20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það umræðuefni, sem hér liggur aðallega fyrir, er benzínskatturinn, þó að umr. hafi farið nokkuð á við og dreif. Ég ætla að segja aðeins nokkur orð um benzínskattinn, sem nú er svo mikið deilt um.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að ástæðan til þess, að upp hefir komið nokkur óánægja út af benzínskattinnm, er að miklu leyti sú, að á undanförnum árum hefir þessum málum verið hagað þannig, að benzínskatturinn hefir verið tekinn til annars en til var ætlazt í upphafi, og þeir menn, sem hafa átt að njóta þess, að benzínskatturinn væri innheimtur til þess að láta hann ganga til vegabóta, hafa orðið fyrir mjög sárum vonbrigðum á undanförnum árum. Það er því fyrst og fremst nauðsynlegt til þess að skatturinn komi að því gagni, sem hann á að koma, að búið sé um löggjöfina eins og nú er gert í fyrsta sinn, að það er beinlínis tekið fram í sömu l., til hvers benzínskatturinn skuli fara.

Þessi benzínskattur, sem hér á að lögleiða, er ekki nema fyrir eitt ár, en jafnframt er tekið fram einmitt í þeim l., sem heimila að leggja hann á, til hvers eigi að verja þeirri upphæð, sem næst á þennan hátt. Það er gert til þess, að þær vegabætur, sem framkvæma á fyrir þetta fé, komi sem hagkvæmast niður fyrir þá, sem þeirra eiga að njóta, bifreiðastjórana.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að mikið af þeirri óánægju, sem hefir risið út af þessum skatti nú, stafar af þeirri brigðmælgi, sem hefir átt sér stað í þessu máli á undanförnum árum. Ég kem nánar að þessu atriði og sögu þess, áður en ég lýk máli mínu.

Það hefir verið agiterað á tvennan hátt í þessu máli, eftir því sem bezt hefir þótt við eiga á hverjum stað. hér í bænum hefir fyrst og fremst verið agiterað með því, að benzínskatturinn kæmi aðallega niður í bifreiðarstjórunum, af því að hér eru svo margir bifreiðarstjórar, og er það vitanlega gert í þeim tilgangi að fá þá til að hefja verkfall. Jafnframt er agiterað austur í sveitum, meðal þeirra, sem þurfa að kaupa flutninga með bifreiðum, og þar er því aftur á móti haldið fram, að skatturinn komi eingöngu niður á þeim, með hækkun á flutningsgjöldum. Á þennan hitt þykir það hagkvæmast að æsa upp andstöðu gegn þessum, lögum, að fá hvorn þessara aðilja til að trúa því, að benzínskatturinn komi að öllu leyti niður á þann, sem við er talað í hvert sinn.

En ef þetta er rannsakað niður í kjölinn og ef málið er hugsað í sambandi við sögu bifreiðaflutninganna hér á landi, þá veit ég, að bifreiðastjórarnir hafa svo miklu þekkingu í akstri bifreiða eftir misjöfnum vegum, að þeir muni komast að þeirri niðurstöðu, að raunverulega muni það borga sig fyrir þá sjálfa að greiða þennan skatt af benzíninu, og skal ég færa þau rök fyrir því, sem hv. andstæðingar mega gjarnan hrekja, ef þeir treysta sér til þess.

Þessi till. er undirbúin af vegamálastjóra, eftir að hann var búinn að dvelja erlendis síðastl. sumar, í nágrannalöndunum, og kynna sér meðferð þessara mála þar. Það þarf enginn að láta sér detta í hug að halda því fram, að benzínskatturinn sé einskonar verndartollur fyrir járnbrautirnar í þeim löndum. Saga benzínskattsins á Norðurlöndum er allt of vel kunn til þess, að slíkri fullyrðingu verði trúað. Þar var benzínskatturinn hækkaður beinlínis í þeim tilgangi að gera ákveðnar vegabætur. Og má í því sambandi benda á það, að þegar Danir hækkuðu benzínskattinn hjá sér, þá var skattinum beinlínis varið til þess að byggja brúna yfir Litla-Belti. Í Svíþjóð og Noregi hefir honum verið varið á sama hátt, til vegagerða í tilteknum svæðum, sem hagkvæmast þykir að fá framgengt fyrir þetta fé. Og það eru einmitt þessi dæmi, sem vegamálastjóri hefir lagt til grundvallar og haft hliðsjón af til rökstuðnings þessari till., þegar hann lagði hana fram fyrir stjórnina. Það er vitanlega hin mesta firra, að erlendis séu vegirnir lagðir fyrst og fullgerðir, en svo sé benzínskatturinn lagður í að því loknu. Nei, vegirnir eru byggðir jafnóðum fyrir það fé, sem benzínskatturinn gefur; þannig er það alstaðar í Norðurlöndum og þannig í það líka að verða hér.

Ég hefi ekki fylgzt svo stöðugt með umr. hér í d. í dag, að ég viti, hvort getið hefir verið um, hvata skattur er á benzíninu í öðrum löndum álfunnar. En samkv. upplýsingum, sem skrifstofa vegamálastjóra hefir gefið og teknar eru eftir dönskum skýrslum í október s. l., er benzínskatturinn sem hér segir (með leyfi hæstv. forseta):

Í Ítalíu og Triest .......... 49,28 aur. pr. kg.

- Frakklandi ............... 47,20 - - -

- Þýzkalandi ............... 35,43 - - -

- Sviss ....................... 25,18 - - -

- Belgíu ...................... 29,51 - - -

- Englandi og Wales …16,43 - - -

- Noregi ..................... 11,27 - - -

- Danmörku ............... 13,00 - - -

- Svíþjóð .................... 11,68 - - -

Þannig mætti lengi halda áfram að telja. í Noregi er skatturinn lægstur, eða 11,27 aur. af kg.; en hér í landi er hann 4,8 aur. af kg., eða nálega 61/2 eyri lægri en í Noregi. (MJ: Þetta hefir allt verið lesið hér áður). Já, ég gat þess, að ég hefði ekki verið hér stöðugt við í d. í dag og ekki heyrt allt, sem komið hefði fram í umr. En ég hygg, að það veiti samt sem áður ekki af því að rifja þetta upp fyrir hv. andmælendum þessa máls. (PM: Vill ekki hæstv. ráðh. segja frá því hér í þd., hvaða land í álfunni muni vera sambærilegt við Ísland um vegagert og vegagæði?). Jú, ég kem nú einmitt að því. - Hv. 2. þm. Rang. sagði í ræðu sinni, að bifreiðarstjórar teldu, að benzíneyðslan væri þre- eða fjórföld hér á landi við það, sem tíðkast í öðrum löndum, þar sem vegirnir væru góðir, og margfalt meiri gúmmíeyðsla og slit á bifreiðum borið saman við það, sem gerist á góðum vegum erlendis. Þó að þessi ummæli hv. þm. séu máske nokkuð öfgakennd, þá var það einmitt þetta, sem ég átti við í upphafi ræðu minnar, þegar ég sagði, að það myndi raunverulega borga sig fyrir bifreiðarstjórana að greiða þennan benzínskatt til vegabóta í landinu. Það er alveg rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að við keyrslu bifreiða á vondum vegum fer ógrynni af fé forgörðum, borið saman við það, sem eyðst í góðum vegum, og þó skiptir það mestu máli, að hér eru bifreiðar oft liðaðar sundur á örstuttum tíma í ófært á vetrum. Bifreiðar endast yfirleitt langtum skemur hér en í nokkru öðu landi álfunnar. Það er einmitt þessi eyðsla, sem er margföld á við benzínskattinn. Það er þessi óhófseyðsla, sem benzínskatturinn í að draga úr og stöðvar, þar sem hver einasti eyrir af benzínskattinum á að ganga til þess að bæta vegina. Ein brýnasta þörf þjóðarinnar er að stöðva þá eyðslu, sem vondu vegirnir valda. Eða eigum við að láta þessa eyðslu, sem hv. þm. lýsti sjálfur með svo stórum orðum, halda áfram óhindraða? Eigum við ekki heldur að haga okkur eins og aðrar þjóðir gera í þessu efni, og fyrirbyggja hina ægilegu eyðslu á benzíni og gúmmíi og hið margfalda slit á bifreiðum? En í ýmsum tilfellum eru þær liðaðar sundur á fáum mánuðum, eins og hv. 2. þm. Rang. skýrði frá, þó að sú lýsing hans væri nokkuð ýkt. - Jú, það er engum vafa bundið, að við eigum að fara þá leið í þessu máli, eins og aðrar menningarþjóðir.

Samkv. þessu frv. á einmitt að verja mestum hluta af benzínskattinum í fjölförnustu vegina hér út frá Reykjavík. Það á að slétta og malbika veginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og veginn inn að Elliðaám. Þessir vegir eru að vísu ekkert tiltakanlega slæmir, en þó vita a. m. k. allir bílstjórar, hve miklu sliti þeir valda á gúmmíhjólbörðum, ekki sízt í þurrkatíð. Ég er sannfærður um, að viðhaldið á þessum vegum er svo dýrt, að það hlýtur tvímælalaust að borga sig að púkka þá vel og malbika eða steypa yfir. Það er þetta, sem vegamálastjóri hefir líka lagt áherzlu á, að gert yrði, og talið það hagkvæmast samkv. reynslu annara þjóða. - Um leið og byrjað verður á malbikun þjóðvegarins eitthvað inn fyrir Elliðaár, verður jafnframt hafizt handa um byggingu nýs vegar austur yfir Hellisheiði. En það er alkunnugt, að notkun bifreiða til vetrarflutninga á gamla veginum yfir Hellisheiði er sú versta meðferð á bílum, sem hér þekkist. Það er alveg ómælt kapital, sem þannig er kastað í sjóinn, þegar verið er að brjótast á bílum í ófærð yfir heiðina. Og ég hefði gaman af að heyra því andmælt, hvort sá kostnaður sé ekki til muna þyngri skattur á bifreiðarstjórunum en benzínskatturinn. Það er einmitt þetta, sem liggur til grundvallar fyrir benzínskattinum og er höfuðatriði málsins.

Nú á í fyrsta skipti að tryggja bifreiðarstjórunum og íbúum á Suðurlandsundirlendinu fullkomna vegabót austur yfir Hellisheiði, með lögbundinni ákvörðun, en það er, eins og ég tók fram í upphafi, annað aðalatriðið, að skattinum verður nú varið til nauðsynlegustu vega, þannig að bílstjórar og notendur bifreiða fá hann aftur óskiptan.

Þeir hv. þm., sem nú mótmæla þessu frv., um hækkun benzínskattsins, hafa áður verið því fylgjandi á Alþingi, að benzínskattur væri hækkaður, án þess að tryggja bifreiðarstjórunum nokkrar vegabætur í staðinn. - Nei, því ófullkomnari og verri sem vegirnir eru, því meiri þörf er á því að hækka benzínskattinn. Það er einmitt lýsingin á því, hversu vegirnir eru vondir hér á landi, og hin ógurlega eyðsla, er slíkir vegir valda bifreiðareigendum, sem mælir bezt með því, að skattur sé lagður á benzínið til að bæta vegina. Þetta eru sterkustu rökin fyrir benzínskattinum, hvort heldur er hér á landi eða annarsstaðar.

Það mætti auðvitað reikna nákvæmlega út, hvað hjólbarðaslit, benzíneyðsla og bifreiðarskemmdir á vondum vegum nema miklu meira tjóni og tilkostnaði fyrir bifreiðaeigendur en benzínskatturinn. En það verð ég að segja, að ég óttast ekki niðurstöðuna á þeim samanburði.

Ég skal svo ekki fara miklu lengra út í þetta mál. En það var verið að minnast hér í umr. á verkfall, sem stæði fyrir dyrum. Mér er óhætt að segja, að ég veit svo mikið um það mál, að ég staðhæfi, að það er verið að leika hér í bænum sama leikinn gagnvart þessu máli og beitt hefir verið gegn sumum öðrum málum, sem vissum klíkum í bænum hefir verið meinilla við, - það er verið að tefla bilstjórunum fram til verkfalls í pólitískum tilgangi. En þeir, sem á bak við þá standa, vilja ekki sjálfir bera pólitíska ábyrgð á þessu verkfalli. Ég staðhæfi, að þeir, sem knýja fastast á í þessu máli, eru aðrir menn en bifreiðastjórarnir sjálfir. (MJ: Þetta eru rakalaus ósannindi). Ég skal færa fram fullar sannanir fyrir þessu síðar, og hv. þm. mun þá þykja nóg um. Þetta er alveg nákvæmlega sami leikurinn og reynt var að fá bændur til að hefja gegn mjólkurlögunum í fyrravetur og húsmæðrunum hér í bænum var beitt fyrir, þegar bændur fengust ekki til þess. Ég á við mjólkurverkfallið.

Hverjir stóðu á bak við konurnar í því verkfalli? Þeir, sem að því stóðu, ætla nú að beita bifreiðarstjórunum fyrir verkfalli, sem vitanlega veldur þeim sjálfum atvinnumissi og fjárhagslegu tapi. Annað geta þeir ekki upp úr því haft. En ef til vill geta einhverjir hv. þdm. borið vitni um það, hverjir standa að þessu verkfalli og hvort það verður eingöngu hafið fyrir bifreiðarstjórana.