10.12.1935
Sameinað þing: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

1. mál, fjárlög 1936

Jón Auðunn Jónsson:

Út af brtt. XIX. á þskj. 727, sem hv. þm. A.-Sk. sagði, að hv. fjvn. væri á móti, með þeirri mótiveringu, að allir slíkir styrkir ættu að falla niður, vegna þess að nú væri fyrir þinginu frv. til alþýðutrygginga, sem sennilega yrði samþ. á þessu þingi, vil ég benda á það, að samkv. frv. er ekki skylt að sett verði á stofn sjúkratrygging í sveitum, og þess vegna er engan veginn víst, að það verði gert, enda tel ég það hreint ekki líklegt eins og nú standa sakir, og erfitt er fyrir einstaklinga að taka á sig ný útgjöld, vegna hinna rýru tekna, sem almenningur hefir. Þess vegna snertir það ekki þá sjóði, sem hér er um að ræða, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki, og þörf sjóðanna fyrir styrk er jöfn eftir sem áður. Að öðru leyti skal ég ekki lengja umr., en út af öðrum brtt. mínum á sama þskj. vil ég taka það fram, að ég tel það sannast að segja engan vansa vera á tímum eins og nú eru, þó fram komi brtt. um lækkun styrkja til skálda og listamanna, þegar lagt er til, að fénu sé varið til hjálpar sjúkum og bágstöddum.