17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (2867)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Það er nú komið á daginn, sem ýmsa hefir grunað, að ríkisstj. mundi enn flytja frv. til skattauka. Hefir undanfarið gengið orðrómur um, að þetta mundi í vændum, en margir hafa haldið, að stj. hefði ekki þrek til að bera slíkt fram. Enda er sýnilega uggur í stjórnarliðinu að koma fram með slíka till., því þeir hafa dregið það þar til á síðustu stundu.

Auk þess, sem till. þessi sætir efnislegri mótstöðu minni hl. fjhn., verð ég eins og hv. 3. þm. Reykv. að víta mjög þá aðferð að bera fram brtt. við mál við síðustu umr. í síðari d. Er sú aðferð nú mjög farin að tíðkast til að knýja í gegn meiri háttar mál með tveimur umr., sem að réttu lagi á að ganga gegnum 6 umr. Ég játa, að til er fordæmi fyrir þessari aðferð, en ég hygg, að ekki finnist dæmi neitt í líkingu við það, sem nú er, og ekkert þing hefir gengið neitt svipað eins langt og þetta. Eitthvert gleggsta dæmið er nú úr Ed. Þar er notað lítið frv. til að hnýta aftan við það 17 eða 18 brtt. um mjög veigamikil atriði. Þetta er mjög óviðfelldin aðferð, svo ekki séu notuð sterkari orð.

Hvað viðvíkur efnislegri meðferð er sjálfstfl. þessu algerlega andvígur. Við hv. 3. þm. Reykv. lítum e. t. v. misjöfnum augum á bensínskatt yfirleitt, en við erum sammála um, að eins og nú horfir sé ekkert vit í að hækka þennan skatt, sem er ákaflega þungbær fyrir gjaldendurna.

Ég á erfitt með að trúa því, að hv. 2. þm. Reykv. geti gengið inn á þennan skatt. Ég man það hér á árunum, þegar við vorum báðir nýkomnir inn á þing, að ég flutti frv. um að breyta þáv. bifreiðaskatti, sem hafði verið hestorkuskattur, í benzínskatt. Skatturinn var þá 8 kr. á hestafl í fólksflutningsbifreiðum, en 2 kr. á hestafl í vöruflutningabílum. Það var játað af löggjafanum, að bifreiðaeigendur ættu að greiða skatt sem skaðabætur fyrir vegaslit. Ég flutti þetta frv. samkv. tilmælum 187 bifreiðaeigenda. Mér þótti þá, eins og mér þykir enn, rétt að taka tillit til, hve vegirnir slitnuðu mikið við umferð bifreiða, og m. a. af því — eins og líka var upplýst þá í umr. —, að ég vissi, að þungi bifreiðanna stendur ekki í hlutfalli við hestorku vélanna, þá flutti ég þetta frv. Þá reis hv. 2. þm. Reykv. og margir aðrir — m. a. hv. 1. þingkjörinn, Magnús Torfason — upp á móti þessu frv.

Ég vil leiða athygli að því, að þá var þessi skattur áætlaður 25 þús. kr., og ég vil leggja áherzlu á það, að ég ætlaðist aldrei til, að benzínskatturinn samkv. frv. mínu næmi meiru en sem svaraði þessari upphæð og miðaði við þær hagskýrslur, sem ég hafði í höndum. Síðan varð það upplýst eftir nýrri skýrslum að skýrsla frá hagstofunni fyrir árið 1924 var ekki nákvæm, því að innflutningur á benzíni hafði aukizt, eða var 1925 880 tonn brútto, og flutti ég þá brtt. við frv. mitt, að skatturinn yrði 31/2 eyrir á lítra, eða 5 au. á kg., og nam hann þá 25 þús., eða 23600 kr., miðað við að innflutningur væri 508 smál.

Eftir upplýsingum hv. 2. þm. Reykv., sem var nákunnugur þessu, þar sem hann var sjálfur benzínsali og vissi því betur en ég og hagstofan, þá hafði innflutningurinn vaxið svo mikið, að hann var kominn á 9. hundr. þús. kg. Eftir þessum upplýsingum reiknaði hann, að skatturinn mundi verða 40—50 þús. kr. Ég tók strax afleiðingunum af þessu, og meðan málið var í meðferð lagði ég til, að skatturinn yrði lækkaður úr á aur. pr. kg. í 3 au. pr. kg., eða um hluta. Því eins og ég sagði áðan, var tilgangur minn ekki að hækka bifreiðaskattinn, heldur að ná sömu upphæð á annan hátt. Það, sem fyrir lá var ekkert annað en að breyta skattinum úr hestorkuskatti í benzínskatt. Gegn þessu rísa hv. 2. þm. Reykv. og fleiri hv. þm., og fyrir utan persónulegar ádeilur á mig, sem þessi hv. þm. viðhefir alltaf, þá kvaðst hann berjast gegn þessu frv. og greiða atkv. móti því vegna þess, eins og hann orðaði það, „að þetta væri gífurlegur skattur“. Og svo heldur hann áfram með leyfi forseta: „Það er nú stríði út af fyrir sig, hvort eigi að hækka skatt á bifreiðum eða ekki, og finnst mér reyndar sízt vera ástæða til þess að íþyngja þessum samgöngum með auknum Skatti.“ En svo fer hann út í, hvað benzínskatturinn sé algerlega röng aðferð, og hann sé gerður til að hlífa lúxusbílum, en leggja á ranglátan skatt. — Þegar verið er að ræða þetta mál, þá snýst hann öndverður gegn því, segir, að þetta sé gífurlegur skattur og gerður til að hlífa lúxusbílum. Hann hefir víst ekki átt neinn lúxusbíl þá. (HV: Og á ekki enn). En hefir hann þá a. m. k. að láni með góðum kjörum.

Nú er af stjórnarliðum flutt till. um benzínskatt. Ástandið er breytt, skattþunginn hvílir á flutningunum á landi. Nú er skatturinn ekki 26300 kr., heldur 300 þús. kr. Nú er ekki verið að breyta skatti, heldur hækka skatt, tífalda benzínskattinn frá því, sem þá var, við síðustu árs sölu var tollurinn tekinn mánaðarlega jafnóðum og selt var, líklega samkv. l.; ég veit ekki hvernig á því stendur, venjulega er tollur tekinn af vörum um leið og þær koma í land. Ef við segjum, að síðastl. ár hafi verið seldir af benzíni 500 þús. lítrar og greitt í toll 4 aur. pr. lítra, þá nemur það 200 þús. kr. Nú er aðstaðan breytt; nú nemur benzínskatturinn 1/4 úr milljón á ári og nú á að bæta við öðru eins, öðrum fjórðungi úr milljón.

Ég vil nú spyrja þá menn, sem voru á móti þessum skatti 1926 og töldu þetta gífurlegan skatt, óbærilega háan o. s. frv., hvernig þeir ætla að verja gerðir sínar, að leggja nú ofan á þennan skatt. Ég vil fá þessu svarað með skynsamlegum rökum, sérstaklega af hv. 2. þm. Reykv. og 1. þingkjörnum. En ég hygg, að þeim verði stirt um rök. (MT: O-jæja!). Ég er nú raunar ekki hissa á þessum hv. þm., þó honum finnist ekki vanta rök, því hann kemur aldrei auga á, hvað rök eru.

Ég hefi sérstaklega beint máli mínu til hv. 2. þm. Reykv., bæði fyrir það, að hann er áhrifamaður í sínum flokki, og eins vegna þess, hvað hann beitti sér fast á móti frv. mínu, sem ekki fól í sér minnstu breyt. til hækkunar á þessum skatti, heldur var aðeins flutt til að breyta til um skattstofn, ef svo mætti orða. Ég vona, að ég fái að heyra, hvaða rök hann færir fyrir sínu máli, en ef þau verða þau, að bílaeigendur eigi að fá endurgjald fyrir þennan aukna skatt í bættum vegum, þá vil ég leggja ríka áherzlu á, að það er a. m. k. engin bein sönnun til fyrir því, að þessari hækkun á skattinum verði nokkurn tíma létt af, ef hún verður einu sinni lög leidd, og það er alls engin trygging fyrir hendi um það, að það eigi að verja þessum skatti í framtíðinni til ákveðinna vega, þótt það eigi að gera það á fyrsta ári eftir hækkunina. Í núgildandi lögum eru fyrimæli um það, að vissum hluta af skatti skuli verja á ákveðinn hátt. Við vitum vel, að þegar slíkur skattur er kominn á, þá er ekkert frekar spurt um, hvernig verja skuli þeim peningum heldur en öðrum. Það er lýðum ljóst, að hér hafa verið í lögum fyrirmæli um það, að vissum hluta af ágóða tóbakseinkasölunnar sé varið á vissan hátt, t. d. til verkamannabústaða og til byggingar- og landnámssjóðs; þannig þekkjum við þess mörg dæmi, að meðan verið er að koma óvinsælum skatti á, þá er ákveðið, að svo og svo mikill hluti hans eða hann allur skuli renna til einhvers þess, sem þeir, er vilja koma skattinum á, hyggja, að sefi óánægjuna þar, sem skatturinn kemur þyngst niður. Þessu er lofað á meðan verið er að leggja skattinn á, en varla er skatturinn í lög leiddur fyrr en þessu er breytt. Þess vegna skortir rök til að afsaka það, að þessum skatti eigi að verja til vegagerðar á fyrsta ári, því að ég er viss um, að þessu skattafyrirmæli verður haldið áfram, og ég er jafnviss um, að það er hrein hending, hvort ákvörðun um ráðstöfun þess fjár, sem ætlað er með þessum skatti, verður bundin við 1, 2 eða 3 ár, því að mér þykir næsta trúlegt, að ekkert verði framkvæmt fyrsta árið í þessu efni.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um aðrar till. Minni hl. n. samþ. till. á þskj. 844. Við getum líka samþ. till. frá meiri hl. hv. fjhn. á þskj. 823, og ég geri líka ráð fyrir, að við munum geta samþ. till. á þskj. 843; hv. meðnm. minn er líka samþ. því. Það er ef til vill trygging fyrir því, að 1937 verði a. m. k. einhverju varið.

Minni hl. n. mun greiða atkv. á móti þessum nýja okurskatti á samgöngunum í landinu, þar sem þessi benzínskattur er orðinn tuttugu og fimm sinnum hærri en ég hefði átt von á sem heildarupphæð — ekki sem prósentuupphæð — og sem heildarupphæð er skatturinn um tólf sinnum hærri en hann var, þegar hv. 2. þm. Reykv. taldi hann gífurlegan skatt; ég vil taka það fram, til þess að forðast útúrsnúninga, að ég á ekki við prósentuupphæð heldur heildarupphæð.