13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (2845)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég verð að segja það, að ég er hálfhikandi við að taka til máls á ettir þessum skemmtilegu ræðum, sem hér hafa verið fluttar í kvöld. En ég kemst ekki hjá því að svara nokkrum atriðum í því, sem fram hefir komið, enda þótt og vilji ekki lengja þessar umr. úr hófi fram, þar sem orðið er mjög áliðið kvölds.

Ég skal ekki fara langt út í ræðu hv. þm. G.-K., þó kemst ég ekki hjá því að svara einu atriði í ræðu hans, af því að það skiptir töluvert miklu máli. Hv. þm. hélt því fram, að ég hefði sagt, að hæstv atvmrh. hefði farið með rangar tölur að því er snerti verðupphæð innfluttra vara á þessu ári. Ég sagði nú ekkert annað en það, að hæstv. atvmrh. hefði miðað sína skýrslu við cif-verð varanna, en að ég hefði hinsvegar miðað við fob-verð. Og við það á vitanlega að halda í þessu sambandi. Hinsvegar er þess að gæta, að innfluttar vörur eru allar reiknaðar á skýrslum með cif-verði. Hv. þm. G.-K. hefði getað sparað sér þessa ræðu og sannfært sjálfan sig um, að þetta er rétt, sem ég held fram, ef hann hefði mætt á fundi fjhn., þar sem ég gerði grein fyrir þessu. — Hv. þm. talaði allmikið um hinar ýmsu skattahækkunartill. stj., sem hún hefði flutt á tveimur síðustu þingum; en það er nú svo oft búið að svara glamri hans og gífuryrðum um þau mál, að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þau svör hér. En hv. þm. var erfiðara um mál, þegar hann fór að tala um fjárstjórn Reykjavíkurbæjar og gera tilraunir til að forsvara útsvaraálögurnar hér í bænum. Það er vitanlega örðugast fyrir hv. stjórnarandstæðinga að verða að játa það, að bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstfl. í Rvík gengur ekki aðeins jafnlangt og núv. ríkisstj. í skattaálögum á borgarana, heldur nálega helmingi lengra. Ef hægt er að segja, að ríkisstj. beiti hörku við skattborgara ríkisins, þá er langtum ómannúðlegri sú meðferð, sem borgarar Rvíkurbæjar verða að sæta undir stjórn Sjálfstfl. Ég hygg því, að skemmtisaga hv. þm. um lestamanninn og klyfjahestana eigi betur við um stjórn sjálfst.manna á Reykjavíkurbæ en þetta tekjuöflunarfrv., sem hér er til umr.

Hv. 6. þm. Reykv. vildi vefengja það, að 1. gr. frv. væri viðeigandi, vegna þess að það væri búið að taka ýmsa af þeim útgjaldaliðum, sem þar eru taldir, inn í fjárlfrv. fyrir 1936. Það er rétt, að þessir liðir hafa verið teknir inn í fjárl. — en það skiptir engu máli í þessu sambandi, því að nú er á frv., eftir 2. umr. fjárl., 330 þús. kr. tekjuhalli,og auk þess er vitað, að tekjurnar eru of hátt áætlaðar sem nemur 200 þús. kr. Raunverulegur tekjuhalli er því rúmi. 1/2 millj. kr. Brtt. hv. þm. fær því enga stöð í þessu. Þó að búið sé að setja ýmsa af þeim liðum, sem taldir eru í 1. gr. þessa frv., inn í fjárl., þá vantar þar tekjur á móti þeim eigi að síður.

Hv. þm. Vestm. var að tala fyrir sinni brtt., sem fjallar um fatnað og skófatnað. Ég verð að segja, að ég er á móti því, að hún sé samþ., og er einnig á móti því, að þær aðrar brtt. sem á því þskj. eru, séu samþ. Það er vegna þess, að ég sé ekki úr því að við þurfum á annað borð að afla tekna á þennan hátt, að það sé ranglátt að skipta þessu gjaldi niður á þann hátt, sem gert er.

Viðvíkjandi fatnaðinum vil ég sérstaklega benda á það, að þar er átt við tilbúinn fatnað.

Það er einmitt fatnaður, sem ég álít, að megi leggja gjald á, af þeirri ástæðu, að ég tel heppilegast að stuðla að því, að sem mest sé búið til af fatnaði í landinu sjálfu, vegna þess að hér er á síðustu árum verið að efla mjög framleiðslu á fatnaðarvörum. Þetta gjald gæti því orðið til þess að létta undir með þessari framleiðslu. Viðvíkjandi ávöxtunum skal ég segja það, að ég lít öðrum augum á það mál heldur en hv. þm. Vestm. Ég lít þannig á, að eins og nú er um gjaldeyrisástæður okkar, þá sé engin ástæða til þess að hlífa ávöxtunum, vegna þess þó að mikið sé talað um hollustu ávaxta, sem ég dreg ekki í efa að sé rétt, því að við erum einfærir um að fá innlendar fæðutegundir, sem jafnast á við ávexti. Við gætum t. d. aukið okkar mjólkurneyslu að miklum mun, sem mundi á allan hátt verða betra en að auka neyzlu á ávöxtum. Auk þess vil ég benda á, að vegna þeirra innflutningshafta, sem hafa verið gerð, hafa ávextir verið seldir dýrara verði en ella, og er því með þessum tolli stefnt að því að taka hluta af þessari álagningu og láta hann renna til ríkissjóðs, því að ekki er ástæða til að halda, að öll tollahækkunin komi niður á neytendunum.

Að endingu vil ég minnast á eitt stórt atriði, sem kom fram hjá hv. þm. Vestm. Hann sagði, að ég hefði sagt um daginn í umr. um þetta mál og látið hafa eftir mér í Nýja-Dagblaðinu, að úr því að sjálfstæðismenn væru á móti því að auka tekjur ríkissjóðs um eina millj. kr., yrðu þeir að vera viðbúnir að gera till. um 5 millj. kr. niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs. Þetta er vægast sagt skakkt með farið. Þeir héldu því fram, hv. þm. Vestm., hv. þm. Snæf. og hv. þm. G.-R. þegar þetta mál var til umr. um daginn, að þeir væru ekki einungis á móti þessari einu millj., heldur einnig á móti því að leggja á þær 2 millj., sem lagðar voru á haustið 1934. Ennfremur hafa þeir haldið því mjög fast fram, að það ætti að afnema útflutningsgjald af sjávarafurðum. Má af þessu marka, að þeir vilja, að ríkistekjurnar verði nálægt 4 millj. kr. lægri 1936 heldur en ríkisstj. ætlast til. Af þessari afstöðu Sjálfstfl. leiðir það, ef á að taka þá alvarlega, að það verða að liggja fyrir úrræði frá þeim um að færa niður gjöldin um 5 millj. kr. — Þessar 4 millj., sem ég nú hefi talið, og þá einu millj., sem núv. stjórnarfI. hafa fært fjárl. niður um. Ég fullyrti við þá umr., að þó að Sjálfstfl. hefði verið við völd, hefði honum vitanlega verið um megn að færa niður útgjöldin á fjárl. um 5 millj. kr., þó að hann hefði látið ógerð hvert einasta af þeim nýmælum, sem ríkisstj. nú framkvæmir. Þá hefði Sjálfstfl. orðið að fara inn á þá braut að hækka skatta og tolla, og er ekki minnsti vafi á því, að hann hafði farið inn á þá braut að hækka tollana, en ekki beinu skattana. Þess vegna mundi það hafa orðið svo, ef Sjálfstfl. hefði farið með völd og ef af líkum má ráða, að hann hefði hækkað tollana að verulegum mun. Þess vegna koma úr hörðustu átt þau mörgu og hörðu ummæli, sem þeir hafa látið falla í garð núv. stjórnarfl. fyrir að vilja halda ríkistekjunum við.