10.12.1935
Sameinað þing: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

1. mál, fjárlög 1936

Ólafur Thors:

Ég á brtt. við fjárlfrv. á þskj. 741, sem ég hefi árlega flutt hér á hv. Alþingi, um að veitt verði til þess að setja upp hljóð- og ljósdufl við Sandgerðissund 5000 kr., sem verði fyrsta greiðsla af fjórum. Af því ég hefi flutt þessa brtt. þína eftir þing, ætla ég, að hún sé hv. þm. nægilega kunn. Ég þarf þess vegna ekki að ræða hana, en læt aðeins nægja að minna á það, að þarna er ákaflega örðug siglingaleið, sérstaklega í skammdeginu. Eins og ég hefi áður sagt, þá er það meira fyrir heppni en forsjá, að ekki hafa hlotist þarna stórslys fyrir það, að þarna hefir ekki enn verið sett hljóð- og ljósdufl. Þetta er náttúrlega fyrst og fremst mál þeirra, er veiði stunda út af þessum stöðvum, en á það er að líta, að þetta er nú orðinn einn af stærstu útgerðarstöðum á Reykjanesi, sem þarna á hlut að máli, en auk þess snertir þetta alla þá sjómenn, sem leggja leið sína fyrir Reykjanes, og þessi hluti leiðarinnar er sá hluti bennar, sem langhættulegustur er. Ég veit, að hv. þm. bera hlýjan hug til sjómanna þeirra, sem þarna eiga hlut að máli, og af því þeir sjá einnig og skilja þörfina, þá vona ég, að þeir sýni þess vott við atkvgr. um þessa brtt. Þetta mál hefir legið til athugunar hjá vitamálastjóra. og hefir hann sent um það umsögn, þar sem hann kemst m. a. svo að orði: „Um nauðsynina tel ég engan vafa,“' og er ekki hægt að kveða sterkara að orði um nauðsyn þessa máls. Málið hefir einnig legið til umsagnar hjá sjútvn. Nd., og hefir n. orðið á einu máli um að senda velviljuð ummæli til fyrirgreiðslu málsins til fjvn. vænti eg, að þeir hv. þm. úr stjórnarflokknum, sem undir það bréf hafa skrifað, standi við þá skoðun, sem þar kemur fram, og einnig vænti ég þess, að aðrir í stjórnarliðinu sjái ekki ástæðu til að láta flokksagann meina þeim að samþ. þessa tiltölulega meinlausu og nauðsynlegu till. — Ég held ég þurfi þá ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, og ég ætla ekki heldur við þessa umr. að tala um fjárl. almennt. Ég get þá gert það, ef mér sýnist svo, við 3. umr.

Ég hefi enga tilhneigingu né manndóm til þess að blanda mér inn í þá heitu deilu, sem risin er út af Halldóri Kiljan Laxness. Ég verð að játa, að á mig hefðu runnið tvær grímur, ef ég hefði ekki verið svo lánsamur að heyra hin snjöllu meðmæli hv. þm. A.-Sk. fyrir þessum manni, sem hann er að berjast fyrir. Án þess að ég mæli á nokkurn hátt með því að auka útgjöld ríkisins, þá mundi ég aldrei beita mér á móti því, að svo skáldlegur maður fengi þó ekki væri nema 200–300 kr. skáldastyrk, ef honum þætti það nokkurs virði. Alþ. hefir aldrei staðið í þeim sporum að veita þm. styrk fyrir skáldlega ræðu, en í hinum sporunum hefir það staðið. Og mér rann til hjarta, þegar ég heyrði hv. þm. segja frá því, áður hefði það verið séra Jón á Stafafelli, sem varði Þorstein Erlingsson, en nú er það hann, sem ver Halldór Kiljan Laxness. Það eru sömu sporin, — hann stendur í sporum séra Jóns og Halldór Kiljan Laxness í sporum Þorsteins Erlingssonar. Það er sem sagt hver röðin á fætur annari, skáldið, ræðumaðurinn, ræðumaðurinn og skáldið, allt á sömu bókina lært. Ég held sem sagt, að ef ég hefði verið í mjög miklum vafa um þessa till., Þá hefði þetta riðið baggamuninn hjá mér, svo snjöll var vörnin og málstaðnum samboðin. Og ég verð að játa, að þó mér sé jafnan mikil ánægja að því að heyra þennan hv. þm. tala, þá hefi ég sjaldan notið betur hans skáldlegu ræðu heldur en einmitt núna. Mér finnst það ekki nema sanngjarn vottur minnar virðingar á þessum snjalla málflutningi, að ég hallist frekar á sveifina með honum heldur en með flokksbróðir mínum, hv. Þm. Ak. En ég tek það skýrt fram, að ef ég geri það, þá er það fyrst og fremst hinum snjalla málflutningi að þakka.