04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (2917)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég get að sumu leyti þakkað hv. 1. þm. Reykv. fyrir undirtektir hans undir þetta mál, því að rauði þráðurinn í gegnum ræðu hans var í raun og veru sá, að loftskeytin væru betri og öruggari til hjálpar sjófarendum en talskeytin. En svo komst hann í mótsetningu við sjálfan sig, því að hann vildi rifa þetta niður með þessum orðum: Við höfum ekki efni á að láta þetta í té, en ég er ekki á móti því, að öryggið sé sem mest.“ Hann tók dæmi um að auka mætti öryggið með því, að enginn færi út á sjóinn á Minna en 3000 smál. skipi. Ég get nú frætt hv. þm. um það, að Ægir hefir líka getað ráðið við stóru skipin (MJ: Og það, þó að þau hafi haft loftskeytatæki!), þegar litlu skipin hafa getað flotið ofan á. (MJ: Loftskeytalaus!). Það vill svo til, að allur okkar skipastóll er undir 3000 smálestum, og það er einungis af því, að þessi hv. þm. hefir svo litla þekkingu á sjómennsku, að hann slær öðru eins og þessu fram.

Hann segir, að það sé farið að hlusta eftir loftskeytum skipa, en það er aðeins lítinn tíma sólarhringsins, og þá á þeirri bylgjulengd, sem loft skeytastöðvarnar taka ekki, nema þær séu þá sérstaklega útbúnar með talútbúnaði. En á þeirri bylgjulengd er ekki hlustað á skipum, sem hafa loft skeytastöðvar. Sú almenna bylgjulengd er 600 m. fyrir loft skeytastöðvar, en fyrir talstöðvar 182 metra.

Um afkomumöguleika íslenzkrar útgerðar hygg ég, að hann taki helzt til fullan munninn. Má vera, að hann sé þeim málum svo kunnugur, að hann geti fullyrt, að útgerð flutningaskipanna sýni tap, en það bendir þó ekki á tap, að nú hefir verið keypt hvert skipið af öðru, því að venjulega mun það vera svo, að menn gera ekki mikið að því að ráðast í samskonar fyrirtæki og þau, sem aðrir skaðast á. Þetta sýnir einmitt það, að þessi útgerð muni bera sig, og það tel ég gleðilegt, því að þá er það sýnt, að okkar stórútgerð á tilverurétt. Annars þýðir ekki að vera að þræta frekar um þetta, en það þarf enginn að hugsa, að þessi kostnaður setji útgerðina um koll. (MJ: Ég minntist líka á það). Og svo kemur fleira og fleira til kostnaðar, segir hann. En eins og ég hefi bent á, þá hafa verið settar loftskeytastöðvar í alla íslenzka togara, og enginn hefir talað um að taka þær burt aftur eða að af þeim stafaði óbærilegur kostnaður.

Það mun vera rétt, að fragtin er venjulega greidd í sterlingspundum. En það er nú svo, að það hefir sýnt sig, að útgerðin hefir gengið betur hjá einni þjóð en annari. Ég get bent hv. þm. á það sem dæmi, að danska útgerðin er yfirleitt rekin með hagnaði, og þó er það vitanlegt, að Danir búa ekki verr að sínum sjómönnum en aðrar Norðurlandaþjóðir. Ég hygg, að það sé með Norðmenn eins og aðra, að sumir græði, en aðrir ekki, því að skipin ganga þar kaupum og sölum og félög hafa orðið þar gjaldþrota, sent slík skip hafa rekið. Þá kom hann að því, að nú liggi við, að þessi skip verði seld úr landi, af því að stjórnarflokkarnir hafi komið því svo fyrir með fiskinn, að þau hafi ekki nóg að gera. Ég veit ekki til, að þessum skipum hafi verið bægt frá fiskflutningum, nema síður sé, og þær takmarkanir, sem nú eru á útflutningi á íslenzkum fiski, eru ekki af völdum íslenzkra stjórnarvalda. Þar eru önnur öfl að verki. (MJ: Þetta er tómur misskilningur). Og nú eiga menn um það að velja, að útbúa skipin með öllum þeim björgunartækjum, sem hægt er, eða að hafa allt eins og það er nú. Ég veit ekki, hvort hv. þm. leggur svo mikið upp úr því, að það sé ef til vill fyrir þetta umtal, að í eitt skipið er nú verði að setja loftskeytatæki, svo að ekki álíta þeir, sem þar standa á bak við, að þetta sé ókleifur kostnaður.

Það, sem við flm. þessa frv. viljum, er það að skylda öll skipin til að hafa slík tæki, því að í þessu er svo mikið öryggi fyrir mannslífin.

Ég sé svo ekki ástæðu til að svara hv. þm. fleiri orðum, enda mun ég vera búinn með ræðutíma minn í þessu máli nú.