20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Rang. vildi snúa út úr því, sem ég sagði áðan, að það væri eðlilegt að taka benzínskatt hér á landi, ekki síður en annarsstaðar, þar sem vegir væru hér lakari og þyrftu fremur umbóta við. Hann vildi snúa út úr þessu með því að segja, að það væri einkennilegt að verða að borga hærra fyrir að nota mega vegi en góða vegi. Þetta er náttúrlega ekkert nema útúrsnúningur, sem ég líka benti á með því að skjóta því fram í hjá hv. þm., að það væri gert ráð fyrir því, að þetta gjald færi til að bæta vegina. Hann tók dæmi og sagði, að þetta væri hliðstætt því, að maður tæki hest á leigu, þá ætti að borga hærri leigu, ef hesturinn væri slæmur en ef hann væri góður. Þetta er útúrsnúningur, því að leigan fer ekki til að bæta hrossið, því að ef þessi skattur er kallaður leiga, þá gengur hann til að bæta þann hlut, sem notaður er.

Hv. þm. sagði, að skatturinn hefði hækkað mikið síðan 1945, og það er alveg rétt. Hann bar skattinn saman við útflutninginn. Það kann að vera, að sá samanburður hafi visst gildi, en það er ekki einhlítt að bera saman skatta og tolla annarsvegar og útflutning hinsvegar. Í sumum löndum hagar viðskiptum svo til, að skattar og tollar eru miklu hærri en útflutningurinn. Þetta fer eftir því, hvernig hagar til hjá þjóðinni um verzlun og viðskipti. Eins og allir vita, þá hafa innanlandsviðskipti aukizt gífurlega síðan 1915, svo að það hefir ekki gildi út af fyrir sig að gera þennan samanburð.

Þá var það hv. 1. þm. Reykv. Hann vildi fá eitthvert svar hjá stj. um það, hvað hún vildi gera gagnvart þeim hótunum, sem hann kallaði, sem hingað hefðu borizt frá bifreiðastjórum í bænum. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi umboð til þess að krefjast svars við slíkri málaleitun, og mun honum engu verða svarað um þetta af mér.

Þá kem ég að því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði út af gagnrýni minni á fjármálastjórn Rvíkurbæjar og fyrirspurn minni um það, hvernig Sjálfstfl. vildi koma sínum málum í framkvæmd hvernig hann ætlaði að færa niður á fjárlfrv. um 4 millj. kr. krá frá því, sem það er nú. Ég held, að allir, sem hafa hlustað á ræðu hans, hafi verið jafnnær eftir þá langloku, sem hv. þm. var með hér. Og það var ekki af neinni tilviljun, að allir voru jafnnær. Það var af yfirlögðu ráði hjá hv. þm. að ganga framhjá þessu atriði og svara því ekki. Það er af því, að það er óþægilegt fyrir sjálfstæðismenn að svara því. Þess vegna er það, að í staðinn fyrir að gefa hrein svör, þá hlaupa þeir langt aftur í liðna tímann, benda á hvernig það hefði verið 1924-1927 og hvað þeir hefðu gert þá. En það kemur bara ekkert þessu máli við. Ég spyr um það, hvernig þeir mættu því viðhorfi, sem við höfum nú fyrir okkur. Það bjargar þeim ekkert nú, þó að við yrðum fyrir því láni 1924 að fá góðæri, sem gaf stórauknar tekjur í ríkissjóð. Þá voru líka gerðar tollahækkanir til þess að leiðrétta hag ríkissjóðs. Þetta er því ekki eins mikið þrekvirki og hv. þm. vill vera láta, og kemur þar að auki ekki þessu máli við, hvernig þeir ætla að leysa þá þraut að lækka fjárl. um millj. frá því, sem nú er. Ég vil, að hv. þm. svari því afdráttarlaust, því að þótt hér séu ekki margir viðstaddir, þá er þó ekki einskis virði fyrir þá að fá upplýsingar um þetta leyndardómsfulla atriði, sem aldrei hefir verið svarað enn, hversu oft sem um hefir verið spurt.

Það var líka talsvert fát á hv. þm., þegar hann var að tala um ásakanir mínar á fjármálastjórn Rvíkurbæjar, og það er ekki óvanalegt, þegar þeir eiga að verja það, sem þeir hafa gert, á sama tíma og þeir ásaka okkur fyrir skattahækkanir.

Hann sagði, að það væri ekki gott að deila við mig, því að ég væri alltaf með það sama. En er það ekki von, þegar ég verð alltaf að berjast við það sama. Það gengur alltaf aftur, hversu oft sem ég kveð það niður. Ég hefi ekki heldur getað fengið svar við þeirri spurningu, sem ég hefi borið upp víst 20-30 sinnum, að gefnu tilefni frá þeim sjálfum, hvernig þeir ætli að framkvæma þetta, sem þeir hafa alltaf verið að tala um, en hefi aldrei getað fengið svar. Þeir hafa alltaf veigrað sér við þessari spurningu, og það er af því, að í sambandi við hana er svo vel hægt að fletta ofan af þeim og sýna þá hræsni, sem kemur fram hjá þessum flokki nú sem oftar. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það væri ekkert að marka, þó að fjárhagur Rvíkurbæjar væri slæmur. Hann hefir sýnilega fengið samvizkubit út af útsvarshækkuninni, enda vildi hann ekkert á hana minnast. Hann sagði, að fjárhagur Rvíkur væri erfiður, en bæjarstj. réði þar minnstu, aðallega væri það þing og stjórn, sem stjórnaði bænum. Ég minnist samt þess, að hafa séð öðru haldið fram í blöðum sjálfstæðismanna, því að þar hafa þeir haldið því fram, að fjárhagur bæjarins væri mjög svo ágætur, og þá hafa þeir ekki nefnt, að stjórn og þing réði þar miklu, heldur væri það hin ágæta stjórn sjálfstæðismanna, sem hefði komið því til leiðar. En nú, þegar hv. 1. þm. Reykv. er að sýna fram á, að fjárhagur bæjarins sé slæmur, þá eru það allt aðrir menn, sem ráða. Þá er það þingmeirihlutinn og sú vonda ríkisstj., sem öllu ræður í Reykjavík. Ég held, að það sé varla hægt að finna gleggri undanbrögð en tilraunir hv. þm. til að reyna að smeygja sér út úr þessu. (MG: Vill hæstv. ráðh. neita því, að Alþingi geti ráðið miklu um útgjöld bæjarins?). Ég neita því, að útsvarshækkunin, sem er 140-150% á meðalgjaldanda, sé Alþingi að kenna, heldur sjálfstæðismönnum í Rvík, og þarf ekki langt að leita til að sjá það. Það þarf ekki annað en að athuga, hvernig þeir haga þeim lið í útgjöldum bæjarins, sem þeir þykjast mest vilja spara á hjá ríkinu, sem sé launagreiðslunum. Þar eru menn, sem hafa tvöföld ráðherralaun. Varla er það Alþingi að kenna.

Hv. þm. segir, að taka verði tillit til þess, að fólki hefir fjölgað í Rvík, þegar borin eru saman útgjöld bæjarins fyrr og nú. Vill hann þá ekki líka taka tillit til þess, þegar hann hér saman tolla og skatta fyrr og nú, að landsmönnum hefir fjölgað í heild? Hann gleymdi því þá. Svona er þetta allt hjá honum, allt árangurslausar tilraunir til að verja það, sem ómögulegt er að verja, því að um leið og þeir eru að deila á okkur fyrir skattrúningu, þá er þeirra flokkur í Rvík búinn að hækka heildarupphæð útsvaranna síðan 1929 um 100%, eða í raun og veru allt að 150%.