20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Rang. hefir nú flutt hér langa og merkilega ræðu. En það er dálítið einkennilegt, að sá ráðh., sem stendur að þessu frv., skuli, ekki hafa fundið neina ástæðu til þess að vera viðstaddur. Og er það náttúrlega vottur um það, að það muni vera með öllu ráðið hvort sem er, hvernig þessu máli, á að ráða til lykta, og þess vegna þurfi ekki að hlusta á nein rök í málinu.

Ég, get nú verið stuttorður, því hv. 2. þm. Rang. hefir tekið svo margt fram af því, sem um málið þurfti að segja.

Þetta mál hefir fengið svipaða meðferð hér á þingi eins og nú er farið að tíðkast meira en dæmi voru til áður, sem sé að mál eru borin fram í einhverri og einhverri mynd til að byrja með, og svo á síðustu stundu er aukið við þau hinu og þessu rétt eins og mönnum sýnist við síðustu umr. Það er meira að segja dæmi til þess, að frv., sem ekki var upphaflega nema 3-4 línur, varð að síðustu að mjög stóru frv., sem breytti svo um nafn og varð að breyt. á allt öðrum l. heldur en upphaflega, þ. e. a. s. það varð að nýju máli, rétt þegar það var að komast út úr þinginu. Þetta stappar nærri því að vera brot á stjskr., sem heimtar 6 umr. um hvert mál. Það væri í raun og veru rétt af forseta að vísa slíkum brtt. frá, sérstaklega þegar um það er að ræða, að mál er gert alveg að nýju máli. Það er dálítið svipað um þetta mál, sem hér liggur fyrir. Þó það sé ekki í 16 liðum eins og bandormsfrv., þá er liðunum að fjölga. Það bættist við einn nýr í Nd., og þó hann sé ekki nema einn, þá er hann stór, og það hefir stundum þótt ástæða til að láta mál fá venjulega meðferð hér á þingi, sem ekki hafa verið stærri heldur en það, að leggja hefir átt skatt á þjóðina, sem næmi eitthvað yfir 1/4 millj. Það hefir stundum þótt ástæða til þess að ræða minni mál heldur en það á alveg lögformlegan hátt. En það er eins með skattaálögurnar og allt annað, að maður getur vanizt öllu illu þannig, að verða ekki svo mjög næmur fyrir því. Þetta er sláandi dæmi upp á það, hvernig skattapólitíkin er rekin, að menn hrökkva ekkert við, þó að við síðustu umr. einhvers máls sé bætt við einni gr., sem er um að leggja nokkur hundruð þús. kr. skatt á þjóðina. Þetta er sláandi dæmi um það, hvað menn eru búnir að reyna af þessari stj. og fylgismönnum hennar áður en svo er komið, að menn hrökkva ekkert við, þó þeir heyri slík tíðindi sem þessi, að bætt hafi verið inn í frv. nýrri gr., sem felur í sér skatt upp á 300 þús. Hitt er annað mál í því sambandi, hvernig þessi skattur er lagður á, að hann á að leggjast á nauðsynlegar samgöngur og að öðru leyti á nauðsynlega vinnu. En sú skoðun virðist vera algeng hjá mönnum, að það sé í raun og veru ekki um aðrar bílaferðir að ræða en landshorna á milli. Menn athuga það ekki, að sennilega eru langmestu vegalengdirnar, sem bílum er ekið, bara innan bæja við ýmiskonar atvinnurekstur.

Þegar þetta frv. kom fram upphaflega, þá fylgdi lausleg áætlun um það, hverju þeir skattar mundu nema, sem lagðir væru á með auknum tekjuskatti og nýjum verðtolli, og var sú áætlun rúm 1 millj. kr. Það er nú erfitt að áætla þessa fjárhæð, sérstaklega vörutollinn, vegna þess að verzlunarskýrslur hafa naumast svo nákvæma sundurliðun, að hægt sé að fylgjast með í þeim einstöku atriðum, og sérstaklega verður erfitt með áætlun, þegar allur innflutningur er í hömlum, svo það er í raun og veru ekki hægt að byggja á því, sem gerzt hefir í þessu efni. En ég hygg, að það sé samt margra manna skoðun, og áætlun sú, sem gefin var í frv., hafi verið of lág og sá skattur, sem hér er um að ræða, - ef ekki því sterkari innflutningshömlum verður beitt, - muni verða töluvert hærri, þannig að hann muni verða hátt á 2. millj. kr. Síðan er í Nd. bætt við þessum nýja lið, og ég býst við, að það fari þá ekki fjarri því, að þessar nýju skattálögur muni nema eitthvað um 11/2 millj. kr. Hæstv. fjmrh. sagði nú áðan, að það væri einlægur vilji núv. stj. að þurfa ekki að hækka skattana. Þeir voru hækkaðir um 2 millj. á síðasta þingi, og þó var þá hægt á skilja á orðum hæstv. fjmrh. og margra fleiri, að þá væri í raun og veru búið að treysta svo á tekjustofnana, að ekki væru miklar líkur til þess, að hægt væri að komast lengra eftir þeirri leið.

Hæstv. fjmrh. er nú alveg hættur að verja þessa skattauka eða gera lítið úr þeim, en hann klifar stöðugt á því, að þetta eigi að fara til einhvers, sem sé arðbært, og það sé mesti munur. Ég get nú ekki séð, hver þessi arðbæru fyrirtæki eru, sem langmestur hluti þessara skatta á að renna til. Það má náttúrlega lengi um það deila, hvað það er, sem ber arð. Það er ýmislegt, sem getur orðið arðbært, þegar aldir líða, og svo annað, sem skilar þegar í stað því fé, sem í það var lagt. Við skulum t. d. taka það, sem ætlazt er til, að benzínskatturinn renni til, vegalagningarnar. Það er vitanlegt, að skynsamlega gerðir vegir skila sínum arði fyrir þjóðfélagið á mjög löngum tíma. En það er ómögulegt að segja, að bygging vega sé arðbært fyrirtæki. Fé, sem lagt er í vegi, skilar sér ekki á þann hátt, að þeir skattgreiðendur, sem þetta fé leggja til, séu út af fyrir sig betur stæðir með sín atvinnufyrirtæki eftir en áður. Það er ekki hægt að færa nein rök fyrir því, að malbikun vega austur yfir fjall Og góður vegur norður yfir Holtavörðuheiði valdi neinum afgerandi hlut fyrir stórútgerð landsmanna. Því fé, sem tekið er af stórútgerðinni og lagt í slíka vegi, getur vitanlega verið vel varið, en það skilar ekki neinum arði til þessara fyrirtækja, þannig að þau séu færari til þess að standa undir sínum byrðum þrátt fyrir þessa góðu vegi. Það er aðeins á mjög löngum tíma, að góðir vegir koma öllum landsins börnum að gagni. En þegar á krepputímum eru teknir miklir peningar í slík fyrirtæki, þá verkar það sem byrði á atvinnuvegina. - Það er eins með það fé, sem fer til alþýðutrygginganna. Það má náttúrlega segja, að alþýðutryggingarnar séu þarfar og að allt, sem sé þarft, komi atvinnuvegunum til góða, en vissulega skilar þetta fé sér ekki aftur, nema eftir langan tíma, og að ýmsu leyti aldrei, þannig að það komi beinlínis sem stuðningur við atvinnuvegina. Það er því villandi hjá hæstv. fjmrh., þegar hann talar um, að það séu 4-5 liðir, sem beinlínis séu ætlaðir til þess að styðja framleiðsluna, svo sem gera upp skuldir smáútgerðarinnar og annað slíkt, sem ekki er nema örlítill partur af því fé, sem heimta á inn með þessum nýju sköttum. - Hin röksemdin, sem hæstv. fjmrh. ber alltaf fram, er um þessar tilfæringar milli stétta í þjóðfélaginu. Það er náttúrlega gott og blessað að framkvæma þessar tilfærslur, taka af þeim, sem meira hafa, og láta hina fá, sem minna hafa. En þessar tilfærslur, sem framkvæmdar eru með skattalögum, koma aldrei rétt niður. Við getum að vísu sagt, að hinn beini tekjuskattur kannske geri það, ef honum er deilt út sem styrk til þeirra, sem eiga erfiðast með að komast af. En ef við tökum verðtollinn og benzínskattinn, þá er þetta ekkert annað en orðagjálfur, að verið sé að taka af þeim, sem meira hafa, og láta þá, sem minna hafa, fá þetta í staðinn. annars sýndi hv. 2. þm. Rang. ljóslega fram á það, hvað þetta væri í raun og veru miklu flóknara mál heldur en hæstv. fjmrh. vill vera láta eða heldur, þó mér þyki nú ótrúlegt, að hann sé svo mikið barn. En hæstv. fjmrh. virðist samt, eftir orðum hans að dæma, ganga út frá þeirri gömlu hugmynd, að í ríkinu séu nokkrir maurapúkar, sem eigi fullar kistur af spesíum, en svo séu á næstu bæjum menn, sem engar spesíur eiga. Og þá vill hæstv. fjmrh. fara í handraðann og taka nokkuð frá þeim ríku og fá þeim, sem fátækari eru. Þetta væri nú allt ágætt, ef það væri svona einfalt. En hv. 2. þm. Rang. dró það svo vel fram, að þessar tilfærslur leiða því miður allt of oft til þess, að það er aðeins tekið af þeim, sem meira hafa, án þess að hinir fái nokkuð, sem hafa minna. Og hvernig stendur á þessu? Þetta getur maður skilið, ef maður veit, í hverju þessi auður þjóðfélagsins er fólginn. Það eru til menn, sem eiga peninga. En hvar eru þeir peningar? Eru þeir í kistuhandraðanum eða múruðum hvelfingum? Nei, þeir standa í atvinnufyrirtækjunum. Allur auður þjóðfélagsins stendur í atvinnufyrirtækjunum, nema það, sem bankarnir sitja með sem nauðsynlega sjóði. Sá maður, sem sjálfur er atvinnurekandi, notar það fé, sem hann hefir til umráða, í sitt atvinnufyrirtæki, en sá, sem ekki óskar að reka atvinnu, en á peninga, harm leggur til í bankana, sem svo aftur lána þá öðrum, sem vilja nota þá í atvinnufyrirtæki. Þannig er hver peningur, sem dreginn er úr eigu manna, dreginn út úr því atvinnufyrirtæki, sem hann stendur í. Það er það alvarlega. Hann er ekki tekinn úr vasa eins manns og afhentur öðrum, heldur úr því atvinnufyrirtæki, sem hann stendur í og hjálpar til að halda gangandi. Nú getur það að vísu verið, að ríkið, sem tekur þessa peninga út úr atvinnufyrirtækjunum, setji þá aftur út í önnur atvinnufyrirtaki að einhverju leyti. En ef t. d. teknir eru peningar úr fiskiveiðum og settir í vegalagningar, þá verður almenningur fátækari. Þetta verður því ekki tilfærsla milli hins ríka og hins fátæka, heldur tilfærsla úr einni notkuninni í aðra. Fé, sem getur haldið 3-4 togurum gangandi, getur e. t. v. haldið 34 verkamannahópum gangandi við það að byggja vegi. En hvort er gagnlegra fyrir hinn vinnandi lýð, togararnir eða vegarspottinn, sem veitti aðeins atvinnu meðan verið var að leggja hann, en stendur svo sem dauður hlutur í þjóðfélaginu, þegar búið er að draga nógu mikla peninga frá þeim ríka til hins fátæka, sem þó ekki þýðir í raun og veru annað en það, að búið er að draga svo og svo mikið fé út úr gangandi atvinnufyrirtækjum og leggja það í meira og minna dauðar eignir, að vísu góðar en alveg gagnslausar fyrir hið vinnandi fólk? Það er sem sé búið að gera hóp af mönnum miklu efnaminni, án þess að hinir hafi fengið nokkuð. - Það er hins og hv. 2. þm. Rang. sagði, að það vari gott, ef þetta væri allt svona einfalt eins og hæstv. fjmrh. telur. Þá væri einfalt að stjórna þjóðfélaginu og þá væri ekki nein kreppa.

Ef hæstv. fjmrh. gæti sýnt fram á það, að hann gæti framkvæmt þessar efnatilfærslur, þá mundi hann sjálfsagt hafa með sér í því yfir 90% af allri þjóðinni. Það væru svo margir, sem mundu græða á því, að efnin væru þannig færð til. En erfiðleikarnir eru þeir, að þetta er allt saman meira og minna barnalegar hugmyndir.

Ég skal svo snúa mér að viðbótinni frá Nd., benzínskattaukanum. Bifreiðaskatturinn á sína sögu, ekki bara á þingi, þar sem hann kemur inn sem gjöld upp á 1/4 millj. kr., heldur líka hér á landi yfirleitt á undanförnum árum. Upphaflega var hann settur á þannig, að reynt var að láta hann sérstaklega ná til þeirra bifreiða, sem mest nota vegina. Í þessu skyni var gerður mikill munur á fólks- og vöruflutningabifreiðum. Fólksflutningabifreiðarnar geta ekki talizt eins nauðsynlegar fyrir atvinnuvegina og hinar, en þó nota þær vegina meira. Þær fara um landið þvert og endilangt og spilla vegunum og hafa líka meiri hag af viðhaldi þeirra, en allur þorri vörubifreiða notar yfirleitt ekki vegakerfi landsins, svo að teljandi sé. Þar fara kannske út fyrir bæina þrisvar eða fjórum sinnum á ári. Vörubifreiðar, sem notaðar eru t. d. í Vestmannaeyjum, á Siglufirði og Ísafirði og öðrum hafnarbæjum, koma aldrei á langleiðirnar. Og allur fjöldinn af vörubifreiðum Rvíkur kemur svo að segja aldrei á vegakerfi landsins. Maður reiknar það ekki, þó að bifreiðar, sem notaðar eru daglega, fari t. d. einu sinni á ári með starfsmenn einhvers fyrirtækis austur að Gullfossi eða Geysi. Þessar bifreiðar spilla ekki vegakerfinu og njóta ekki góðs af því. Þessvegna á ekki að leggja skatt á þær. Því var gamli bifreiðaskatturinn, sem gerði mikinn mun á hinum tveim tegundum bifreiða, miklu réttlátari en þessi nýji skattur. Enda voru það talin voðaleg tíðindi, þegar fyrst var stungið upp á því að leggja þennan skatt sem mest á benzínið. Var sú till. kölluð litla ljóta frv., en síðan stóra ljóta frv. Í Nd. var um daginn verið að lesa upp ummæli jafnaðarmanna, sem börðust þá af einlægni gegn þessu. Er gaman að rekja þær umr., og freistast ég til að lesa upp nokkuð af því, sem núv. atvmrh. sagði um aðferðir stj. þáverandi. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það lítur út fyrir, að stj. standi í þeirri meiningu, að það sé eiginlega hún, sem eigi að ráða því, hvaða mál ljúkast í þinginu. Hæstv. stj. ætti að vera nóg að vera hæstráðandi milli þinga, þótt hún fari ekki að taka fram fyrir hendur þingsins á síðustu dögum þess. En það lítur út fyrir, að hún ætli sér það, þegar hún dembir inn í þinglok mjög vanhugsuðum frv., sem hún ætlast svo til, að verði lokið í báðum deildum ...“

Hann vítir þarna stj. fyrir ráðríki, að hún skuli demba málum inn í þinglokin. Þetta sýnir bara, hvernig sumir menn tala eftir því, hvernig á stendur í það og það skiptir Jafnaðarmenn börðust þá á móti benzínskattinum, og réttilega.

Hæstv. ráðh. las upp nokkrar tölur, sem sýndu, hve hár benzínskattur er í ýmsum löndum. Ég skal ekki efast um, að hann hafi farið rétt með þar tölur, enda þótt mig stórfurði á því, að hann geti komizt nokkursstaðar upp í 50 aura á lítra. En í nágrannalöndum okkar er benzínskatturinn óneitanlega nokkuð hár að auratali, þó að hann sé þar í raun og veru töluvert miklu lægri en þessi skattur, sem hér á að koma á. Þegar litið er á það, að með þessu benzíni er í öðrum löndum ekið eftir rennisléttum þjóðvegum, þar sem jafnvel aukavegirnir eru betri en beztu vegir hérlendis, þá verður þetta skiljanlegt. Þessi samanburður hæstv. ráðh. verður villandi, þegar sá akstur er borinn saman við það, sem hér gerist, þar sem bílar verða að skrúfa sig á öðru gíri svo að segja alla leiðina til Akureyrar, upp brekkur og niður brekkur, fyrir Hvalfjörðinn, yfir keldur og klungur. Benzíneyðsla hlýtur þar að vera hverfandi á móts við það, sem hér eyðist. Þegar þessa er gætt, verður það ljóst, hve benzíneyðsla og allur rekstrarkostnaður bíla hlýtur að vera miklu meiri hér á landi. Hár benzínskattur er því erlendis miklu síður tilfinnanlegur en hér. Ef þessir fínu þjóðvegir þeirra erlendis, járnbrautarsamgöngurnar o. s. frv. er borið saman við vegaskilyrði okkar, þá kemur í ljós, hvílíkur reginmunur það er, sem hér er um að ræða. Og svo kemur blessað barnið, hæstv. ráðh., og les upp tölur um benzínskatt í ýmsum löndum. Ég nærri því öfunda hann af því, hvað hann hugsar í einföldum línum og fjarri því, sem veruleikinn er í raun og veru.

Um benzínverð í Danmörku hefi ég það fyrir satt, að það sé lægra en hér, enda þótt fleiri aurar séu á það lagðir. Til þess hér líka að taka fullt tillit. Það er því hvorttveggja, að þeir eyða minna benzíni og borga minna fyrir hvern lítra. Þar er líka frjáls verzlun með þær vörur, er að bifreiðaakstri lúta. Þeir geta flutt inn bifreiðar frá þeim löndum, þar sem þær eru ódýrastar, en þurfa ekki, eins og hér viðgengst, að kaupa allt gegnum bifreiðaeinkasölu, sem mjólkar þessa verzlun í ríkissjóðinn. Þessi skattur verður ef til vill ekki léttari en benzínskatturinn. Bifreiðar eru ekki verkfæri, sem endast til eilífðar, og sérstaklega eru þær fljótar að fyrnast hér á landi. T. d. endast hjólbörð margfalt skemur hér á landi en annarsstaðar.

Svo kemur hér til greina sú mikla ósanngirni, sem ég gat um áðan, að vörubíla, sem ekki koma á vegi landsins, á að skattleggja um 1/4 millj. kr., til þess að geta lagt vegi um allt landið. Ég er því ekkert hissa, þó að bifreiðastjórar og bifreiðaeigendur rísi upp gegn þessum skatti. Það er nú að ske. Ég hefi fengið í hendur frá hæstv. forseta bréf, sem d. hefir borizt nú í kvöld. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þetta bréf, því að hvort sem maður er með því eða móti, sem þeir ætla að gera, bifreiðastjórarnir, hvort sem maður álítur það rétt eða rangt, þá verður þó að taka tillit til þess. Bréfið er frá Vörubílastöðinni „Þróttur“ og hljóðar svo: [Bréfið hefir glatazt, en efni þess var það, að vörubílastöðin tilkynnir efri deild Alþingis, að bílstjórar og bílaeigendur hafi gert með sér víðtæk samtök um að mótmæla viðbótarbenzínskatti, og sé nú svo komið, að ef Alþingi samþykki þessa verðhækkun, bendi allt til þess, að verkfall skelli á í fyrramálið (21. des.), eða í síðasta lagi 1. jan. 1936, og muni taka þátt í því allir bílstjórar og bílaeigendur á öllu Suðurlandi og ef til vill víðar, enda verði þá algerð stöðvun á vöru- og fólksflutningum.]

Ég vil nú, án þess að gefa nokkra skýrslu um það, hvort ég áliti, að bifreiðastjórar leggi hér út í heppilegt eða óheppilegt fyrirtæki, sem þm. Reykv. spyrja hæstv. stj., hvort hún hafi ekki orðið vör við, hvað í húfi er, og hvort hún vilji bera ábyrgð á því að skella yfir bæinn þeirri ógæfu, sem hljótast myndi af stöðvun bifreiðanna. Ef stj. ætlar að espa bifreiðastjórana til verkfalls, vofir yfir bænum voði, sem erfitt er að segja, hvað af geti leitt. Það getur t. d. valdið stöðvun mjólkurflutninganna, sem aftur getur kostað líf manna. Og allir sjá, hvað það getur þýtt, ef stöðvaðir eru flutningar á eldsneyti í hörkuveðri, eins og nú er. Ég beini því hér með til stj., að hún hagi svo aðgerðum sínum, að slík ógæfa verði ekki leidd yfir bæinn. Þetta verkfall er því háskalegra sem bifreiðastjórar hafa meira til síns máls. Verkfall, sem gert væri að tilefnislausu, hefði svo litla samúð á bak við sig, að það gæti ekki staðið degi lengur. Ég er miklu hræddari við verkfall, sem framkallað er af jafnhatramlegum aðgerðum stj. og þeim, sem hún ætlar nú að fara að framkvæma. fjöldi manna hér í bæ er þeirrar skoðunar, að bifreiðastjórar séu mjög hart leiknir. Það er náttúrlega gott og blessað að geta friðað menn fyrir austan fjall og á Norðurlandi með því, að þeir fái vegi yfir Hellisheiði og Holtavörðuheiði, en það friðar ekki bifreiðastjóra hér í bæ.

Ég bíð eftir svari hæstv. stj. um það, hvað hún ætli sér að gera. Ef hún lætur sem ekkert sé og lofar mönnum að drepast af skorti á öllum þeim nauðsynjum, sem flytja þarf með bifreiðum, þá væri það henni sjálfri fyrir verstu, og get ég ekki ímyndað mér, að hún leggi út í slíkt, þótt það væri hinsvegar ekki nema eftir hinum venjulega kærleika, sem hún sýnir til þessa bæjar.