13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Torfason:

Það þótti góður siður hér áður, að gefa mönnum, sem deilt var á, rétt til að bera af sér sakir þegar eftir að þær höfðu verið á þá bornar. En það gerir minna til, þó þeim sið væri ekki fylgt nú, þar sem flestir munu enn vera viðstaddir, sem heyrðu þá ræðu, er ég þarf að svara.

Það lítur út fyrir, að hv. þm. V.-Húnv. sé ekki enn farinn að átta sig á afstöðu manna hér í d. gagnvart stjórnarflokkunum. Hann er sýnilega ekki farinn að átta sig á því, að það er ekki hægt að fella einstök atriði máls fyrir stjórnarflokkunum. Það hefði vitanlega verið hægt, svo maður taki það dæmi, sem hann var með, að fella niður í svipinn kaflann um atvinnuleyistryggingar hér í d. En það hefði aðeins orðið til þess, að allur þessi kafli hefði gengið aftur í Ed. Eftir það hefðu aldrei verið greidd atkv. um hann út af fyrir sig; þá var annaðhvort að fella frv. allt eða ekki. Nú lítur út fyrir, að hv. þm. hafi haldið, að ég ætlaði að fella frv. allt saman. En ég lýsti því skýrlega yfir í minni ræðu, að ég vildi ekki gera það. Enda stend ég þar vel að vígi, því það er nú komið á daginn, að Sjálfstfl. og Bændafl. var það alls ekki mikið í mun að fella allt frv., þar sem ekki fengust nema 6 atkv. á móti því; hinir sátu hjá, vitanlega af ýmsum ástæðum, sem maður veit ekki um. Það eina, sem hægt var að gera viðvíkjandi atvinnuleysistryggingunum, var það, að reyna að fá þær lagfærðar. Ég skal í því sambandi taka fram, að ég stend ennþá við það, er ég sagði þá, að ég teldi, að ekki lægi neitt á að lögleiða þetta, það mætti a. m. k. bíða næsta þings. En úr því að svo var, að ekki var hægt að ráða við einstök atriði málsins, þá var það eina, sem eftir var, að leita aðstöðu til að laga þennan kafla í meðförunum. Hvað það snertir, þá hafði ég talað á móti einstökum greinum frv. skýrt og skilmerkilega; þar á meðal 67. og 68. gr. þess. Ég sagði, að ég hefði ekki getað fellt mig við þar greinar eins og þær voru. Til þess að aðstæðan væri svo eins góð og unnt var, virtist vera sjálfsagt að fella þær greinar úr frv., svo hægra væri að koma umbótum á það, þegar þær væru felldar, en sækja undir stjórnarflokkana að lagfæra frv. Nú hefi ég, frá því ég hélt þessa ræðu, gert ýmislegt til þess að fá þetta lagað, og mér hefir tekizt það. Báðar gr., 67. og 68. gr., hafa verið lagfærðar að mun, og ég hefi gert þetta án nokkurs styrks frá Bændafl. og Sjálfstfl. Hinsvegar, ef þeir hefðu lagzt á sveif með mér, þá hefði verið hægt að komast lengra.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði samþ. 61. gr. sama sem eins og hún var í frv. Það er ekki rétt. Ég sá um, að þessi viðbót komst inn í hana. Og ég tel það þýðingarmikla viðbót. Ég taldi ekki viðunandi, að sjóðir með svo miklu fé væru eftirlitslausir af landsstj. Þetta þótti mér að gr.; því greiddi ég atkv. á móti.

Hv. þm. gaf mér þá sök, að það hafi verið af fordild og smáskítlegum ástæðum, sem ég hefi hagað mér svo. Hann getur skáldað eins og hann vill, en hann sannar bara eitt. Honum getur ekki skilizt, að nokkur þm. geti gert nokkuð af sannfæringu. Af því dreg ég þá ályktun, að hann hafi skilið sannfæringuna eftir, líklega á hillu í kaupfélaginu á Hvammstanga, og eigi hana þar vel geymda.

Ég hefi aldrei minnzt á þennan hv. þm.; samt fór hann að afsaka sig. Og þá minntist ég þessa gamla, að sá, sem afsakar sig, ásakar sig. Hann tók þetta upp án tilefnis af minni hálfu. Er hefi gengið framhjá honum hingað til, og er hefði gert það enn, ef hann hefði ekki farið að hnjáta við mér.

Þegar ég fór af fundi, eftir að ég hafði haldið þessa ræðu í eftirmiðdag, varð ég samferða góðum manni. Hann sagði, að ég mundi fá ljóta gusu frá form. Sjálfstfl. við töluðum um, hvað hann myndi koma með. Við spáðum, að hann myndi hlaupa í mannasiðina. Ég spáði, að hann myndi ekki verða mjög sver, en senda hv. þm. V.- Húnv. á mig. Það gekk líka eftir.

Annars vil ég enda á lítilli sögu. Það var ekki laust við í fyrravetur, að bændahnjákan okkar fengi óorð af foringja Sjálfstfl. Það gengu sögur um, að hún hafi verið sén fara út um glugga hjá foringja íhaldsfl. Ég tek ekki ábyrgð á þessari sögu. Þetta er eins og annað, sem fyrnist, þegar fer að lýsa nætur. Svo kemur fyrir í haust, að foringi íhaldsfl. opinberar trúlofun sína við bændahnjákuna. Þá fannst mér hann staðfesta þessa sögu, en maður tekur ekki tillit til þess nú á síðustu tímum. En svo bregður við, að hnjákan gerist honum ekki einhlít, og bregður sér upp í rúm hjá hv. 4. landsk., Jóni Baldvinssyni, heila nótt. Ég tel þetta sýna það, að foringja íhaldsins er ekki sýnt um að hafa forystu á hendi, fyrst hann gat ekki passað upp á þessa einu hnjáku, svo gott sem var á milli þeirra.