04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (2919)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Jón Á. Jónsson [óyfirl.]:

Hv. flm. segir, að 4000 kr. árlega geti ekki riðið að fullu útgerð eins og þessari. Ég get frætt hann um það, að það þykir góð afkoma í Noregi nú, að hafa 4000 kr. afgang af slíkri útgerð sent hér um ræðir. Það er undarlegt, þegar við eigum nú í svo harðri samkeppni um flutningana við Norðmenn, að vilja bæta ofan á það háa kaupgjald öðrum kostnaði, sem Norðmenn komast hjá. Það eru engin rök í þessu máli, þó að hv. þm. segi, að norskir sjómenn beri meira úr býtum en íslenzkir, vegna þess að þar sé minni dýrtíð en hér. En við fáum ekki fragtina í hlutfalli við kaupgjaldið á skipunum. (SÁÓ: Við fáum fleiri krónur fyrir pundið en þeir). En kaupið á okkar skipum er hærra en á þeim norsku, og fragtin er sú sama, hvað sem kaupgjaldinu líður.

Hann talar um öryggið á sjónum. Það er undarlegt, að hann sem flm. skuli ekki eins vilja veita sama öryggið 12 manna áhöfn á 200 tonna skips. Nú lítur út fyrir, að línuveiðarar og kannske líka mótorbátar fari að fara á milli landa með ísfisk, vegna þess að togararnir eru alltof dýr skip til slíkra ferða. Ég ímynda mér, að hann hafi ekki komið með till. um að skylda slík skip til að hafa loftskeytatæki, af því að hann hafi ekki treyst sér til að leggja þann kostnað á útgerðina, en á þann kostnað vill hann ekki líta, þegar um stærri flutningaskip er að ræða. Það er erfitt að deila um það, hverjir hafi hag af sinni útgerð, en hann ætti þó að vita, að um langan tíma hefir 30% af danska flotanum legið í höfn, allt þangað til í október í haust. (SÁÓ: 19 skip). Helzt hefir verið hagnaður af að sigla oversöiskt, sem kallað er, sigla með stór skip, um 12000 tonn, á milli heimsálfanna eins og Östasiatiska oft hefir gert. Hinsvegar eru ekki færri en 4 útgerðarfélög, sem farið hafa um koll á síðari árum, sem átt hafa 16 skip.