17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Hv. þm. G.-K. hefir víst ekki haft eyrun opin, eða eitthvað í þeim, þegar ég var áðan að tala. Hann virðist ekki hafa tekið eftir og ekki heldur lesið umr. um benzínskattinn, sem hann vildi leggja á 1927. En það er óhætt að segja það, að þessi forfaðir benzínskattsins er eins ólíkur þeim benzínskatti, sem nú er verið að leggja á, eins og forfeður mannkynsins, aparnir, eru ólíkir þeim, sem nú lifa á jörðinni. (ÓTh: Ekki svo mjög ólíkir þeim öllum). Það, sem hér er um að ræða, er: Á að gera þessar framkvæmdir eða ekki? Menn eiga milli þess að velja, að hafa benzínskattinn og fá bætta vegina og þess, að losna við að borga skattinn og hafa sömu vondu vegina. Ég hygg nú, að þegar menn hafa milli þessa að velja og svo hins, að verkafólkið fái atvinnubætur, þá vilji menn, þegar þeir hugsa sig um, taka þann kostinn, sem hér er farið fram á. þessi skattur, sem hv. þm. G.-K. vildi leggja á, var alls ekki svo lágur. Hann munaði ákaflega litlu fyrir einkabíla, en var til mjög mikilla þyngsla fyrir aðra. Þó að upphæð skattsins sé nefnd, segir það ekki svo mikið, heldur hitt, hvað hækkunin nam fyrir hvern bílstjóra. Hækkunin var 5 aurar, minnir mig, en þessi hækkun nemur 4 aurum. Er það ekki rétt? (ÓTh: Nei, það held ég ekki). - Þá talaði hv. þm. um, að ekki væri hægt að gefa tryggingu fyrir því, að þetta yrði ekki framhaldsskattur. Auðvitað er ekki hægt að gefa tryggingu fyrir því, hvaða l. verða samþ. í framtíðinni, en það er hægt að gefa þá tryggingu hér, að það er ekki hægt að halda þessum skatti áfram eftir árið 1936. nema að fá ný l., sem framlengja þessi l., og til þess þarf þingmeirihluta. Og ég gef þá yfirlýsingu, ekki aðeins fyrir sjálfan mig, heldur Alþfl. yfirleitt, að hann mun ekki vilja leyfa framlengingu þessara l., nema skatturinn renni til þeirra sérstöku framkvæmda, sem hér er um að ræða. - Ég held svo, að ég þurfi ekki að svara hv. þm. G.-K. fleiru. Ég hefi borið fram brtt. á þskj. 813. Eftir brtt. um benzínskattinn er ætlazt til, að 250000 kr. renni til ýmissa vega, en þar sem það getur verið, að skatturinn verði meiri, þá legg ég til, að því, sem umfram þessa upphæð verður, verði varið til Suðurlandsbrautar á árinu 1937, því að ekki verður hægt að sjá fyrir áramót, hve miklu benzínskatturinn muni nema.