17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., en vil aðeins víkja nokkrum orðum til hv. þm. G.-K. Ég mun ekki á nokkurn hátt draga úr hinum lofsamlegu ummælum hv. þm. um hina mjög svo snjöllu og skörulegu ræðu, er hv. þm. las hér upp úr Þingtíðindunum eftir mig. Það er allt réttmætt, sem þar er sagt, og er það miklu meira en hægt er að segja um ræður hv. þm. G.-K. venjulega.

Ástæðan til þess, að ég flutti þessa ræðu á sínum tíma, er í stuttu máli sú, sem nú skal greina. Þegar ég flutti þessa ræðu hér í þessari hv. d., þá voru engir örðugleikar á því að fá fé til viðhalds þjóðvegum og til vegagerða án þess að hækka benzínskattinn. Þá var þannig ástatt í þinginu, að fyrir því lágu tillögur frá okkur í þm. Alþfl. um hækkun á tekju- og eignarskattinum, og mátti samkv. þeim fá miklu meira fé í ríkissjóð til þessara framkvæmda. En þessu frv. okkar var þá hafnað af meiri hl. Alþingis. - Síðan þetta gerðist hefir tekju- og eignarskatturinn verið hækkaður til muna. Á síðasta þingi var tekjuskatturinn hækkaður um 40%, og nú liggur fyrir þessu þingi frv. um allverulega hækkun á tekjuskatti af hátekjum, sem ég tel víst, að verði samþ. 13.08 er því ekki hægt að halda lengra áfram á þeirri braut nú, enda hefir verið farið svo langt sem gerlegt þótti. Auk þess hefir einnig verið aflað tekna til ríkissjóðs með einkasölum á nokkrum vörutegundum. Ástandið er þannig, að um tvennt var að velja. Annaðhvort að láta ógerðar framkvæmdir, sem ætlazt er til, að verði unnar, eða afla fjár á þennan hátt.

Ég játa það hispurslaust, að mér er ekki ljúft að afla tekna á þennan hátt. En af því að ég tel mikilsvert fyrir bílaeigendur og fólkið í landinu að fá þær framkvæmdir, sem fé þetta á að renna til, hefi ég verið með því að þessu sinni, að lög þessi yrðu sett í eitt ár.

Eins og hv. þm. munu sjá, er þannig gengið frá í frv., að ákveðið er, til hverra framkvæmda fé þetta renni, og er með því sköpuð atvinna við vissar framkvæmdir í landinu, sem kemur öllum til góða, og þar á meðal bílaeigendum.

Eins og vitað er, þá hafa orðið stórkostlegar breyt. á flutningum á landi þessi síðustu ár, þegar vegakerfi landsins hefir þanizt svo mjög út, enda eru vegirnir orðnir aðalundirstaða samgangna í landinu og greiða mjög fyrir örari viðskiptum sveita og sjávarplássa. Vegaviðhaldið hefir því skiljanlega aukizt til stórra muna, og var þar um tvennt að velja, annaðhvort að leggja ekki fram fé, sem meiru næmi en nauðsynlegt þætti til að vegirnir héldust slarkfærir, eða afla aukins fjár og bæta þær leiðir, sem nú eru mest farnar. Síðari leiðin var valin. Áætlað er til nýrra akvega og viðhalds í fjárl. fyrir næsta ár 1200000 kr. En auk þess skal svo verja tekjum af hækkun benzínskattsins til byggingar nýrra vega, og verður það umfram þá fjárveitingu, sem venja er til í fjárl. hvers árs að áætla í þessu skyni. Þetta er því til aukningar framkvæmdum, til sköpunar nýrrar atvinnu í landinu.

Það er alveg rétt sem hv. þm. var að tala um að í fyrstu kemur þessi skattgreiðsla niður í bílaeigendum. En við verðum að gera ráð fyrir því, að þeir nái því aftur með hækkun á fargjöldum og flutningsgjöldum, að svo miklu leyti, sem þessi skatthækkun vinnst ekki upp með bættum vegum. Þess vegna er hyllzt til, að tekjur þessar renni til vissra vega, þar sem umferðin er mest, svo að hinn óbeini vinningur komi sem fyrst aftur.

Við ummæli mín um fors. hefi ég engu að bæta. Hæstv. fors. hefir heldur skánað síðan, og ég vona, að það haldi áfram. Gagnvart stjórnarflokkunum hefir hann komið „loyalt“ fram og forðast að misnota vald sitt, heldur ber jafnan undir þá um afgreiðslu mála, svo að þar um verði ákveðið af meiri hluta þingsins, eins og á að vera og verður að vera.