13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Hannes Jónsson (óyfirl.]:

Ég neyðist til þess að elta ólar við hv. 2. landsk. út fyrir mál það, sem hér liggur fyrir. Hann vildi halda því fram, að mér væri ekki ljóst, hvernig meðferð mála vari í þinginu. Hann var að fræða mig á því, að einstakar greinar gætu ekki komið til atkv. hér í Nd., þegar frv. væri búið að taka breytingum í Ed. Mér er þetta vel ljóst. Nákvæmlega sama er að segja um kaflana í þessu frv., því ef einstakar greinar þeirra standa ekki í Ed., þá er ekki hægt að laga þær í Nd. Hv. þm. fullyrðir, að kaflinn verði tekinn upp í Ed., ef hann verður felldur hér í Nd. En í þessu liggur ásökun á stjórnarflokkana, að þeir meti hina kafla frv. svo lítils, að þeir vilja setja þá í hættu, því það er yfirlýst af d., að frv. nái ekki fram að ganga, ef þessi kafli er settur inn. En þá ósvífni vil ég ekki bera á stjórnarflokkana, að þeir lítilsvirði svo atriðin í hinum köflum frv., að þeir vilji láta þá fara í pappírskörfuna með því að beita þeirri þrjózku að taka upp atriði í Ed., sem hafa verið felld í Nd. Þá halda þeir því fram, að sú viðbót, sem felst í 63. gr., sé svo þýðingarmikil, að hin atriði frv. séu lítilsvirði á við hana.

Hv. þm. átti að prófa fyrst, hvort kaflinn yrði samþ. eða ekki, ef hann vildi ekki greiða atkv. móti Framsfl. Hann hefði varla þurft langar viðræður við stjórnarflokkana til þess að fá þá til að ganga inn á, að þetta atriði væri ekki tekið með. Þá vildi hv. þm. reyna að afsaka sig út af því, sem ég hafði sagt um aðstöðu hans í málinu, og sagði um leið þá setningu, að sá, sem afsakaði sig, ásakaði sig oft um leið. Ég sætti mig vel við þennan dóm hans um sína eigin aðferð, að hann sé yfirleitt að ásaka sig, þegar hann er að reyna að afsaka sig fyrir það, sem borið hefir verið á hann. Ég held, að það sé ástæðulaust fyrir hv. þm. að halda því fram, að ég hafi verið að reyna að bekkjast til við hann. Ég man ekki eftir því, að ég hafi yrt á hann neinum slíkum orðum í umr. á þessu þingi. Ég minnist þess ekki. Ég svaraði í ræðu snemma á þessu þingi ýmsum fjarstæðum, sem hv. þm. S.-Þ. hafði haldið fram í sambandi við þennan hv. þm. Hv. þm. gat ekki borið á móti neinu af þeim atriðum, sem ég kom þar með, enda var það eðlilegt, af því að það er sannanlegt, að þau eru staðfest í fundarbók Framsfl. Gluggagöngur þær, sem hann var að tala um, skipta ekki neinu máli, enda er því haldið fram, að hann eigi þar við sjálfan sig. Hann má auðvitað bezt þekkja sínar göngur sjálfur og gleggst um þær vita. Ég skal aðeins minna á söguna um sýslumanninn, sem fékk þær viðtökur hjá ráðskonunni sinni, þegar hún varð vör við hann gangandi á gólfinu um miðja nótt, að hún spurði hann að því, hvort hann væri farinn að ganga í svefni. Hv. þm. gæti kannske fengið Spegilinn til þess að birta mynd af því. Hv. þm. var að skjóta því að mér að láta Spegilinn birta mynd af því, sem hann kallaði sængurgöngu mína við form. Alþfl., hv. 4. landsk. Hv. þm. gæti þá sjálfur látið fylgja mynd af sýslumanninum, sem gekk í svefni, hvort sem það verður nú forsíðumynd eða ekki, enda skiptir það ekki miklu máli. Hann getur þá látið fylgja öll atriðin í svefngöngu sýslumanns. Það er ekki ólíklegt, að það gæti haldið nafni sýslumannsins á lofti, ef slík mynd væri birt. Ég treysti líka hv. 2. landsk. vel til þess að segja þar frá einstökum atriðum, því honum er það svo eiginlegt að segja frá slíkum hlutum.

Svo er það viðvíkjandi þessum 3 þús., sem hv. þm. fékk til þess að læra mannasiði. Það er rangt, að sá lærdómur hafi ekki borið árangur, og sá árangur kom í ljós á alþingishátíðinni 1930. Hv. þm. sá sóma sinn í því að eiga ekki neitt á hættu með að spilla þeirri merkilegu samkomu, og lét því ekki sjá sig þar. annars skal ég geta þess um þessar 3 þús. kr., af því að mér er það kunnugt, að hv. þm. þótti hæpið að taka þær án þess að fá yfirlýsingu stj. um að hún samþ. það. Hann leitaði þess vegna til stj. til þess að reyna að fá þetta samþykki, en stj. þverneitaði að gefa samþykki sitt til þess að hann fengi þessar 3 þús. kr. Hann hefir því sem forseti gefið sjálfum sér vald til þess að taka þessar 3 þús. kr. móti yfirlýstum vilja stj. Ég hefi aldrei gert þetta sérstaklega að umræðuefni, en vil aðeins drepa á það nú, til þess að sýna, að þegar hv. þm. er að reyna að afsaka sig, þá er hann um leið að ásaka sig. Hann finnur til sektarmeðvitundar sinnar og er því að reyna að bera í bætifláka fyrir sig.