17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég vil taka undir það, að það sé ósæmileg aðferð sem höfð er um þetta mál. Ég tel ósæmilegt að flytja jafnstórt mál og þetta, sem felur í sér svo mikla breyt. eins og það, fyrst við 6. umr. annars máls, svo að það er útilokað, að það geti fengið nema 2 umr. Þetta er því vítaverðara, sem vitanlegt er, að stjórnarflokkarnir höfðu þetta tilbúið fyrir löngu. Fjvn. var látin vita, að þetta frv. væri á ferðinni, nokkuð löngu fyrir eldhúsdagsumr. En hvers vegna var það ekki þá flutt? Ég skal ekki segja það, en þm hefir mörgum dottið í hug, að það stafaði af því, að stjórnarmeirihlutinn hafi ekki kært sig um að fá opinberar umr. um þetta mál. Mér virðist hér sé verið að fara inn á þá braut, sem alls ekki ætti að eiga sér stað, þegar um jafnstór fjármál er á ræða eins og hér. Það er verið að leggja nýjan skatt á þjóðina ofan á þá 1 millj., sem fyrir er. Og þar af leiðandi er verið að seilast ofan í vasa almennings. Það eru engin smáræðis gjöld, sem hér er verið að leggja á almenning eða þá, sem nota bíla og þurfa þess, bæði til flutninga og sem atvinnurekendur. Mér er kunnugt um, að ýmsir bændur, sem aðstöðu sinnar vegna nota talsvert af bílum, hafa á undanförnum árum orðið að borga hátt á annað hundrað kr. fyrir flutninga með bílum. Í mínu héraði, og reyndar víðar, fer þessi notkun vaxandi. Það er af því, að mjólkurbúunum fjölgar og afurðirnar verða að ná til fleiri manna, en að sama skapi eykst bílanotkunin. Það er því óhjákvæmilegt, að slík gjöld hljóta að stórhækka. Um flutning á þessum nauðsynjum hefir verið samið fyrir ákveðið verð, og vitanlega dettur mönnum ekki í hug að taka að sér flutningana áfram fyrir sama verð, þegar benzínskatturinn hefir verið hækkaður. Vitanlega verður þetta að koma niður á framleiðslunni. Ég get hugsað mér, að á meðalbónda, sem þannig er settur, að hann þurfi að nota bifreiðar, þá verði þetta um 40-50 kr. skattur á ári. Fyrir þá menn, sem velta tugum þúsunda, er þetta ekki mikil upphæð, en fyrir þá menn, sem berjast í bökkum með að hanga við bú, er þetta tilfinnanlegur skattur ofan á allt annað, og sannast að segja sýnist mér það ekki sæmilegt af hinu háa Alþ. að gera sitt til að gera þessum framleiðendum baráttuna örðugri en þörf er á. Framleiðendur eiga í nægilega örðugri baráttu, þótt ekkert sé gert til þess að íþyngja þeim á þann hátt, sem hér er gert. Þá er á það að líta, og á það hefir verið minnzt í þessum umr., hvað það er, sem framleiðendur fá í staðinn. Ég fæ ekki séð, eftir þeim till., sem fyrir liggja, að hugsað hafi verið fyrir öðrum en bændum á Suðurlandsundirlendi. Á till. er sýnilegt, að það á að stinga upp í þá dúsu, en ég geri ráð fyrir, að sú dúsa verði eitt af þessum nýmóðins „snuðum“, sem börnum eru fengin til að friða þau, þegar mjólkina vantar í pelann. Ég dreg þetta af því, að oft áður hafa verið sett í lög ákvæði svipuð þessu, og þá gert ráð fyrir, að tekjunum yrði varið til ákveðinna framkvæmda. Ég man eftir því þegar bifreiðaskatturinn var settur, þá fylgdi því ákvæði sú heimild að láta tekjurnar ganga til þess að malbika veginn hér á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þetta hefir nú verið í lögum í fjöldamörg ár, og mér er ekki kunnugt um, að nokkru fé sé farið að verja til þeirra framkvæmda, þótt ríkissjóður hafi fengið inn stórfé með þessum skatti síðan lögin voru sett. Þetta er eitt dæmi um loforð um að koma fram ákveðnu máli, sem svo hefir aldrei verið unnið að, en loforðið var notað sem ,snuð“ til að stinga upp í hv. kjósendur, og þeim ætlað að totta það.

Mér dettur í hug í þessu sambandi, að ég talaði í morgun við einn góðan Alþfl.mann um framkvæmd þessa máls, og hann sagði að það væri verst, að bifreiðastjórarnir vildu ekki taka „snuðið“. Ég get hugsað mér, að það fari eins um bændur, að þeir verði ekki ginnkeyptir fyrir þessu, þegar þeir sjá, hvar fiskur liggur undir steini.

Hv. 2. þm. Reykv. lýsti því yfir hér, að þessu væri aðeins ætlað að standa í eitt ár. Þetta sýnir, hve traustlega er hér um búið, að strax á næsta þingi liggur fyrir að taka málið til nýrrar yfirvegunar. Hv. 2. þm. Reykv. lýsti því líka yfir, að hann væri þess albúinn að fylgja fram þessu ákvæði, þar sem öllum tekjunum væri ráðstafað til ákveðinna framkvæmda. Hefði ég átt sæti í n., þar sem þetta mál hefði verið tekið fyrir, þá hefði ég beitt mínum áhrifum til þess, að þessum tekjum yrði varið á allt annan veg. Ég sé ekkert réttlæti í því, að þeim sé öllum varið til vegabóta hér í kringum Reykjavík. Ýmsir landshlutar leggja hér fram sinn skerf og eiga allt eins mikinn rétt á að koma til greina, ef þessu fé á að úthluta til vegalagninga, eins og að það sé látið ganga til vega hér í kringum Reykjavík.

Mer sýnist yfirleitt, að framleiðendur beri lítið úr býtum fyrir þennan skatt. Það helzta er vegurinn austur yfir Hellisheiði, ef úr þeim framkvæmdum verður. En ég get hugsað mér, ef þröngt verður í búi hjá ríkisstj. á næsta þingi, þegar að því kemur að taka endanlega ákvörðun um þetta efni, að þá kjósi hún þann kost að taka upp þennan skatt sem almennan tekjustofn fyrir ríkissjóð og úthluta þeim tekjum, sem hann gefur, á sama hátt og öðrum tekjum. Ég skoða þetta samskonar agn og önnur þau, sem beitt er með í því frv., sem þetta mál er skeytt við, þar er talin upp heil runa af gjöldum, hátekjuskattur, nýir verðtollar o. fl. o. fl„ sem á að nota til þess að gera ýmsar nýjar framkvæmdir, og þetta eru allt bráðabirgðaákvæði. Til þess svo að gylla þetta sem bezt í augum kjósendanna, þá er það fært fram sem ástæða, að þetta sé til að auka atvinnuna í landinu. Það er sama sagan endurtekin og sögð hefir verið áður, að það eigi að leggja þunga skatta á framleiðendur til þess að auka með því atvinnuna í landinu. Ég get varla hugsað mér, að hægt sé að fara öfugar að. Ég hefði hugsað, að bezta leiðin til að auka atvinnuna væri ekki sú, að gera framleiðendum ókleift að halda fólk, heldur væri beinasta og bezta leiðin sú, að styrkja framleiðendur og gera hag þeirra svo góðan, að þeir gætu bætt við sig mönnum og létt þannig atvinnuleysisbyrðina. Með því að leggja þunga skatta á framleiðendur vinnst ekki annað en það, að kippa fótunum undan almennum atvinnuvegum og koma fjöldamörgum mönnum á opinbert framfæri. Þetta er svo öfug stefna, að hún er tæplega þess verð, að á hana sé minnzt.

Ég hefi nú í stuttu máli gert grein fyrir minni afstöðu og fyrir því hvernig ég lít á málið sem bóndi og væntanlegur skattgreiðandi. Ég tel það illa að farið, að skella á þessum nýja skatti á sama tíma og öll önnur útgjöld, sem koma niður á almenningi, eru aukin að verulegum mun, eins og hér er gert með þessari bráðabirgðartekjuöflun. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti þessari nýju viðbót, eins og ég mun greiða atkv. á móti frv. í heild.