30.10.1935
Efri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (2926)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Frsm. minni hl. (Jón Á. Jónsson) [óyfirl.]:

Það er nú dálítið erfitt að tala við hv. frsm. meiri hl., þar sem hann vill ekki standa við ákvæði frv. Hann telur það „fullkomna starfrækslu“, að stýrimaður annist stöðina. En með orðunum „fullkomin starfræksla“ er auðvitað átt við það, að stöðin sé starfrækt af manni, sem hefir lokið prófi og hefir full réttindi. Álit hv. frsm. meiri hl. kemur ekki málinu við, því að það er gagnstætt því, sem tekið er fram í frv.

Hv. þm. gat þess máli sínu til stuðnings, að skip með hljóðdýptarmæli hefði strandað. En auðvitað gildir alveg hið sama um hljóðdýptarmæli, loftskeytastöð og flotbelti, þegar svo stendur á, allt saman er gagnslaust, ef það er ekki notað.

Hv. þm. sagði, að útgerðarmönnum væru lagðar miklar kvaðir á herðar um viðhald skipa með lögum. Slíkar kvaðir eru allsstaðar viðurkenndar og eru ekki meiri né kostnaðarsamari hér en annarsstaðar, nema hvað viðgerðir skipa kunna að vera dýrari.

Þó að það hafi einu sinni komið fyrir, að flutningaskip hafi orðið að sigla frá Eyrarbakka til Reykjavíkur, þá eru það langsótt rök, sem varla verður mikið byggt á. (SÁÓ: Aðeins eitt. dæmi af mörgum.) Það gat nú líka verið, að talstöð hefði dugað í því tilfelli.

Um nauðsyn loftskeyta á togurum er það að segja, að þar fer saman hagnaður og öryggi við það að hafa loftskeytatæki, og er það auðvitað öllum góðum mönnum gleðiefni, að hvorttveggja geti farið saman. 5-6 og upp í 9 togarar hafa samband sín á milli og láta hver annan vita, hvort svari kostnaði að færa sig. Loftskeytin á þessum skipum reyndust því vera til stórkostlegs hagnaðar.

En ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að Alþingi vilji verða til þess að auka atvinnuleysi í landinu með því að knýja útgerðarmenn flutningaskipanna, sem þegar eru komnir á heljarþröm fjárhagslegra örðugleika, til þess að flýta sölunni vegna þessarar löggjafar.