13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það var hálfvesalt hjá hv. 2. landsk., sem eðlilegt er, þegar ekki er tekið undir með honum, nema lítilsháttar af hæstv. forseta. (MT: var það ég, sem byrjaði á mannasiðunum?). Hann heldur því fram, að hann hafi verið talinn með helztu mönnum flokksins. Ég skal ekki reyna að hafa þetta úr huga hans; hann er e. t. v. eini maðurinn, sem sættir sig við svona hugarburð. En ekki hefir þessi virðing á honum rist djúpt, úr því að það dugði, að einn maður hvarf í burt. En það á að vera einn maður, Magnús sál. Kristjánsson, sem réð því, að þessi hv. þm. var kosinn forseti Sþ. Það er orðin aum vörnin fyrir því, að hann hafi ekki tekið 3 þús. kr. styrkinn. Hann upplýsir, að hann hafi tekið hann sér til lækninga. En þarf sjúklingur að halda uppi risnu í Khöfn? Og hvernig er það með núv. hæstv. forseta Sþ.? Hvað notar hann í risnu? Ég hefi ekki heyrt, að hann eyði ríkisfé í risnu niðri í Khöfn. Ég held, að hann hafi ekki eytt meiru í sumar en aðrir löggjafnaðarnefndarmenn á ferð þeirra til Danmerkur, og þó er hann forseti Sþ.! Og honum hefði átt að vera sama skylda að veita risnu og þessum hv. þm., sem fór utan sem sjúklingur, en ekki í erindum ríkisins.

Hann kemur sjálfur með sönnun fyrir því, að þáv. hæstv. forsrh. lagði ekki blessun sína á þessu ráðstöfun með 3 þús. kr. Hann segir, hv. þm., að hann hafi ekki viljað ákveða neitt um upphæðina. Hann mun hafa haldið því fram, að hann gæti ekki neitað þessu, en bæri aðeins að gera þinginu reikningsskil, hvers vegna hann sem ráðh. hefði fallizt á að greiða þetta. (MT: Þetta er allt eintóm vitleysa). Það er vitleysa af hv. þm. að „flottera“ sig á því að vera að reyna að klóra yfir þessa styrkveitingu, því að ræða hv. þm. varð bara til þess, að áheyrendur fundu, að þetta allt var honum til svívirðingar, og hefir hann stuðlað að því, að öll umr. yrði til svívirðingar. Það er ekki mín sök, þó önnur mál hafi dregizt inn í umr.

Ég skal svo láta lokið máli mínu við þessa umr., en vil segja hv. 2. landsk. það að lokum, að ég er honum ekki óþakklátur fyrir að gefa kost á að ræða um þetta mál, og ég er reiðubúinn að eiga við hann umr., ef hann þorir, og það verður ekki eins og um daginn, þegar ég bauð honum austur í Árnessýslu á fund. (Fjmrh.: var það almennur fundur?). Nei, það var á flokksfund Bændafl., en hann þorði ekki að koma, og þó segist hann vera einasti og bezti Bændafokksmaðurinn.