20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2898)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætlaði í byrjun umr. að gera grein fyrir þeirri höfuðbreyt., sem hefir orðið á frv. síðan það fór úr þessari hv. d., en ég var tepptur við atkvgr. í hv. Nd., svo að hv. 1. þm. Skagf. hefir hafið umr. áður en ég gat gert grein fyrir þeirri breyt., sem orðið hefir á frv. - Ég skal ekki fara út í hinar minni breyt. á frv., enda gerði hv. 1. þm. Skagf. það ekki. En ég ætla að minnast á 4. gr. frv., sem var sett inn í hv. Nd., en þar er ríkisstj. heimilað að innheimta 8 aura innflutningsgjald af hverjum lítra af benzíni í stað 4 aura, sem það er nú. Að þessu er sá aðdragandi, að víðsvegar af landinu hafa borizt kröfur um vegagerðir, bæti af því að þörf er fyrir betri vegi, og svo ennfremur af þeirri ástæðu, að mikil þörf er fyrir aukna atvinnu vita. En atvinnuleysið stafar m. a. af þeim samdrætti, sem orðið hefir í ýmsum atvinnugreinum, vegna þess að útflutningsverðmætið hefir minnkað, en af því hlýtur aftur að leiða minnkaðan innflutning. Eins og hv. dm. er kunnugt, þá var í fjárl. ekki orðið rúm fyrir þeim vegagerðum, sem beðið var um. Og ef ekki átti að daufheyrast við öllum frekari framlögum en gert var ráð fyrir áður í fjárlfrv., þá varð að taka það ráð að hækka benzínskattinn og láta hækkunina ganga til vegagerða. Með tilliti til þess, að þörf er á betri vegum, og ennfremur í ríkum mæli þörf á aukinni atvinnu handa landsfólkinu, þá hafa stj.flokkarnir horfið að því að hækka benzínskattinn og láta hækkunina ganga til vegaframkvæmda. Það má benda á, að langmest af þeirri vinnu, sem benzínskatturinn á að ganga til, á að framkvæma á Suðurlandi, og er það með ráðum gert, því það er búizt við því, að þar hljóti að draga mjög úr byggingum frá því, sem verið hefir, vegna takmarkaðs innflutnings, og hefir það í för með sér aukið atvinnuleysi í þeim stéttum, sem stundað hafa þá atvinnu, og er þá gott, ef hægt er að beina einhverjum af þeim mönnum að vegavinnu, því að vinna kostar svo sem ekkert erlent efni.

Ég vil leyfa mér að upplýsa hv. dm. um það, hvernig álagningu benzínskatts er háttað í öðrum löndum, og ættu þær upplýsingar að sýna, hvort það er óeðlilegt, að hann sé nú hækkaður hér nokkuð:

Í Ítalíu er benzínskattur og tollar 49,26 aur.

Á Frakklandi 47,20.

Í Þýzkalandi 35,43.

Í Sviss 25,18.

Í Belgíu (Brüssel) 29,21.

Í Englandi (Wales) 16,42.

Í Noregi 11,27.

Í Danmörku 13.

Í Svíþjóð 11,68.

Af þessu má sjá, að þar sem benzínskatturinn er lægstur, þar hefir hann verið fast að þrefalt hærri en hann hefir verið hér áður. En hér hefir hann verið nokkuð yfir 4 aura með vörutolli, en ég veit ekki með vissu, hve mikið. En eftir þá hækkun, sem ríkisstj. leggur til, að verði gerð á honum, þá mun láta nærri, að hann verði 81/2 eyrir á lítra. En í Svíþjóð er hann 11,68 aurar og í Danmörku, þar sem margir þekkja til, er hann um 13 aura. Þetta sýnir, að aðrar þjóðir hafa farið inn á þá braut, og ekki getað komizt hjá því að leggja skatt á umferðina til þess að verja honum annaðhvort til nýrra vegalagninga eða til þess að standast kostnaðinn af viðhaldi veganna. Ég fæ ekki séð, að það sé óeðlilegt, að hér er nú horfið lengra inn á þessa braut en verið hefir.

Ég þykist vita, að einstaka maður muni mæla gegn þessum skatti á þeim grundvelli, að hann komi eingöngu niður á þeim, sem verða að flytja með bifreiðunum. En þegar þess er gætt, að skatturinn er eingöngu látinn renna til þess að bæta vegina eða til þess að leggja nýja, sem eiga að koma landbúnaðinum til góða, þá horfir málið öðruvísi við. Ég er viss um, að fólkið í þessum héruðum leggur svo mikið upp úr góðum vegum, að það vill frekar leggja á sig gjald heldur en að láta vegina drabbast niður eða vera ólagða og greiða ekki benzínskatt.

Ég skal ekki fjölyrða mikið um það, hvernig lagt er til, að benzínskattinum verði varið. Till. um það eru í 6 liðum, þó aðallega í 4 liðum. 1. liðurinn er um það, að verja á til Suðurlandsbrautar allt að 70 þús. kr. Þar er ætlazt til, að byrjað verði á nýjum vegi austur í Árnessýslu og Rangárvallasýslu og áfram lengra austur. 2. liðurinn er, að veita á til malbikunar á veginum frá Reykjavík að Elliðaám 50 þús. kr. Það er ætlazt til, að sá hluti skattsins og þær 50 þús., sem á að verja til Hafnarfjarðarvegar, komi nú þegar til góða þeim, sem aka bifreiðum á þessum leiðum, og ættu þessar upphæðir að létta heldur fyrir þeim, sem skatturinn hittir, þannig, að þeir þurfi minna til rekstrarkostnaðar við bifreiðarnar. Um 4. og 5. lið er það að segja, að þar er gert ráð fyrir, að 40 þús. kr. séu veittar til Holtavörðuheiðarvegar og 20 þús. kr. til Austfjarðavegar, og eru þær upphæðir miðaðar við það, að bæta þá vegakafla, sem eru verstir á leiðinni kringum landið. 6. liðurinn er um að veita 20 þús. kr. til Geysisvegar frá Múla í Biskupstungum. Það er stórt atriði fyrir þá, sem hafa atvinnu af að aka erlendum ferðamönnum, að sá vegakafli sé lagaður.

Það er engum vafa undirorpið, að ef þessi skattur er ekki lagður á, þá er ekki fært að byrja að neinn verulegu leyti á því stóra mannvirki að leggja góðan veg austur í Árnessýslu og Rangárvallasýslu, en sá vegur hlýtur að verða til mikils hagnaðar fyrir þær sýslur. Ég býst við, að að því verði stefnt að láta eitthvað af atvinnubótafénu renna til þess vegar, en það verður aldrei svo há upphæð, sem þyrfti að vera. Upphæðin til Suðurlandsbrautarinnar er höfð hæst, með tilliti til þess, að héruðin austanfjalls greiða töluverðan hluta af hinu nýja gjaldi.

Ég vil vekja athygli á því, að mótmælin gegn þessum skatti hafa nær eingöngu byggzt á því, að hlutaðeigendur þoli hann ekki, vegna þess að svo mikið sé búið að leggja á áður af sköttum, en ekki á því, að menn séu mótfallnir þeirri tekjuleið, sem þarna er stungið upp á, og vil ég í því efni vísa til þess, sem hv. 1. þm. Skagf. tók fram. Þetta sýnir, að þessi skattstofn er viðurkenndur að vera réttmætur.

Hv. 1. þm. Skagf. spurði mig að því, hvort ég áliti, að hægt væri að auka skatta og tolla á næsta ári. Þessari spurningu svara ég ekki, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt að segja til um það. Því hefir áður verið lýst yfir á Alþ., að stj.-flokkarnir óskuðu þess, að ekki hefði þurft til þess að koma að hækka tekjuskattinn. En vegna erfiðleikanna með gjaldeyri verðum við að draga mikið úr innflutningi til landsins, en á innflutningnum byggjast tekjur ríkissjóðs að miklu leyti, þá þótti ekki fært að byggja á gömlu tekjustofnunum. En um það skal ég ekkert segja, hvort svipað muni endurtaka sig.

Ég vil benda á út af því, sem hv. þm. sagði um skattana og tollana, að það er ákaflega mismunandi í hinum ýmsu tilfellum, hvað má ganga langt í því að krefja inn skatta og tolla, og er það aðallega fólgið í því, til hvers á að nota þá. Ef á að nota þá til þess að auka beina eyðslu ríkissjóðs, þá getur það verið hættulegt fyrir þjóðfélagið að afla þeirra. En ef við hugsum okkur aftur á móti, að þeir séu notaðir til þess að jafna milli framleiðenda og neytenda með því að veita framleiðslufyrirtækjunum styrki, - ef þeir eru notaðir til þess, þá er hægt að rökstyðja það að gengið sé lengra heldur en ef þeir eru notaðir til hins, sem ég nefndi áður.

Ég skal svo ekki fara lengra út í það að ræða þetta mál, en ég vil leggja áherzlu á það, að fn. sé Samþ. óbreytt hér í þessari hv. d. Ef því yrði breytt, þá má búast við, að það hlyti ekki afgreiðslu, en eins og gengið er frá fjárlfrv., þá verður þetta frv. að hljóta afgreiðslu jafnhliða því.