17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. var að reyna að verja sínar gerðir, eftir því sem honum þóttu föng til. Hann var að reyna að blekkja menn með því að segja, að þegar ég flutti frv. mitt 1927, þá hefði tilgangurinn verið sá, og sá einn, á velta þunganum af lúxusbílunum, sem hann kallaði, yfir á fólksflutningabíla og vörubíla. Hann færði þau rök fyrir því, að samkv. þeim l., sem giltu þá, hefði skatturinn verið á hestorku, en eftir mínu frv. hefði hann átt að leggjast á benzínið. En sé þetta rétt að því er snertir minn málflutning þá, þá getur hann séð, svo að ég svari með hans eigin orðum, að þetta frv. hnígur auðvitað að því að leggja þennan þunga, sem hann var að stynja undir, þegar hann var 23000, en nú á milli 500 og 600 þús. kr., á þá flutninga, sem hann taldi sig vilja líkna, fólksflutninga annarsvegar og vöruflutninga hinsvegar. Hann segir, að bifreiðastjórar og bifreiðaeigendur muni, áður en langt um líður, fagna þessum skatti. Ég skal ekkert um það dæma; hann þekkir það víst vel, en það eru þær sárabætur, sem hann réttir þeim, að þeir megi vera fegnir þessum skatti. Þykir mér hann færast nokkuð fjær sinni fortíð, þegar hann þóttist vilja verja þá með því að vera á móti 23000 kr. skatti, að vilja nú leggja á 300000 kr. skatt ofan á þær 300000, sem fyrir eru.

Hv. þm. fór rangt með þær tölur, sem hann nefndi í sambandi við frv. mitt 1927. Eftir þeim upplýsingum, sem hann gaf við þær umr., þá vildi ég leggja 2 aura á lítrann. Ég ætlaðist til, á það yrði 31/2 eyrir á lítra, eða 5 aurar á kg. En eftir að hann hafði upplýst, að benzíninnflutningurinn var meiri en Hagstofan hafði gefið upp, þá miðaði hv. þm. við, að skatturinn væri 25000, en Hagstofan hafði miðað við 24000. Þá tók ég það fram, að ég ætlaðist til, að skatturinn færðist að sama skapi niður, því að heildarupphæðin ætti að vera sú sama. Þá var skatturinn 2 aurar, nú á hann að vera 8 aurar, eða 4 sinnum hærri.

Hann segir, að hann mundi aldrei ganga inn á endurnýjun þessa skatts, nema það væri tekið fram í l., að skatturinn færi til aukinnar vegagerðar. En eins og ég hefi margbent á, þá hefir það hvað eftir annað verið tekið fram um svona mál, að skatturinn skyldi fara til greiðslu á vissum notaþörfum almennings, en þegar l. hafa staðið eitt ár, þá hefir verið haldið áfram að innheimta skattinn án tillits til þess, sem upphaflega var ætlazt til með l. Og þegar búið er að leggja þennan skatt á, þá get ég enga tryggingu gefið um það, hvernig ég muni greiða atkv., ef ríkissjóður er í fjárþröng, um það, til hvers þessum skatti verði varið. Sama veit ég, að yrði uppi á teningnum hjá þessum hv. þm. Þegar ríkissjóður væri í greiðsluþröng, mundi hann aldrei halda því fram, að það nauðsynlegasta af öllu væri að halda uppi vegagerð, þá getur verið, að það yrði eitthvað annað en vegagerð, sem í hans huga væri það nauðsynlegasta fyrir alþýðu manna.

Annars hefi ég nú í þessu máli gert það, sem ég hefi stundum gert áður og mér hefir þótt ástæða til að gera við þá þm., sem erfitt er að deila við, að ég hefi ekki látið í frumræðu koma fram öll rök, sem ég hefi haft, m. a. til þess á þeir töluðu djarfara um málið en þeir hefðu gert, ef þeir hefðu vita, hver gögn ég hafði í höndum. Þessi hv. þm. hefir hér, eins og hæstv. fjmrh. í eldhúsumr., verið heldur óvarfærinn í sínum rökum.

Ég vil minna á það, að á þingi 1930 - vill hv. 2. þm. Reykv. ekki hlusta á þetta? Ég held, að hv. form. Alþfl. ætti ekki á trufla hann frá því. - Það var á þingi 1930, að þáv. fjmrh., Einar Árnason, bar fram eða lét bera fram frv. um að leggja gjald á benzín, 7 aura á kg. Gegn þessu frv. reis hv. 2. þm. Reykv., og mér þykir gaman að minna á, hvað hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þingi 1927 kom fram frv., sem var kallað „litla og ljóta frv.“ (JBald: Er þetta í ræðupartinum?). Hv. form. Alþfl., sem er hér að grípa fram í, á ekki sæti í þessari d., og mér þykir gaman á koma því í þingtíðindin, af því að ég var einu sinni af hendingu staddur í Ed., þegar form. Alþfl. varð fyrir framígripi frá manni, sem átti ekki sæti í þeirri d., og notaði hann þá tækifærið til þess að staðfesta það, að sá, sem greip fram í, hefði ekki átt sæti í d. Ég nota því þetta tækifæri til þess að minna hann á, að hann á ekki sæti í þessari d.

Á þinginu 1927 kom fram frv., sem kallað var „litla og ljóta frv.“ Það var flutt af hv. 2. þm. G.-K. og mætti svo miklum fjandskap, bæði í blöðum og í þessari deild, á hann varð því fegnastur, þegar hann fékk því vísað frá. Enginn skyldi halda, eftir því sem heyra mátti á þeim viðtökum, að nokkur framsóknarmaður mundi nokkurntíma ljá því máli fylgi sitt. En hvað skeður á því herrans ári 1930, annað en á fjmrh. flokksins lætur bera það fram að nýju, og hv. 2. þm. G.-K. fær þá ánægju, eins og hann sjálfur segir, að gerast frsm. hæstv. stj. í málinu. Ég get ekki hugsað mér meiri endaskipti en þetta. Mismunurinn er ekki annar en sá, að frv., sem hv. 2. þm. G.-K. flutti um árið, var þó aldrei kallað annað en „litla, ljóta frv.“, en þetta mætti heita „stóra, ljóta frv.“

Þetta var nú þó ekki annað og meira heldur en rúml. 5 aurar á lítra af benzíni í benzínskatt. En nú lætur þessi sami hv. þm., sem þannig talaði 1930, flytja frv. um 8 aura skatt á hvern benzínlítra. Ég vil leyfa mér að viðhafa hans eigin orð hér um: „Ég get ekki hugsað mér meiri endaskipti en þetta“. Er þá búið að hafa endaskipti á hv. þm.? Um þennan 5 aura skatt fjmrh. Framsfl. á hvern benzínlítra segir svo hv. þm. í sömu ræðu 1930, með leyfi hæstv. forseta: „Allir sjá, að þetta verður margfaldur skattur fyrir flutningabifreiðir, sem nú bera um 60 kr. skatt árlega. Það er ekkert smáræði, sem taka á í ríkissjóðinn af þessum atvinnuvegi. En þessi skattur kemur til með að leggjast á alla flutninga með bifreiðum, mann- og vöruflutninga, og bætir enn einni hindruninni við hinar erfiðu samgöngur hér á landi. Það er einkennilegt að á sama tíma, sem ríkið gerir allt til að styrkja strandferðir, kaupir ný strandferðaskip og styrkir flóabata, allt með ærnum framlögum og álögum, þá kemur fram till. um sérstakan skatt á flutninga á landi“.

Það vantar ekki, að hann kenni í brjósti um þá, sem þurfa að sæta þessum flutningum á landi. Ennfremur segir hv. þm.:

„Hér á Suðurlandi er langmestur hluti bifreiða og mest ekið, en eigendur bifreiða hafa enga sönnun fyrir 130, að skattinum verði varið mest til vega hér Sunnanlands“.

Nú ætla ég að taka það fram, að í 2. gr. frv. frá 1930 stendur alveg það sama og nú í þessu frv. Það átti að verja innflutningsgjaldinu af benzíninu til þess að greiða kostnað af viðhaldi þjóðvega og malbikun akvegakafla. M. ö. o.: Málsvörn hv. 2. þm. Reykv. er á þessa leið: Þegar samkv. frv. fjmrh. Framsfl. á að leggja 5 aura skatt á hvern benzínlítra og verja því til viðhalds þjóðvegum, umfram það sem áætlað er í fjárl., þá rís þessi hv. þm. upp, með svæsinni árás á fjmrh. Framsfl. og brigzlum til flokksmanna hans um endaskipti og snarsnúning þeirra í málinu. En ég get ekki hugsað mér meiri endaskipti en á framkomu þessa hv. þm. sjálfs í málinu. Hann byrjar með því að rísa gegn frv. mínu um 2-3 aura skatt á benzínlítra og kallar það „litla, ljóta frv.“, því næst hamast hann með brigzlum að frv. fjmrh. Framsfl. um 5 aura skatt af benzínlítra og nefndi það „stóra, ljóta frv.“, en er nú orðið „litla frv.“ og blátt áfram smámunir í samanburði við „stærsta, ljóta frv.“, sem nú er hér til umr. og hv. 2. þm. Reykv. mælir fyrir í d.

Ennfremur segir hv. þm. í ræðu sinni 1930:

„Mér er ekki ljóst, hvernig feður þessa frv. hafa hugsað sér að greina í sundur þá benzín, sem notað er til báta og bifreiða“. Svo fer hann að tala um þá ógurlegu verðhækkun, sem verði á benzíninu vegna 5 aura tollsins á lítra, og segir: „Það er alveg áreiðanlegt, að verðið hækkar ekki um þessa sömu upphæð, heldur eitthvað meira. Þeir, sem vöruna selja, verða auðvitað að leggja eitthvað á tollinn, samsvarandi álagningunni á vöruna“. ... „En bifreiðeigendur verða einnig að leggja meira á flutninginn en tollinum nemur. Það má ganga út frá því sem vísu, að verði frv. samþ. og tollurinn samkvæmt því nemur 200 þús. kr., þá mun það kosta almenning tvöfalt eða meira“. - M. ö. o., þegar gert var ráð fyrir því 1930 að hækka benzíntollinn um 200 þús. kr., þá segir hv. þm., að það kosti almenning 400 þús. kr. Nú á samkv. þessu frv. að hækka skattinn um 100 þús. kr. meira en þá var áætlað, þannig að hann gefur um 300 þús. kr. í tekjur, en sú álagning verður í raun og veru helmingi hærri, segir hv. 2. þm. Reykv., því að „benzínskatturinn kostar almenning tvöfalt eða meira“. Svo víkur hv. þm. í ræðunni að framsóknarmönnum, sem nú eru uppi í sænginni hjá honum, og segir: „Það er sagt, að hér sé bændastjórn: Það verður ekki séð af þessu frv. Samkv. því eiga þeir að gjalda mest, sem þurfa lengstan flutning, búa fjærst kauptúnum. Það mun koma í ljós, að þetta „stóra, ljóta frv.“, sem hér er á ferðinni, mun ekki verða eins vinsælt meðal bænda og hæstv. stj. og meiri hl. fjhn. virðist ætla. Yfirleitt verði ég að segja það, að sú stefna, sem liggur á bak við þetta frv., að menn eigi að gjalda til ríkissjós eftir því, hve mikil not þeir hafa af þeim hlutum, sem ríkissjóður kostar, er alröng“. Það er m. ö. o. endalaus vitleysa, segir hv. þm., að þeir, sem hafa not af vegunum, eigi að borga þá. „Sú stefna er alröng“, segir hann.

Svo kem ég að gríninu í ræðulokum hv. þm., þá beindi hann því að framsóknarstj., en nú gengur það út yfir hann sjálfan. Ræðan endar á þessum orðum: „Ég veit, að hv. þdm. eru svo biblíufróðir, að þeir kannast við þessi orð: Faðir minn refsaði yður með svipum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum. - Það er þetta, sem hæstv. stj. hefir sagt við þjóðina í. þessu „stóra, ljóta frv.“. - Það er út af fyrir sig skrítin reikningsfærsla hjá hv. þm., að tákna mismuninn á benzínskattinum með „svipum og gaddasvipum“! En látum það gott heita. Hann segir m. ö. o.: Ólafur Thors ætlaði að refsa yður með svipum 1927, þegar hann vildi hækka benzínskattinn um 25%. En fjmrh. Framsfl. ætlaði að refsa yður með gaddasvipum 1930 með því að hækka benzínskattinn um 50%.

Og nú, á þessu herrans ári, kemur hv. 2. þm. Reykv. með þetta frv. og hyggst að refsa yður, já, ég veit ekki með hverjum ósköpum - líklega „skorpionum“, þar sem hann ætlast til á útgjöldin af benzíni verði aukin um 600 þús. kr., en það er samkv. hans eigin orðum tvöfölduð sú upphæð, sem ríkið leggur á benzínið samkv. þessu frv. Hv. 2. þm. Reykv. verður sjálfur að þola sínar eigin ályktanir! Þetta er sá mjúki faðmur sósíalistanna í skattamálum! Nú ætti hv. 2. þm. Reykv. að ganga um göturnar með skilti á bakinu, þar sem á væri letrað „Faðir minn refsaði yður með svipum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum“.

Þessi ræða hv. þm. hefir mörg sannleikskorn að geyma. Hún leiðir það í ljós, að fyrir það sem æfi hv. þm. hefir treinzt síðan ræðan var flutt, þá er það komið á daginn, að hann er alveg jafnsnúningshraður og hv. 1. þingkjörinn þm., Magnús Torfason.

Ég sé að hæstv. atvmrh. er að koma þarna inn í d. Hann á líka góða ræðu hér í þingtíðindunum frá 1930, og vil ég með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp nokkur spakmæli eftir honum. Hann segir:

Hv. dm. er kunnugt, hverjum brögðum þm. eru beittir af hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsetum á stundum. Það lítur út fyrir, að stj. standi í þeirri meiningu, að það sé eiginlega hún, sem eigi að ráða því, hvaða mál ljúkast á þinginu. Hæstv. stj. ætti að vera nóg að vera hæstráðandi milli þinga, þótt hún fari ekki að taka fram fyrir hendur þingsins á síðustu dögum þess. En það lítur út fyrir, að hún ætli sér það, þegar hún dembir inn í þinglok mjög vanhugsuðum frv., sem hún ætlast svo til, að verði lokið í báðum deildum, og öðrum gagnlegri og betur undirbúnum málum verði bægt frá afgreiðslu. Að ég ekki tali um, þegar slíku offorsi er beitt, að dagskrá er brjálað hvað eftir annað og hver fundurinn haldinn ofan í annan fyrirvaralaust“.

Það er nú ekkert að glíma við drauga, en að glíma við sjálfan sig, það er erfitt. Svo heldur hv. þm. áfram, eftir að hann er búinn sem siðameistari þingsins að skamma forseta og stj., þá kemur fjármálaspekingurinn, og hann segir:

„Það má segja um þetta frv., að það markar stefnu í tveimur meginatriðum. Ég skal fyrst athuga hið stærra. Hið fyrra er, hvort vegir eigi hér eftir sem hingað til að vera vegfarendum frjálsir til afnota, eða að leggja eigi sérstakan skatt á vegfarendur. Hingað til hafa vegir verið öllum frjálsir til afnota, hvort sem menn hafa farið þá akandi, gangandi eða ríðandi. Sá siður þekktist að vísu áður í ýmsum löndum, að ferðamenn voru skattlagðir með brúar- eða vegargjaldi. ... En slíkt er nú alstaðar fyrir löngu síðan lagt niður í öllum siðmenningarlöndum. Og þróunin hnígur yfirleitt að því að afnema sérgjöld einstaklinga, en framkvæma almennar vegabætur fyrir fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Þessi stefna er þverbrotin í þessu frv. Það er einmitt gert ráð fyrir, að beztu farartækin séu skattlögð og þeir, sem á þeim fara, því engum dylst það, að þótt skattur þessi greiðist fyrst af eigendum bílanna, þá færist harm frá þeim yfir á notendurna. Og bæði benzínsalarnir og bifreiðaeigendurnir leggja á þennan toll álagningarupphæð fyrir áhættu og vanhöldum, sem almenningur svo verður að borga auk sjálfs tollsins. Hitt meginatriðið, sem hér kemur til greina, er það, hvernig afla beri ríkissjóði tekna, hvernig það verður gert á heppilegastan hátt. Á að gera það með tilliti til gjaldþols manna, eða ekki? - Ég veit ekki, hverju hv. þm. svara því. En eitt er víst, og það er, að þetta frv. brýtur ekki í bág við þá meginstefnu, sem Íhaldsfl. hefir fylgt í skattamálum, heldur þvert á móti. Lítur því út fyrir, að Framsókn sé nú ráðin í því að taka upp stefnu Íhaldsins í skattamálum.“ - Það koma fleiri hásetar á bátinn en framsóknarkarlarnir! Ég verð nú að segja, að það er að vísu hálfleiðinlegt að sjá þá skríða upp í bátinn hjá mér, því að sumir þeirra hafa hálfflekkað mannorð. En ég býð þá nú samt velkomna! - Svo segir hæstv. núv. atvmrh. í ræðu sinni: „Bílaskatturinn var 1928 70 þús. kr., en frv. Þetta gerir ráð fyrir 210-215 þús. kr. Er hann því hækkaður um 200%.“ Nú á hann að vera 600 þús. kr.! „En“ - heldur hann áfram -, „sagan er ekki öll sögð með þessu. Hækkun þessi kemur svo sem ekki jafnt niður á alla bíla. Hún lendir langmest á þá, sem nota þurfa bíla til vöruflutninga.“ ... „Ég verð að segja það, að ég öfunda ekki ríkisstj. af því að láta bera þetta frv. fram.“ - Þetta segir hæstv. núv. atvmrh. í ræðu sinni 1930. Ég geri það ekki heldur nú. Svo segir hann ennfremur: „það er leiðinlegt að þurfa að segja þann sannleika, að eftir því, sem árin færast yfir stj., hneigist hún mjög í hina verri átt. Stóra og litla íhaldið dregst nær og nær hvort öðru. Í skattamálunum eru íhöldin nú orðin alveg sammála. Flaustrað hefir verið gegnum þingið með afbrigðum framlenging á verðtolli, sem upphaflega var settur 1924, og átti þá aðeins að vera til bráðabirgða - ekki lengur en á meðan sterlingspundið færi ekki niður úr 26 kr. Þar voru Framsókn og Íhald sammála. Samkomulag varð og um það með Íhaldi og Framsókn að breyta ekki tekju- og eignarskattslögunum. Bæði íhöldin eru andvíg lækkun á kaffi- og sykurtollinum.“

Það eru þessi tvö íhöld, Framsókn og sósíalistar, sem nú hafa verið að hækka tollinn til stórra muna, bæði á kaffi og sykri!

Loks er fróðlegt að upplýsa, hvað þessi hæstv. ráðh. sagði 1930, þegar benzíntollurinn átti að gefa 200 þús. kr., og gaman fyrir þá, er flytja þetta frv. nú, sem á, að dæmi hv. 2. þm. Reykv., að valda bifreiða- og benzínnotendum 600 þús. kr. viðbótarútgjöldum.

„Ég sagði í upphafi máls míns, að vítavert væri að bera fram svo síðla þings jafnvanhugsað frv. og þetta er. Það hefir enginn tekið fyrir einstakar greinar þess, og ég ætla ekki að gera það heldur. En ég get ekki stillt mig um að fara nokkrum orðum um grg. frv. og þá skatta, sem fyrir voru á bifreiðum. Auk þess benzíntolls, sem á skal leggjast og er 7 aurar á lítra samkv. frv., eða 20-25% af núv. benzínverði, þá haldist líka þeir innflutningstollar, sem nú eru á bifreiðum og einstökum hlutum til þeirra. Vörutollur er nú á bifreiðum, sem inn eru fluttar. 20 kr. 5 tonn. Á bifhjólum, bifreiðahlutum, hjólbörðum og gúmmíslöngum er vörutollurinn 60 kr. á tonn. Auk þess er 15% verðtollur á bifreiðum, bifhjólum og að nokkru á bifreiðahlutum. Þetta allt eru skattar, sem leggjast á bifreiðarnar og varahluti þeirra, þegar inn er flutt.“ - Nú hafa þessir skattar margir stórhækkað síðan þessi ræða var flutt 1930. Og nú á að bæta 250-300 þús. kr. benzínskatti ofan á þessi útgjöld, sem hv. 2. þm. Reykv. segir, að verði raunverulega 500-600 þús. kr. á bifreiða- og benzínnotendur í landinu. - Ráðh. endar svo þessa eftirminnilegu ræðu sína þannig: „Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni. Ég greiði hiklaust atkv. gegn því, ef til atkv. kemur. Mér þykir leitt, að ríkisstj. skyldi verða til þess að flytja þetta frv., og enn leiðara, hvað mikið kapp hún leggur á að berja það fram.“ - Þetta álít ég, að ætti að vera kjörorð sósíalista nú að þessu sinni, að greiða hiklaust atkv. gegn því frv., sem hér liggur fyrir. Ég hefi kosið að tefla sósíalistum fram fyrir mig í þessu máli. Ég tel það ekki nærri því eins hættulegt og þeir álíta að svo sé, þó það íþyngi gífurlega þeim, sem fyrir því verða. Mín andmæli gegn þessum skatti stafa af því, að hann er viðbótarskattur við þá skattpíningu, sem núv. stjórnarflokkar hafa innleitt.

Ég hefi viljað sýna hér forsögu sósíalista í þessu máli, til þess að vita, hvað þeir eru fimir að snúast í kringum sjálfa sig. Ég get búizt við, að hæstv. atvmrh. takist að láta minna á því bera, en ég er hræddur um, að hv. 2. þm. Reykv. verði stirt um að gera grein fyrir hringsnúningi sínum hér í d.