23.10.1935
Neðri deild: 55. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (2959)

133. mál, framfærslulög

Flm. (Jónas Guðmundsson) [óyfirl.]:

Á síðasta þingi voru bornar fram hér í þessari hv. d., og að ég ætla líka í Ed., till. til breyt. á framfærslul. Stærsta frv., sem þá var borið fram á Alþ. um þetta mál, var frv., sem ég og hv. þm. Hafnf. fluttum þá. Það varð þá að lokum niðurstaða þess máls alls, að afgreiðslu á því var frestað. Um áramótin síðustu var skipuð 5 manna nefnd af hæstv. atvmrh., til þess að undirbúa löggjöf um almennar tryggingar og gera uppkast að nýjum framfærslul. Átti ég sæti í þessari n. ásamt hv. 1. þm. og skipti n. með sér störfum þannig, að við unnum að samningu þessa frv., sem hér liggur fyrir, en samnm. okkar unnu að samningu tryggingarlagafrv.

Skal ég þá fara um frv. nokkrum orðum, og þá helzt víkja að því, sem eru aðalbreyt. frá því, sem nú er.

Það eru ákaflega miklir örðugleikar á því að semja nýtt frv. til framfærslul. og taka tillit til allra breytinga á hugsunarhætti og högum þjóðarinnar í þessu efni, sem orð hafa síðan núgildandi framfærslulög voru sett. Og þetta er kannske allra erfiðast, þegar á að gera sér grein fyrir fjárhagnum í sambandi við þetta mál. Því að allar skýrslur, sem hægt er að fá um þetta mál, eru svo gamlar orðnar, að tæplega er unnt að byggja á þeim að öllu leyti, því að breytingar eru mjög miklar í þessu efni frá ári til árs. Þó höfum við reynt að afla þeirra skýrslna, sem mögulegt var að fá í þessu sambandi. Vil ég sérstaklega benda á skýrslur í grg. frv. uni skiptingu fátækraframfærslunnar 1933, sem samdar eru af hagstofunni. Má telja þá skýrslu ábyggilega heimild um, hvernig fátækraframfærslan skiptist niður á sveitar- og bæjarfélög. Vil ég mega vænta þess, að hv. þm. athugi gaumgæfilega þessa skýrslu og aðrar skýrslur, sem í grg. eru, því að þær gefa miklar bendingar um það, hvernig bezt mundi vera að haga þessum málum. Þessar upplýsingar, sem við höfum aflað og tillögur, sem fram hafa komið um málið, höfum við lagt til grundvallar við samningu þessa frv.

Um 1. kafla frv. er það segja, að í honum eru tillögur um mjög litlar breyt. frá núgildandi framfærslul. Það gat orkað tvímælis, hvort ætti að fara svipað að og í Danmörku, að afnema framfærslustyrk upp á við, eins og það er kallað, þ. e. að afnema lagalegu skyldu barna til að framfæra foreldra sína. Við leggjum ekki til, að því verði breytt. Við teljum það sjálfsagt, að hver, sem á gamla foreldra, en er svo efnum búinn, að hann getur séð fyrir þeim, geri það þá.

Ég vil benda á, að í 10. gr. þessa 1. kafla er gerð ein breyt., sem sest, hver er, með því að athuga skýringu á þeirri gr. í aths. á bls. 18. Í þessari 10. gr. er fráskildum og yfirgefnum konum veittur sami réttur og ógiftar mæður óskilgetinna barna hafa nú, samkv. gildandi l., til að krefja meðlaga með börnum sínum.

Um 11. gr. 1. kafla, 4. lið gr., vil ég benda á, að ekki eru enn til l. um iðnaðarnám, sem þar eru nefnd. En ég ætla, að fyrir þessari hv. d. liggi frv. til l. um iðnaðarnám, og höfum við gengið út frá því, að frv. um iðnaðarnám fylgdi þessu frv. gegn um þingið og yrði að l. jafnt þessu frv.

Í 2. kafla frv. felst aðalbreyt., sem gerð er með l. þessum, sem er að afnema sveitfesti. Þar er hverjum manni gert að verða framfærður þar, sem hann á lögheimili: Og um lögheimili höfum við ekki skilgreint á annan hátt en þann, að heimilissveit sé sá staður, þar sem maður á lögheimili, vegna þess, að á síðasta Alþ. var samþ. þáltill. um, að stj. undirbyggi l. um heimilisfang. Í þessum kafla er heimilissveit gert að vera framfærslusveit þeirra, sem eldri eru en 16 ára. Vitanlega er það svo um börn yngri en 16 ára, að þau fylgja foreldrum sínum, hvort sem þau eru skilgetin eða óskilgetin.

Um 3. kafla frv. er það sama að segja, að hann er nýr kafli og að kalla samhlj. frv. til l. um meðlög með börnum ekkna, sem lagt var fram á þinginu 1934. Þetta frv. er tekið upp í frv. til framfærslul. sem sérstakur kafli. Það tryggir ekkjum sama rétt og ógiftar mæður hafa nú.

4. kafli er líka nýr. Er hann um stjórn framfærslumála. við töldum, að með honum væri töluvert betra skipulagi komið á framfærslumálin heldur en nú á sér stað, þar sem hver hreppsnefnd eða bæjarstjórn hefir sinn sérstaka sið um meðferð þessara mála, en ekkert samræmi er ennþá í þessu. Hvað snertir Reykjavík í þessu efni, þá töldum við, að ekki væri fært að setja í framfærslulög ákvæði um þetta efni fyrir bæinn. En við ætlumst til, að fyrir Reykjavík verði slík ákvæði sett með sérstakri reglugerð af bæjarstjórn, eftir að framfærslunefnd í Reykjavík hefir gert till. um tilhögun þessara mála.

5. kafli þessa frv. svarar til 3. kafla í fátækral. Í 39. gr. þessa kafla eru tekin upp ákvæði um það, að heimilt sé að leggja framfærsluþurfum styrkinn á heimili þeirra í matvælum, fatnaði og öðrum nauðsynjum. Hingað til hafa ekki verið í l. skýr ákvæði um þetta atriði. Og sömuleiðis eru þar ákvæði um húsnæði þurfamanna.

6. kafli þessa frv. svarar til 4. kafla fátækralaganna. En hér eru felld niður ákvæði, sem þar voru, um það, að sveitarstjórnir skyldu ákveða um styrkþega, hver væri atvinnufær og hver væri atvinnufær. Er eðlilegt að fella þetta niður; þar sem það var sett til tryggingar kosningarrétti manna eftir gömlum l., en kosningarréttur manna, sem sveit þiggja, er nú tryggður með stjórnarskrárákvæði. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir miklum breyt. frá því, sem er í fátækral., í þessum kafla.

7. kafli frv. svarar til 5. kafla í núgildandi fátækral., en er miklu fyllri og ýtarlegri. Vil ég sérstaklega benda á 65.-67. gr., þar sem eru viðurlög við því, ef sveitarstjórnir eða aðrir reyna annaðhvort beint eða óbeint að koma þurfamanni af sér yfir á aðrar sveitir. Þessar gr. er nauðsynlegt að athuga mjög gaumgæfilega, hvort þær megi betur fara. Legg ég það undir dóm hæstv. Alþ.

8. kafli frv., um jöfnun framfærslukostnaðar, er nýr, þ. e. a. s., þar er um að ræða breyt., sem samþ. var 1932, á núgildandi fátækral. Þessi breyt. er nú tekin hér inn og haldið sömu reglu um kostnað greiddan frá ríkissjóði eins og þar er gert, að öðru leyti en því, að hér er landinu skipt í tvö jöfnunarsvæði, þar sem allir kaupstaðir og stærri kauptún eru í öðrum flokknum, en allar sveitir með smærri kauptúnunum í hinum. Þessi till. byggist á því, að fátækraframfærslukostnaður er miklu líkari í þessum kaupstöðum og kauptúnum heldur en í kaupstöðum og sveitum og líka á hinu, að svo erfiðlega gengur að safna skýrslum um framfærslukostnað eins og gert er hér ráð fyrir, að ennþá eru ekki komnar til hagstofunnar nærri allar skýrslur af landinu um þetta frá árinu 1934, þó að nú sé komið langt fram í október 1935. Þessar tvær aðalröksemdir liggja til grundvallar fyrir því, að við leggjum hér til, að landinu sé skipt í tvö jöfnunarsvæði í þessu sambandi. Annars vil ég vísa til aths. um 71. og 72. gr., þar sem sýndur er nákvæmur útreikningur á þessari skiptingu.

Ég vil geta þess hér, að mörgum mun finnast, að í þetta frv. vanti mjög nauðsynleg ákvæði um það, hvernig fara skuli með þær framfærsluskuldir, sem verða í milli sveitarfélaga og verða ókláraðar, þegar frv. þetta verður að l. Því er til að svara, að við höfðum kafla um þetta í frv. En ráðh. taldi réttara, að sá kafli yrði felldur úr frv. þessu, en e. t. v. tekinn í annað frv. sem breyt. á l. um fjárþröng sveitarfélaga, sem til eru frá 1933, og má vera, að sá kafli eigi eins vel heima í þeim l. og hér. Mun þetta atriði koma til athugunar við umr. um þetta mál.

Um það, hvaða l. eru úr gildi felld með þessum l., þarf ekki að hafa nein orð.

Ég get nú búizt við, að sumum muni finnast vansmíði á þessu frv., og er það að vonum, en þá er vitanlega leið að bæta úr því með viturlegum till. við meðferð málsins.

Við höfum reynt að taka tillit til allra þeirra óska, sem fram hafa komið í sambandi við þessi mál, og reynt að samræma í þeim tilfellum, þar sem ósamræmið er mest, eins og t. d. viðvíkjandi framfærslu barna. Rétthæstar af öllum konum, með tilliti til framfærslu barna þeirra, eru nú ógiftar konur. Það er í því tilliti betra fyrir þær að hafa átt barn í lausaleik heldur en í hjónabandi og þurfa að annast börn eftir látinn eiginmann eða eftir að hafa á annan hátt misst fyrirvinnu. Við höfum reynt að samræma þetta og gera jöfnuð á rétti ógiftra kvenna, ekkna og fráskildra kvenna í þessu sambandi. við höfum ennfremur reynt að binda stjórn fátækramála fastar en nú er gert, og má segja, að þær till. hefðu átt að vera víðtækari. En þetta er í fyrsta skipti, sem reynt er að binda þetta með ákveðum reglum í fátækralöggjöf, og því töldum við réttara að fara ekki lengra inn á þá braut en að leggja drög að því á þann hátt, sem hér eru gerðar till. um.

Með þessu frv. er lagt til, að fátækraflutningur svo kallaður falli úr sögunni, nefnilega að hvert hérað framfæri þá menn, sem þar eru og ekki eiga kröfu á neitt annað sveitarfélag.

Sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um frv. að svo komnu, en vil vænta þess, að því verði vísað til allshn.umr. lokinni.

Að síðustu vill ég segja það, að ég treysti hv. þm. til að athuga vel þetta mál með það fyrir augum að vinna að því, að löggjöf verði sett um fátækramálin, sem verði breyt. til batnaðar og geti nægt talsvert fram í tímann.