10.12.1935
Sameinað þing: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1936

Jón Pálmason:

Hv. frsm. I. kafla fjárl. veik í ræðu sinni í gær nokkrum orðum að brtt., sem ég á við fjárlfrv. Fór svo, og ekki að ólíkindum eftir afstöðu hans á síðasta þingi, að hann lagðist gegn henni. Kjördæmi það, sem ég er fulltrúi fyrir, var það eina á landinu, sem síðasta þing veitti ekkert fé til vegabóta. Hv. n. hefir nú tekið hér upp 6 þús. kr., sem ekki fer þó allt til þessa héraðs. Samanburður sá, sem hv. frsm. gerði á þessu héraði og sínu, Suður-Múlasýslu, leiddi ekki greinilega í ljós, hve mikið fé er veitt til þess héraðs, en það er 29 þús. kr., á móti 6 þus. En vegur sá, sem þar um ræðir, vatnsskarðsvegur, á að vera lagður fyrir allt Norðausturland, austan Húnavatnssýslu, þar með Norður- og Suður-Múlasýslu, og er því ófært að leggja ekki meira fram til hans.

Ég hefði ekki talið það óviðfelldið, svo sem nú er háttað hag ríkissjóðs, að minna fé hefði verið varið til vegagerðin þetta árið. En að skipting fjárins sé í slíkri mótsögn við grundvallarreglur þær, sem fjvn. hefir sjálf lagt í þessu efni, get ég ekki talið eðlilegt.

Ég get ekki annað en minnzt á hina brtt. hv. n. við fjárlfrv. Það er 57. brtt., um að fella niður þær 15 þús. kr., sem í frv. hæstv. stj. er gert ráð fyrir, að veittar verði til sjúkrahúsa á landinu. Hv. n. segir ef til vill, að þetta sé fram borið í sparnaðarskyni. En að þessu er enginn sparnaður, því að rekstur sjúkrahúsana verður auðvitað að halda áfram með sama sniði og verið hefir, en þetta verður einungis til að auka gjöld sýslusjóðanna. Fyrir Alþingi hafa legið till., sem gengið hafa í þá átt að bæta hag sveitar- og bæjarfélaga. Hefir verið lagt til að lækka nokkuð gjöld sýslusjóðanna í sambandi við berklavarnirnar, en það hefir ekki náð fram að ganga, af því að ekki hefir þótt fært að bæta þeim gjöldum á ríkið. En þessi till. vill nú þar að auk svipta bæjar- og sveitarsjóði þeim peningum, sem þeir hafa fengið frá ríkinu, en frv. sem nú er víða tekjuhalli hjá bæjar- og sveitarfélögum, en þetta mundi auka mjög kostnað þeirra af berklavörnum, skora ég á hv. d. að fella till.