17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Ég hefi ekki blandað mér inn í þær umr., sem farið hafa fram á fyrra stigi þess stórmáls, sem hér er um að ræða, en áður en það fer út úr þessari hv. d. vildi ég segja um það nokkur orð, vegna þess að mér er ljóst, að það grípur inn í þá stefnu, sem er einkennandi fyrir þetta þing, ekki síður en það næsta á undan. Það er ráðgert að leggja á með þessu frv. nýja skatta, sem nema á aðra millj. kr. og er farið eftir þremur leiðum: Hækkun tekjuskatts, aðflutningsgjöld og benzínskattur. Ég get sagt það um allar þessar leiðir, að þar eru ekki óeðlilegar frá mínu sjónarmiði, ef á annað borð á að hverfa að því ráði að hækka skatta; þá eru þessar leitir betri en margar aðrar. Ég teldi ekki óeðlilegt, þótt hár benzínskattur, sem tekinn er af umferðinni á vegunum, væri ekki eingöngu látinn ganga til að byggja nýja vegi, heldur til að halda við gömlu vegunum. Í fjárl. eru áætlaðar um 650 þús. kr. til viðhalds á vegum. Þegar svo er komið sem hér er, að þeirri stefnu hefir verið haldið áfram að hlaða nýjum sköttum á þjóðina, og atvinnureksturinn er að sligast undir þunga þeirra, sem fyrir eru, þá finnst mér það útilokað, frá sjónarmiði þeirra manna, sem hafa opin augu og sjá, hvert stefnir, að bæta við nýjum sköttum án þess að lækka aðra í staðinn. Mér finnst, að það hefði getað komið til mála á því þingi, sem nú situr, að lagðir hefðu verið skattar í þeirri mynd, sem hér er um að ræða, en í þess stað hefðu verið afnumdir aðrir skattar, sem teknir eru beint af framleiðslunni, eins og t. d. útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem hvílir beint á þeirri framleiðslu, sem nú er að sligast undir skattþunganum. En þegar það er upplýst, að stjórnarliðið ætlar ekki að lækka skattana, þótt það sé vitað, að atvinnurekstur landsmanna er kominn í hinar mestu kröggur og rekinn með halla, bæði í bæjum og sveitum, þá er það óverjandi að bæta á nýjum sköttum.

Eftir því sem gert er ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir, á með benzínskattinum að auka það fé, sem lagt verður til vegagerða á næsta ári, um 250 þús. kr. Í fjárl. fyrir árið 1936 eru áætlaðar 317 þús. kr. til vegalagninga, og eru þá þarna komnar samtals 567 þús. kr. til nýrra vega á árinu 1936. Það væri að ýmsu leyti æskilegt, ef hægt væri að framkvæma allar þessar umbætur á vegakerfi landsins með eðlilegum hætti, en því fer fjarri, að nokkrar líkur séu fyrir því, að það sé hægt, en með eðlilegum hætti tel ég, að það sé því aðeins hægt, að atvinnulíf hér á landi sé með svo miklum blóma, að það þoli vel þau útgjöld, sem slíkar framkvæmdir hafa í för með sér. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að þótt vegagerðir séu bæði æskilegar og nauðsynlegar, þá eru þar ekki beinlínis undirstöðuatriði fyrir framleiðsluna. Það þykir kannske undarlegt að heyra mig segja það, að vegagerðir séu ekki undirstöðuatriði fyrir framleiðsluna. Frá mínu sjónarmiði er það undirstöðuatriði, að framleiðslan sé rekin á þann hátt, bæði við sjó og í sveitum, að hún geti borið sig og orðið arðgefandi fyrir það fólk, sem að henni starfar.

Það kom glöggt fram hjá hv. 2. þm. Reykv., hvað það er, sem fyrir honum vakir, og það er að halda áfram þeirri stefnu, sem hér ríkir nú og ríkt hefir á undanförnum árum, ekki aðeins í þessu máli, heldur í allri fjármálastjórn ríkisstj. og stjórnarflokkanna, og það er sú stefna, að hækka skatta bæði til ríkis og sveitar- og bæjarfélaga og halda uppi opinberri atvinnu og ganga enn lengra en orðið er í þá att að koma í veg fyrir, að arðvænlegur atvinnurekstur geti átt sér stað fyrir einstaklinga. Hann skilur, að með þessu hlýtur að berast lengra inn á þá braut, að sú framleiðsla, sem einstaklingar reka, dragist saman. Hann sagði, að það væri víst, að á næsta ári dragist saman atvinna hjá þeim framleiðendum, sem rækju einkafyrirtæki. Þetta er auðsær hlutur, að það hlýtur að ganga lengra og lengra í þá átt, að sú framleiðsla, sem er undirstaðan undir heilbrigðu atvinnulífi þjóðarinnar, dragist meira og meira saman, þegar alltaf eru auknar þessar opinberu framkvæmdir, sem halda uppi atvinnu fyrir fólk, sem í ráðleysi hefir safnazt saman í bæjunum án þess að tilsvarandi heilbrigt atvinnulíf væri þar fyrir hendi. En þetta er stefna, sem sýnilega leiðir til glötunar. Það er auðsætt, að ekki getur gengið til lengdar að halda áfram í þá átt að sliga niður grundvöllinn undir heilbrigðu atvinnulífi og hrúga nýjum sköttum ofan á skattabyrðina, sem fyrir er, til þess að halda uppi atvinnu fyrir það fólk, sem verður í vandræðum, þegar framleiðslan getur ekki skapað þá atvinnu, sem krafizt er, með eðlilegum hætti.

Mér þykir það undarlegt, ef þeir menn, sem eru í meiri hl. hér á hinu háa Alþ., eru svo staurblindir á staðreyndir, að þeir sjá ekki, að allt það, sem hér er um að ræða, stefni í þveröfuga átt við það, sem rétt er. Ef rétt væri að farið, ætti að lækka bæti tolla og skatta og lækka gjöld ríkissjóðs og stefna að því að halda uppi heilbrigðu frjálsu atvinnulífi, ekki eingöngu við sjó, heldur einnig í sveitum, svo að fólk gæti við unað. En þessu er algerlega snúið við, og ein af höfuðsyndum þeirrar ríkjandi stj. er sú, að í sveitum vill fólk ekki vera, vegna þess að með ríkjandi fjármálastefnu er búið að skapa vantraust á framtíð sveitanna og vegna hallarekstrar hefir sú stefna fengið vaxandi byr, að menn krefjast vinnu af hinu opinbera - ríki, sveitum og bæjum - og reyna að komast af á annan hátt en þann, að bera sjálfir ábyrgð á sinni eigin afkomu. Út frá þessu sjónarmiði er ég líka mótfallinn því að þessir nýju skattar verði lagðir á, því þeir koma niður á framleiðslunni, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis, þar sem þeir eru beinlínis teknir frá bæjar- og sveitarfélögum, með því að gera þeim ennþá ómögulegra en áður var að knýja inn þau þungu gjöld, sem þau þurfa að leggja á almenning í landinu til þess að þau geti risið undir þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar. Nú er það orðið upplýst betur en áður, að bæjar- og sveitarfélög eru komin í þrot og að þrotum komin, vegna þess hvernig fjárhag einstaklinganna er komið, og það er viðtal, að alltaf eru vaxandi kröfur frá þessum aðilum (bæjar- og sveitarfélögum) um að fá að leggja toll á aðfluttar vörur og afla sér á þann hátt nýrra tekna. Það ætti að vera öllum ljóst, þeim sem annars fylgjast nokkuð með, að eftir því sem þessir tollar eru hækkaðir, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., eftir því er ómögulegra fyrir bæjar- og sveitarfélög að fá þessa nýju tekjustofna. Af þessum sökum fer svo, að þótt mögulegt verði að knýja á þennan hátt nokkurt fé inn í ríkissjóð, þá verður það til þess, að bæjarsjóðir og sveitarsjóðir geta því síður heimt inn þær tekjur, sem þeir þurfa, og lenda í enn meira strandi en áður um þau gjöld, sem þeir þurfa að inna af höndum. Þetta verða menn að gera sér ljóst, þótt framkvæmdir væru æskilegar svo miklar í vegagerð, þá eru þær til lítilla bóta, ef þær verða til þess að gera það enn ómögulegra, að heilbrigð framleiðsla geti borið sig og tekið á móti fleira fólki en nú er og skapað því lífsviðurværi.

Ég skal svo ekki fara um þetta mikið fleiri orðum. Það er búið að ræða málið frá ýmsum hliðum. En það voru nokkur atriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ég vildi víkja að. Hann hélt því fram, að allar þær till., sem hér hefðu komið fram og miðað hefðu að því að lækka gjöld ríkissjóðs og hefðu verið óheppilegar, hefðu verið samþ. með atkv. sjálfstæðismanna og á móti atkv. alþýðuflokksmanna. Ég hefi ekki fylgzt með þessu til hlítar og skal því ekki segja um, á hve miklum rökum þetta er byggt, en þetta sýnir, hve langt er gengið út í öfgarnar af alþýðuflokksmönnum, að þeir vilja ekki heyra nefnt, að dregið sé úr gjöldunum. Að öðru leyti er svo sagt um okkur sjálfstæðismenn, að við þykjumst vera með framförum, en séum í raun og veru á móti þeim, af því við viljum ekki láta leggja á okkur neina nýja skatta. En þetta er illa útfært og er sagt til þess að gefa ranga mynd af þeirri afstöðu, sem við höfum til þeirra mála, sem koma fram á þessu þingi - að við viljum, að þeim framförum, sem hér er um að ræða, fylgi jafnframt sú regla, að láta sitja fyrir öllu, eftir því sem unnt er, að sjá hag ríkisins og atvinnuvegunum borgið, með því að hlaða ekki á svo miklum byrðum, að framleiðslan sligist undir þeim. En það er það, sem stjórnarflokkarnir hafa verið að gera á undanförnum árum, og það hafa sjálfstæðismenn séð og þess vegna hafa þeir neyðzt til að vera andvígir ýmsum þeim málum, sem gætu talizt nytsemdarmál.

Ég skal svo ekki ræða meira um þessi atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. vék að, en ég vildi láta þetta koma ljóst fram, að hér er verið að snúa við þeirri afstöðu, sem Sjálfstfl. hefir til þeirra mála, sem fram koma hér á hinn háa Alþ., og er slíkt ekki óvanalegt af þeim flokki, sem þessi hv. þm. er forustumaður fyrir.