13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jóhann Jóefsson [óyfirl.]:

Hæstv. ráðh. taldi sig ómögulega geta fallizt á þær brtt., sem ég hefi borið hér fram á þskj. 806. Tók hann sérstaklega fram hvað fatnaðinn snerti, að hann teldi mikla þörf á að hindra innflutning á tilbúnum fatnaði, því dálítil framleiðsla væri af honum í landinu sjálfu. Það má vera, að svo sé, en hæstv. ráðh. ætti þó að vita, að nærfatnaður karla og kvenna er svo að segja alls ekki framleiddur í landinu, heldur er fluttur inn í stórum stíl, og það verður svo að vera. Sama er að segja um fatnað barna. Það fer svo fjarri því, að hér sé fullnægjandi framleiðsla af fatnaði, að það má heita, að hún sé sama og engin, samanborið við þörfina. Þessi nýi skattur af tilbúnum fatnaði kemur því til með að hækka í verði allan almennan fatnað, og tel ég það illa farið, því það er sannarlega mikið, sem menn greiða nú þegar af hverjum fatnaðarreikningi, sem kemur til landsins. Það er hægt að einblína um of á að vernda hinn svokallaða innlenda fatnað. Hér er t. d. vinnufatagerð, sem ég veit ekki betur en að sé komin út í að framleiða svo ónýtan fatnað, að það má heita, að verkamenn verði að borga vinnufötin tvöföldu verði, sökum þess hvað er ónýtt efni í þeim. Og þetta er verndað með háum tollum ! Getur tollverndunin þannig sannarlega orðið tvíeggjað sverð, ef henni er beitt um of.

Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að ég er ekki að mæla þessar vörur algerlega undan tollinum, þó ég vilji færa þær á milli tollflokka. Um ávextina og grænmetið ætla ég ekki að deila við hann meira. Ég benti aðeins á það, sem hvert mannsbarn veit, nema að því er virðist þessi hæstv. ráðh.; ef það er svo, að hann hefir betra vit á notagildi og hollustu ávaxta og grænmetis heldur en allir heilsufræðingar hér og erlendis, sem í ræðu og riti tala um nauðsynina á því, að fólkið nærist á þessum fæðutegundum, og heldur en allir þeir læknar, sem beinlínis fyrirskipa sjúklingum sínum að nota þær, þá held ég, að ég ætti ekki að vera að deila um þetta við þann mikla mann. Hæstv. ráðh. benti að vísu á, að mjólk væri einnig holl og góð fæða; en ef mjólk getur að öllu leyti komið í staðinn fyrir ávexti og grænmeti hér, þá ætti hún eins að geta það annarsstaðar. (Fjmrh.: Það má framleiða grænmeti her). Ég veit, að það er framleidd örlítil ögn af því hér, en sú framleiðsla nægir hvergi nærri þeirri neyzlu, sem nú er, hvað þá þeirra neyzlu, sem þyrfti og ætti að vera á þessari heilnæmu fæðutegund, og áherzla hefir verið lögð á af öllum, þangað til þessi nýji spámaður rís upp hér á Alþingi og segir, að það sé engin þörf á, að fólkið borði grænmeti — það geti bara drukkið mjólk!

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að kaupmenn legðu mikið á ávexti og grænmeti, svo 25% gjaldið mundi geta komið niður á verzlunaragóðanum án þess útsöluverðið hækkaði mikið. Ég skal nú ekki segja, hvað mikið er lagt á þessar vörutegundir, en á það má benda, að þeim er báðum mjög hætt við skemmdum, og fyrir því verður að gera ráð þegar lagt er á þær. En sé svo, að álagningin sé mikil á þessum vörum, þá verður náttúrlega ekki léttara að koma við lítilli álagningu, þegar hæstv. ráðh. er búinn að bæta 2% tolli ofan á þann 25% toll, sem fyrir er, þannig að tollurinn verður alls 50%. Þá væri réttara að banna innflutning á þessum vörum heldur en hampa þeim framan í fólkið, sem þarfnast þeirra, en leggja blóðugan skatt á það, ef það vill leggja þær sér til munns.

Það er líka önnur hlið á þessu máli, sem hæstv. fjmrh. og þeir aðrir, sem skattálögum ráða hér á landi, hefðu gott af að athuga. Það getur orkað tvímælis, hvaða hag við höfum af því að skattleggja með svo að segja innflutningsbannstollum helztu framleiðsluvörur þeirra þjóða, sem við eigum mest undir hvað viðskipti snertir; við viljum a. m. k. ekki, að okkar vara sé þannig skattlögð í þeirra löndum. En allir vita, að t. d. appelsínur eru ein hin helzta útflutningsvara Spánverja. Þessa hlið málsins er einnig vert að athuga.

Ég skal svo ekki deila meira við þennan miklu heilsufræðing um gildi ávaxta og grænmetis fyrir heilsu fólksins. Ég áleit það skyldu mína að bera fram þessar brtt., úr því aðrir gerðu það ekki, og svo verður auðnan að ráða, hvernig um þær fer. Ég vil aðeins áður en ég lýk máli mínu víkja að þeirri staðhæfingu hæstv. fjmrh., að með því að mæla á móti hinum nýju álögum sýnum við það, að við hefðum orðið að finna aðrar leiðir til að afla 4—5 millj. kr. tekna í staðinn, ef við hefðum ráðið. Hann er margbúinn að taka það fram, að ef við sjálfstæðismenn hefðum farið með völdin og ekki lagt á þær tekjuskatts- og tollhækkanir, sem nú er verið að leggja á og lagðar hafa verið á fyrir skömmu, þá hefði ríkissjóð vantað 4 til 5 millj. kr. tekjur. Þetta er líklega rétt hjá hæstv. ráðh. Það er þarna bara eitt svolítið ef. Það væri rétt, ef sjálfstæðismenn hefðu staðið hér að stjórn og stutt sig við miklu fámennari flokk, eins og sósíalistar eru samanborið við framsóknarmenn, ef þeir hefðu, segi ég, unnið það til þess að hanga við völd, að leggjast svo lágt að styðja sig við svo miklu fámennari flokk og láta undan öllum hans kenjum og kröfum um aukin útgjöld, þá getur verið, að við hefðum orðið að finna leið til að afla þessara milljóna. En sjálfstæðismenn hefðu bara aldrei lagt sig í þá auðmýkt og þá tortímingu, eins og framsóknarmenn hafa gert og gera ennþá. Það er vitanlegt, að framsóknarmenn verða að láta undan hverri einustu kröfu sósíalista, og það kostar þá ekki annað en þeirra pólitíska líf, ef þeir gera það ekki. Þannig eru þessi mál til komin, og það eru ekki fyrstu málin, sem þannig eru til komin. Það mætti halda langan fyrirlestur um það, hvernig sósíalistar hafa í sambúðinni við Framsókn heimtað og heimtað, og hún hefir einlægt orðið að kaupa á sig frið.

Í umr. í Ed. kenndu þessir flokkar hvor öðrum um það, sem aflaga færi í frv. Annar sagði, að Framsókn vildi hafa það svona; það væri nú ekki eftir stefnu sósíalista að leggja tolla á nauðsynjavörur o. s. frv., en þeir hefðu orðið að gunga inn á þetta til samkomulags við Framsókn. Hinn sagði, að Framsókn hefði orðið að hækka skatta á öðrum sviðum til samkomulags við sósíalista.

Í þessu frv. eru taldar upp ýmsar útgjaldaupphæðir, sem vitanlega þarf peninga upp í, en ég hygg ekki bráða nauðsyn á að leggja nýjar álögur á þjóðina fyrir einmitt á þessum tíma. Sumar eru sprottnar af kröfum, sem sósíalistar koma með, sumar af kröfum, sem framsóknarmenn koma með; hvorartveggja hafa í för með sér stórum aukin útgjöld, en svo verður þjóðin í heild að bera þá bagga, sem hvor flokkurinn um sig leggur á hana.

Ég tala um þetta vegna þess, að hæstv. fjmrh. var að tala um, að við sjálfstæðismenn hefðum orðið að sjá fyrir 4 til 3 millj., sem hann telur, að mundi hafa vantað á 15 millj. tekjur í ríkissjóð, ef við hefðum ráðið og komið í veg fyrir þær álögur, sem við höfum mælt á móti. Þetta gæti verið rétt, ef við hefðum hagað okkur svona. En þetta ef vantar hér í, því sjálfstæðismenn hefðu aldrei lagt sig svo lágt að vinna það til þess, að það væri látið heita svo, að þeir stjórnuðu landinu, að láta kúga sig til eins og annars, sem þeir hefðu orðið að bera kinnroða fyrir, eins og margir framsóknarmenn gera til þess að geta haldið völdum. Það er líka vitað, að framsóknarmenn sjálfir eru mjög ósamstæður flokkur, því þeir bæjarradikölu standa langnæst kommúnistum í skoðunum, en aftur á móti standa sumir bændaþingmennirnir nær sjálfstæðismönnum heldur en nokkrum öðrum flokki. Hinir bæjarradikölu innan Framsóknarfl. sýna kommúnistum alla þá samúð, er þeir mega, og mæla bót öllum þeirra verkum. Slíkir menn eru erlendis kallaðir salonkommúnistar, og mætti á íslenzku nefna þá stássstofukommúnista. Þeir taka ekki þátt í götubardögum né öðrum gauragangi kommúnista, en standa alltaf á bak við, og alstaðar þar, sem skerst í odda, eiga kommúnistar vísa samúð og stuðning þessara manna. vinstri álma Framsfl. er einmitt af þessari tegund, svo henni er í sjálfu sér ljúft að verða við kröfum sósíalista, af því blóðið rennur þar til skyldunnar. Svona er þetta, og hæstv. fjmrh. getur gengið út frá því, að okkur hefði farið eitthvað líkt og hans flokki, ef við hefðum verið samansettir af samskonar frumefnum eins og þessi svokallaði Framsfl. hér á þingi, — en svo er bara ekki.