórhátíðum. Grænmeti og ávextir eru svo holl fæða, að hún ætti að vera sem oftast á borðum fólksins. Mér er óhætt að fullyrða, að hér er verið að stíga gersamlega rangt spor, ef nokkuð er að marka það, sem læknar og vísindamenn hafa sagt um bætiefnainnihald og hollustu ávaxta, einkum fyrir heilsulítið fólk, sem ekki á daglega kost á fjörefnaríkum fæðutegundum. Mér finnst því sjálfsagt að leiðrétta þetta. Það hlýtur að stafa af misskilningi, eins og annað í þessu frv., að grænmeti og ávextir skuli vera settir við hlið hinna mestu óhófsvara, sem til landsins eru fluttar.

Það kennir oft geysilegs misskilnings í umr. manna, þegar verið er að ráðgera að takmarka innflutning á einstökum vörutegundum með auknum innflutningsgjöldum; þá eru þurrkaðir ávextir venjulega taldir með, eins og þeir séu einhver skaðræðisvara. — Ég bygg, að ég þurfi ekki að benda á fleira til sönnunar því, hve mikilsverð fæðutegund ávextirnir eru. Ég ætla, að hv. þdm. hafi fengið að heyra það hjá vitrum mönnum, hversu mikið hollustugildi þeir hafa fyrir fólkið. Þess vegna er það alveg augljóst, hvað það er gersamlega vitlaust að leggja svo háan toll á ávexti, sem vitanlega verður eins og innflutningsbann á þá. En það fullyrði ég, að þegar tollurinn er orðinn yfir 50% á þessari vöru, þá getur fólkið ekki veitt sér hana. — Ég geri mér þess vegna von um, að brtt. mín á þskj. 806 verði samþ., sem miðar að því að undanþiggja þessum 25% tolli þurrkaða ávexti og grænmeti, nýtt og þurrkað, og nýja ávexti. (PZ: Það mun vera prentvilla í till.). Ég vænti, að hæstv. forseti sjái um, að hún verði leiðrétt. (Forseti: Hún skal verða leiðrétt).