18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Frsm. 2. minni hl. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Það er örlítil breyting, sem þarf að gera á þessu frv. Við 2. umr. málsins var farið fram á það við okkur hv. þm. Vestm., á við tækjum aftur til 3. umr. brtt., sem við fluttum við 3. gr. frv. Þegar við fórum að athuga frv. nánar, þá álitum við, að þessi breyt. mætti niður falla, en jafnframt kom í ljós við þessa nýju athugun, að það er galli á 2. gr. frv., og kom landssímastjóra og eins forstöðumanni loftskeytastöðvarinnar það hálfvegis á óvart, að þessu var ekki breytt strax í hv. Ed. En 2. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Afl stöðvanna skal vera minnst 125 vött í loftneti á 600 metra öldulengd og fullnægja að öðru leyti ákvæðum um loftskeytastöðvar í skipum.“ Nú segir landssímastjóri og forstöðumaður loftskeytastöðvarinnar, að þessi styrkleiki nái engri átt, því að ekkert skip hafi meira en 75 vött, og togarar allir miklu minna afl. Og að af hinum nýrri stöðvum sé það aðeins ein, sem hafi 100 vött, en annars sé orkan minni eftir því, sem stöðvarnar eru yngri. Þeirra till. er því sú, að þetta sé í frv. 75 vött miðað við siglingu milli landa. Brtt. mín er skrifleg og hljóðar því þannig, að í staðinn fyrir 125 vott komi 75 vött og að á eftir orðunum „600 metra öldulengd“ komi: „í skipum, sem sigla milli landa“. Það þarf auðvitað ekki að gilda hið sama um skip, sem sigla hér við land.