17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Torfason:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., því að ég hefi áður gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. En nú hefir mínu nafni verið blandað inn í þessar umr. út af sérstakri till. Á Alþingi árið 1927 var ég því mótfallinn, að flutningum væri íþyngt með benzínskatti. Ég leit þá svo á, og lít svo á enn, á æskilegt væri, að hvað skattinn snertir yrði gert upp á milli mannflutninga- og vörubíla, þannig, að skatturinn kæmi síður niður á vöruflutningabílum. Ég býst við, að flestir séu mér sammála um, að þetta væri æskileg leið. En þó hefir viðhorfið breytzt það mikið síðan 1927, að mannflutningabílar eiga nú meiri rétt á sér en áður; þá voru þeir að mestu notaðir til skemmtiferða, en nú á síðari tímum eru þeir orðnir að einum liðnum í samgöngukerfi landsins, og koma mannflutningabifreiðirnar í stað járnbrautanna erlendis. Ég þarf því engan kinnroða að bera út af því, sem ég sagði þá á þingi. Auk þess er núna dálítið annað viðhorf en þá að öðru leyti, og þó ég sé orðinn gamall, þá er ég samt ekki ennþá svo gamalær, að ég geti ekki breytt skoðun minni eftir hví, sem viðhorfið breytist, - svo mikill afturhaldsjálkur vona ég, að ég verði aldrei. Að því er þetta mál snertir, hefir viðhorfið breytzt einmitt með tilliti til þeirra manna, sem ég ætti sérstaklega að bera fyrir brjósti, en það eru íbúar Suðurlandsundirlendisins. Árið 1927 mátti heita, að allar aðalþungavörur, sem á Suðurlandsundirlendið komu, væru fluttar með bílum frá Reykjavík, en nú eru allar aðalþungavörurnar fluttar upp á Eyrarbakka. Hinsvegar hefir viðhorfið einnig breytzt þannig síðan 1927, að okkur íbúum Suðurlandsundirlendisins verður æ meiri og meiri nauðsyn á sæmilegum vegi hingað til Reykjavíkur. Þetta tvennt tel ég tvímælalaust næga ástæðu til viðhorfsbreytingar hjá mér í þessu máli. Og ef við lítum á frv. eins og það liggur fyrir, þá sjáum við, að meira en 1/3, eða 90 þús. kr. af þessum skatti, sem áætlaður er 250 þús. króna, á að fara til vegagerðar í Árnessýslu, svo að það er ekki hægt að neita því, að Árnesingar fá nokkuð fyrir snúð sinn. Af þessum 90 þús. er ætlazt til, að 70 þús. fari til Suðurlandsbrautar, sem nú er byrjað að leggja niður Ölfusið, og það er einmitt þetta mál, sem ég hefi borið fyrir brjósti í mörg ár, einnig 1927, og það er einmitt þetta tekjuöflunarfrv., sem komið hefir skriði á þetta mál og gerir það að verkum, að hægt er að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd. Ég get ekki annað séð en að ég hafi fullan rétt til að vera þessu frv. fylgjandi núna, þótt ég væri á móti auknum skatti á flutningabílum 1927; og því skal ég blátt áfram lýsa yfir, að ég fyrir mitt leyti er miklu ánægðari með þetta frv. eftir að þessi viðauki kom inn í það, og ég er þakklátur hæstv. fjmrh. einmitt fyrir þessa viðbót.