20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. hefir þótt það vel vita eigandi að flytja þessa löngu ræðu eftir að við hv. 1. þm. Reykv. vorum báðir dauðir í þessum umr. (Forsrh.: Ég skal biðja hæstv. forseta að veita hv. þm. fullan ræðutíma). Ég mun því stikla á stóru og drepa aðeins á höfuðatriðin. Hæstv. forsrh. sagði, að nú væri það í fyrsta sinn ákveðið með lögum, að benzínskattinum skyldi varið til sérstakra vegalagninga. En þetta er ekki rétt; í lögum frá 1932 er það lögbundið, að 20% af bifreiðaskattinum skuli varið til malbikunar á þjóðvegaköflum.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði ekki verið tiltekið í lögum áður, hvaða vegir yrðu lagðir fyrir þennan skatt; en það skiptir ekki miklu máli. Ég hefi áður bent á það í þessum umr., að við hefðum enga tryggingu í höndum fyrir því, að þessum lagaákvæðum um ráðstöfun á benzínskattinum yrði ekki breytt þegar á næsta þingi og þær tekjur látnar renna í hið venjulega sukk stjórnarinnar, sem mikið af tekjum ríkissjóðs hverfur í.

Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að veifa þeim fullyrðingum, að þetta fé verði allt notað til vegalagninga; hann getur ekki komið mönnum til að trúa því. Þetta var líka sagt á Alþingi 1932, en þau loforð voru svikin. - Það getur hugsazt að benzínskattinum verði varið til einhverra vegabóta fyrsta árið, en hvort það verður lengur, getur enginn sagt neitt ábyggilega um, og yfirlýsingum hæstv. stj. er ekki hægt að treysta í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. sagði, að við héldum því fram hér í bænum, að benzínskatturinn kæmi eingöngu niður á bifreiðarstjórunum, en í öðru orðinu heldum við því fram austur í sveitum, að skatturinn kæmi verst niður á bændum, sem þyrftu að kaupa flutninga með bifreiðum. Við höfum nú ekki haft tækifæri til þess að tala þar við bændur síðan þessi till. kom fram á þinginu. Hér kemur fram sama skilningsleysið og í öllum öðrum skattamálaflutningi stj. Hæstv. ráðh. virðist ætla, að benzínskatturinn geti ekki komið niður nema á öðrum þessara aðilja. En þetta er hinn mesti misskilningur. Vitanlega kemur benzínskatturinn niður á báðum aðilum, eða öllum sem nota benzín, alveg eins og skattar á sjávarútveginum koma jafnt niður í útgerðarmenn og sjómenn.

- Hér er því hvorki um villukenningar né blekkingar á ræða, þó að svona hefði verið skýrt frá því, hvernig benzínskatturinn verkar. En hæstv. ráðh. spinnur þetta allt saman upp, það eru tilefnislausar getgátur, sem hann varpar hér fram út í loftið. (Forsrh.: Hvernig var agitationin í Nd.?). Ég hefi hvergi heyrt þetta nefnt eða orðið var við neina agitation í þessa átt.

Svo var hæstv. forsrh. að skjóta sér á bak við vegamálastjóra í þessu máli. Það er nú í rauninni ekkert óeðlilegt, þó að vegamálastjóri hafi áhuga fyrir því að fá sem mest fé til þess að fullkomna vegakerfið í landinu. En það er ekki vegamálastjóri, heldur ríkisstj„ sem á að sjá um það, að þjóðinni sé ekki íþyngt um of, eða öllu heldur ofboðið með sköttum og álögum.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé hin mesta firra, sem við höfum haldið fram, að í öðrum löndum hafi verið komnir fullkomnustu bílvegir áður en þar var lagður skattur á benzínið. Þetta er vitanlega reginfjarstæða hjá hæstv. ráðh. Hvar áttu bílarnir að ganga, ef engir vegir hefðu verið til fyrir þá! - Sannleikurinn er sá, að í öllum nágrannalöndum okkar var komið ágætt vegakerfi fyrir bifreiðar, áður en farið var að leggja skatt á benzínið; en síðan hefir benzínskatturinn verið notaður til þess að færa út og stækka vegakerfið. En hvernig eru svo vegirnir hér á landi, sem okkar bílar eru keyrðir á? Hér eru að vísu nokkrir vegir sæmilega góðir, en mikill hluti vegakerfisins er lélegt, og mjög víða eru aðeins ruddir vegir, illa lagðir og grýttir, enda slita þeir bílunum á skömmum tíma. Nei, hæstv. ráðh. getur ekki talið neinum trú um það, að fyrst eigi að leggja þennan ógurlega skatt á benzínið, og svo eigi að nota þá peninga í vegi, sem hægt sé að láta bílana ganga á. Þá er sannarlega byrjað á öfugum enda. - Hann las hér upp lista yfir benzínskattinn í ýmsum löndum, og mun það vera í þriðja sinn, sem það er lesið hér í d. í dag. Ég skaut því þá fram í ræðu hans, hvaða land hann teldi sambærilegt við Ísland um vegakerfi fyrir bifreiðar; hann sagðist ætla að koma að því seinna, en gleymdi svo alveg að nefna nokkurt dæmi til samanburðar í því efni. Og meðan hæstv. ráðh. getur ekki bent á það land, sem hefir hærri benzínskatt, en jafnlélegt vegakerfi fyrir bíla, og við Íslendingar, þá er þessi samanburður hans á benzínskattinum hér og í öðrum löndum ekkert annað en hrein blekking. - Hæstv. ráðh. játaði, að það væri rétt, að það væri kostnaðarsamara að keyra bifreiðar hér á landi en annarstaðar, en sagði jafnframt, að það væru einmitt höfuðröksemdirnar fyrir því, að nauðsynlegt væri að hækka benzínskattinn. Ég held því aftur á móti fram, að fyrst eigi að leggja bílvegina, og þegar þeir eru orðnir sæmilega færir, þá er þó forsvaranlegra að hækka benzínskattinn. Annars væri þessi kenning hæstv. ráðh. nokkuð einkennileg, ef framfylgja ætti henni á öðrum sviðum. Ef það ætti t. d. á taka bryggju- og hafnargjöld af skipum, áður en búið væri að reisa bryggjurnar og gera hafnarbætur. Mér er ekki kunnugt um annað en að fyrst hafi verið reynt að klöngra upp einhverjum bryggjum, og þegar þær voru komnar, þá var hægt að innheimta bryggjugjöldin.

Ég fæ ekki skilið, hvernig hægt er að réttlæta það, að bifreiðarnar skuli ekki mega sæta sömu kjörum í þessu efni eins og t. d. skipin. Farartækin verða þó að fá eitthvað í aðra hönd, og bílarnir engu síður en skipin, áður en lagður er á þá þungur skattur til vegagerða í landinu, skattur, sem eigendur og notendur bifreiðanna geta alls ekki risið undir.

Ég ætla ekki að svara fjarstæðum hæstv. ráðh. út af hinu væntanlega bilstjóraverkfalli, mér er alveg ókunnugt um það, enda hefi ég ekkert um það heyrt, annað en það, sem fram kemur í bréfi því, sem stjórnir bílstjórafélaganna í Rvík hafa sent Alþingi og hv. 1. þm. Reykv. minntist á. Hæstv. ráðh. var eitthvað að dylgja um pólitískan undirróður á bak við kröfur bílstjóranna. Ég hygg, að það sé ekkert annað en tilhæfulaust fleipur. Ég held, að þar sé ekki öðrum til að dreifa en bílstjórunum sjálfum. Enda býst ég við, að þeim sé það sjálfum fullljóst, að það eru engin kostakjör, sem þeir hafa átt við að búa, og að þeir telji sig ekki ofhaldna af þeim, þó að benzínskatturinn sé ekki hækkaður frá því, sem hann er nú. Þeir þurfa því áreiðanlega engan áróður frá öðrum til þess að mótmæla benzínskattinum.

En hæstv. forsrh. lét sér sæma í þessu sambandi að minnast á annað verkfall, hið svo nefnda mjólkurverkfall, sem stofnað hefði verið til hér í bænum í fyrravetur. Ég held honum hefði verið sæmra að minnast ekki á þá óstjórn á mjólkurmálunum, sem hann hefir allra manna mest átt sök á og hafði þær afleiðingar, að fjöldi af borgurum þessa bæjar var neyddur út í þetta verkfall. (JJ: Hvað höfðu þeir upp úr því annað en skömm og skaða?). Þeir höfðu það upp úr því, á mjólkurmálin eru nú smámsaman að færast í betra horf en verið hefir á þessu ári. Svo að það er nú nokkur von til þess, að málið leysist, ráðherranum að þakkarlausu. (Atvmrh.: Það er gott, ef mjólkurmálin eru komin í það lag, sem hv. þm. er ánægður með). Já, það færist vonandi í það horf. En hæstv. atvmrh. ætti ekki heldur að minnast á þetta mál, sem hann sjálfur og Alþfl. hefir haft að féþúfu.