23.10.1935
Neðri deild: 55. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

133. mál, framfærslulög

Hannes Jónsson:

Ég hefi því miður ekki haft tækifæri til að athuga þetta mál sem skyldi. En af því að ég hefi ekki tækifæri til að fylgja málinu í n., vildi ég drepa á örfá atriði, sem ég við fljótan yfirlestur hefi rekið mig á og mér skilst, að ætti að athugast nánar í n. Vil ég þá vænta þess, að hv. allshn. taki þau til yfirvegunar.

Ég tek þessi atriði í sömu röð og ég hefi rekizt á þau.

Fyrst er þá ákvæði 20. gr., um það, ef þurfalingur flyzt frá útlöndum hingað heim og honum þarf að ráðstafa sem slíkum hér heima. Mér skilst eftir ákvæðum 20. gr., að slíkur þurfalingur eigi að eiga rétt á að kjósa sér framfærslusveit. Í því mikla atvinnuleysi, sem nú er, virtist mér, að það gæti verið allmjög freistandi í slíkum tilfellum fyrir mann að nota sér það í hagnaðarskyni að ganga á milli sveitarstjórna og gera þeim tilboð um, hvað þær vilji greiða, til þess að losna við, að sveit þeirra verði framfærslusveit slíks þurfalings, og að annar hreppur verði kosinn til þess. Já, hv. 1. flm. hristir höfuðið. En ég óska að fá skýringu á því, hvar réttur þessara manna er bundinn í þessu sambandi. Mér skilst, eftir ákvæðum gr., að hann sé óbundinn og slíkir menn hafi leyfi til að kjósa sér, hvaða sveit sem vera skal að framfærslusveit. Og þá virðist mér þetta liggja opið fyrir slíkum þurfamanni, ef hann er fjármálamaður (eins og hv. flm. frv.), að athuga, hvort hann geti ekki haft eitthvað upp úr þessu. Hér virðist, að þurfi að vera fastar reglur, sem farið væri eftir, um það, hvaða hreppur eða kaupstaður eigi að taka við til framfærslu slíkum manni, sem frá útlöndum kemur og talað er um í 20. gr. frv., svo sem t. d. sá hreppur, sem hann síðast átti heima í, áður en hann flutti héðan af landi burt.

Þá vil ég minnast lítilsháttar á 27. gr. þessa frv., sem gerir ráð fyrir framfærslumálastjóra, er skuli vera sveitar- og bæjarstjórnum til að stoðar, með tilheyrandi launum og skrifstofufé.

Ég lít svo á, að starf hans sé ekki víðtækara eða erfiðara heldur en þau störf, sem hingað til hafa verið innt af hendi í sambandi við starfsemi stjórnarráðsins, og ætti það fyrirkomulag að geta haldizt áfram eins og hingað til. Í sambandi við ákvæði 39. og 40. gr. vil ég taka það fram, að ég tel, að það geti verið óhagkvæmt, ef í öllum tilfellum ætti að skylda framfærslusveit til þess að leggja þurfalingum styrk heima á heimilum þeirra. Það gæti t. d. vel verið um einhleypan mann að ræða, sem öllum málsaðilum kæmi bezt, að tekinn væri burt af heimilinu og komið fyrir einhversstaðar, eins og öðrum, sem heimilisþarfir hafa, en geta ekki fullnægt þeim án hjálpar framfærslusveitarinnar. Þetta er að vísu ekki stórvægilegt atriði, en samt er það þess vert, að það sé ath.

Þá kem ég að því atriði, sem er ef til vill þýðingarmest, en það er ákvæði 8. kafla, 72. gr. Það er um framfærslujöfnunargjald milli framfærslusveita. Ég veit nú ekki, hvort ég hef skilið ákvæði 72. gr. rétt, en mér skilst, að lágmarksframfærslukostnaður allra sveita sé ákveðinn með þessu ákvæði frv., sem sé meðaltalsframfærslukostnaður sveitanna. Er það ekki rétt? Eða ber kannske að skilja þetta ákvæði svo, að hér sé aðeins átt við þau sveitarfélög, sem komin eru í meðallag eða þar yfir? (JG: Já, þetta á aðeins við þau, sem komin eru yfir meðaltal framfærslukostnaðar). Orðalag frvgr. er ekki nógu ljóst. Mér finnst vera hægt að skilja ákv. gr. þannig, að þau sveitarfélög, sem komast af með minni framfærslukostnað en megaltalskostnað, yrðu látin greiða það, sem í vantaði, og því varið ásamt ríkissjóðsframlaginu til jöfnunar á framfærslukostnaði annara sveitarfélaga.

Ég vil geta þess, að ég tel rétta þá leið, sem farin er í þessu frv., sem sé að greina framfærslukostnað kaupstaða frá framfærslukostnaði sveita og reikna meðaltalið út í tvennu lagi. Að lokum vil ég taka það fram, að ég mun reyna að leita samvinnu við hv. nefndarmenn um orðabreytingar og ef til vill efnisbreytingar í þessu frv., sérstaklega ákvæðum 20. gr., sem ég tel allvarhugaverða, enda þótt það sé ef til vill ekki mjög þýðingarmikið atriði.