30.10.1935
Efri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Það má nú kannske segja, að mál þetta sé orðið nokkuð rætt og ekki komi úr þessu neitt nýtt fram. Enda mátti líka segja það um þessa ræðu hv. frsm. minni hl., að ekki hafi komið neitt nýtt fram í henni. En mér finnst sá hv. þm. blanda inn í þetta mál öðru máli, sem ekki liggur fyrir nú, þ. e. hvort talstöðvar eigi að hafa í fiskibátum eða ekki. Það mál liggur ekki fyrir til umr. nú. Við erum hér að ræða um skipin, sem sigla um úthöfin og engin önnur. (JAJ: Ó-jú). Jú, að vísu, að nokkru leyti snertir það fiskiskipin. En það er ekkert verið að tala um, hvort eigi að lögbjóða talstöðvar í fiskibátum. Ég býst við, að þróunin í þeim efnum sé svo mikil, að ekki þurfi að lögbjóða slíkt. Það telja allir sjálfsagt, að talstöðvar séu í fiskibátunum hér við landið. Ég sé ekki ástæðu til að blanda því máli inn í umr. um þetta frv. En hitt stendur enn óhrakið að fyrir skip, sem sigla um úthöfin, er ekki nærri eins mikið öryggi í að hafa talstöðvar eins og loftskeytastöðvar. Brtt. hv. minni hl. sjútvn. á síðasta þingi náði ekki lengra en að lögbjóða skyldi talstöðvar í skipum, sem eru í flutningum á milli landa, einmitt af þeirri stærð, sem frv. okkar fjallar um. Hann fór þá ekki fram á að lögbjóða talstöðvar í sambandi við fiskibátana.

Hann segir nú, að það, sem þurfi að gera, sé að koma upp einni og fullkominni talstöð. Ég mótmæli því ekki. En það liggur bara ekki hér fyrir nú. Ég best við, að það sé rétt hjá þessum hv. þm., að slík kallstöð sé nauðsynleg. En hún nær ekki skeytum langt utan af hafi frá þeim Skipum, sem um ræðir í frv. En loftskeytastöðvar geta flutt skeyti um miklu lengri vegalengdir en talstöðvar. Allt þetta skraf hv. þm. um fiskibátana leiði ég alveg hjá mér vegna þess, sem ég hefi lýst yfir. Um það býst ég við, á við deilum ekki, að það þurfi að veita þeim það öryggi, sem frekast er hægt.

Um hljóðdýptarmælinn tel ég óþarft að rökræða meira. Ég held því fram, að við megum ekki treysta hljóðdýptarmælinum eins fullkomlega og hv. þm vill, að gert sé, þrátt fyrir alla kosti þess tækis. Þessi hv. Inn. vill segja, að þau sorglegu slys, sem talin eru upp í fskj. frv., hefðu ekki komið fyrir, ef viðkomandi skip hefðu haft hljóðdýptarmæli. Þetta er ekki hægt að fullyrða. Við höfum dæmi um, að skip með hljóðdýptarmæli hefir siglt á grynningar og rekizt á. Það var togarinn Vorboði. Hitt skal ég ekki pexa um, í hvaða tilfellum hljóðdýptarmælirinn er öruggur og í hvaða tilfellum ekki. Það er verk sérfræðinga að dæma um það. En ég hefi það eftir mjög glöggum og greindum mönnum, að þegar virkilega er vont veður, megi menn með allri varasemi treysta hans mælingu. Hitt er rétt, sem hv. þm. lýsti, að í öllu skaplegu veðri reikna menn út dýpt eftir honum eins og við leggjum mælisnúru hér eftir sléttu gólfinu og getum sagt, hvernig hún liggur.

Aðalþungamiðjan í röksemdum hv. frsm. minni hl. er kostnaðarhlið þessa máls. Hv. þm. vill ekki leggja þessa byrði á þá, sem gera út þessi skip. Eins og kunnugt er, þá eru öll fólksflutningsskip hér skyld til þess. Og togararnir okkar hafa ef til vill verið brautryðjendur á þessu sviði. Það má segja þeim til lofs. Ég heyri ekki annað en að allir viðurkenni þörf loftskeyta á þeim, og það með þakklæti fyrir þær ráðstafanir. En hvers vegna voru settar loftskeytastöðvar í togarana? Sjálfsagt vegna atvinnunnar, en vafalaust einnig til öryggis fyrir sjómenn. Þeir hafa fyrst og fremst haft í huga, að þessu fylgdi aukið öryggi. Því má þá ekki leggja þá fjárhagslegu kvöð, sem þessir menn hafa tekið á sig af sjálfsdáðum, á hina, sem enn hafa ekki lagt í kostnað til að tryggja öryggi skipa og skipshafna á þennan hátt? Um ameríkumenn er það að segja, á þeir eru yngri en við í togaraútgerðinni, en eru nú óðum að átta sig á því, hvílíkt öryggi er fólgið í sem fullkomnustum loft skeytaútbúnaði.

Þá bar hv. þm. okkur saman við Norðmenn í þessum efnum, eins og löngum hefir verið gert, þegar rætt hefir verið um aukið öryggi. Samkv. alþjóðalögum eru öll farþegaskip og öll skip önnur, sem eru meira en 1600 smálestir, skyld að hafa loft skeytatæki. Þótt ég geti ekki fullyrt það er því líklegt, að Norðmenn brjóti alþjóðareglur með því að hafa ekki sérstakan loftskeytamann á flutningaskipum sínum. annars skal ég ekki fara að ræða hér útgerð Norðmanna; til þess er ég þeim málum ekki nógu kunnugur.

Það má vel vera, að nú sem stendur steðji einhverjar þrengingar að flutningaflotanum. En þegar sú öryggiskrafa, sem hér ræðir um, er borin saman við ýmsar aðrar kvaðir, sem lagðar eru á útgerðarmenn til öryggis, og kröfur þær, sem lögin gera til þeirra um ástand skipa, kemur í ljós, að hún er svo smávægileg, að hún getur engum úrslitum ráðið um afkomu útgerðarinnar. Auk þess hafa verið færðar líkur fyrir því, að loftskeyti á flutningaskipum vorum myndu fljótlega borga sig vegna þess, hve miklu greiðara útgerðinni yrði að halda sambandi við skipin eftir en áður og gefa fyrirskipanir.

Ég veit líka dæmi til þess, að skip, sem átti að fara austur á firði, sneri aftur frá Eyrarbakka til Reykjavíkur vegna þess eins, að það vantaði loftskeytatæki. Skyldu nokkrir slíkir krókar ekki kosta eins mikið og loftskeytatæki með viðunanlegri starfrækslu?

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að ég hefði ýmist viljað taka útlendinga til fyrirmyndar í þessum efnum eða þá alls ekki taka mark á þeim. Ég benti á það, að Norðmenn, sem hv. þm. vitnaði stöðugt í, væri skemmst komnir að þessu leyti í öryggismálunum. Þó eykst áhugi norskra farmanna á því, að úr þessu verði bætt, með ári hverju, enda eru það nú aðeins hin gömlu skip Norðmanna, sem vantar loftskeytaútbúnað, en þessi skip eru nú óðum að detta úr sögunni.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að frv. væri borið fram í þeim tilgangi að skapa loftskeytamönnum atvinnu, vegna þess að í frv. er talað um „fullkomlega starfrækta loftskeytastöð“. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að stöð geti verið fullstarfrækt, þótt einhver annar, t. d. stýrimaður, gæti hennar. En annars sé ég ekkert á móti því, að loftskeytamenn fái atvinnu á þessum skipum, ef þá vantar hana. Það yrði þá þeim atvinnuleysingjunum færra í landinu.

Ég mun láta þetta nægja, enda kom fátt nýtt fram hjá minni hl. Ég vænti þess, að hv. þdm. geri það upp við samvizku sína, hvaða afstöðu þeir eigi að taka til þessa mikla öryggismáls sjómannanna.