20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vil aðeins benda enn á ný á það, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á, að útgerðarkostnaður er svo geipilega hár hjá okkur, að í kaupinu einu munar 22 þús. kr. á ári á vöruflutningaskipi hverju, samanborið við norsku skipin. Við eigum að keppa við þessi skip. Það er ekki hægt fyrir þá, sem þungavöru flytja, eins og fisk, að neita lægstu tilboðum. Flutningsgjald fyrir okkar fisk árlega er á aðra millj. króna. Tjáir því eigi annað en taka lægstu tilboðum, annars fá fiskimenn og sjómenn ekki upp borinn kostnað af fiskveiðunum. Með auknum kostnaði hlýtur svo að fara, að þessi vísir til útgerðar, sem hér er, leggist niður. Það er óhugsandi annað. Hitt er og alveg víst, að eins mikið öryggi fæst með talstöð sem loftskeytastöð. Talstöðvar eru fremur ódýrar að kaupa og í rekstri, þarf engan sérstakan mann. Fyrir tveimur dögum talaði ég við skip, sent var 20-30 mílur út af Boston, héðan frá talstöð í Rvík, auðvitað gegnum stöðina í Boston. Heyrðist eins vel og í talsíma hér innanbæjar. Enda er talið, að þessar stöðvar nái um 600 mílur til lands. Og framfarir á þessu sviði eru miklar. Mikið af þeim þýzku togurum, sem hér eru við land, hafa ekkert annað en talstöðvar og ná oft til Þýzkalands. Þess vegna er hin mesta fásinna að segja, að öryggi sé meira með loftskeytastöðvum. Fiskimönnum vorum þarf að veita meira öryggi. Það verður ekki betur gert en með talstöðvum og hlustunarstöðvum víða um landið og hafa varðstöð opna helzt allan sólarhringinn. Þar með veitum við þessum fjölmennasta hóp í sjómannastétt landsins bezt öryggi. Að því hefði þetta frv. átt að stefna, miklu fremur en að veita nokkrum mönnum atvinnu við loftskeytastarf. Það verður líka skammgóður vermir, ef haldið er áfram að hrúga kostnaði á þessa útgerð, sem allir vita, að er rekin með tapi, þó að kannske hafi komið fyrir hagnaður hjá félagi einstök ár við það, að skip þess hefir strandað. Ef við íþyngjum þessari útgerð, verða skipin að hætta og bankarnir vilja engan styrk veita. Atvinnuleysi sjómannanna blasir við.