23.10.1935
Neðri deild: 55. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

133. mál, framfærslulög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Í 72. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram fé til hluta af framfærslukostnaði þeirra sveitarfélaga, sem hafa fram yfir meðaltalsframfærslukostnað. Ég vil beina því til n., sem fær þetta mál til athugunar, hvort ekki væri rétt að setja hámarksupphæð í þessa gr., hámarksupphæð, sem ríkissjóður leggur fram. Það er nauðsynlegt, að horfið sé að því ráði, ekki aðeins í þessu tilfelli, heldur einnig í öllum, að binda þarfir ríkisins við hámarksupphæð. Í þessu tilfelli er það mjög vel framkvæmanlegt. Þótt ákvæði um þessa hámarksupphæð væri sett inn í frv., þá þarf það ekki að koma í bága við neitt annað, því að sveitarfélögin geta aldrei reiknað út fyrir fram, hvort sem er, hve mikið þau fá. Það fer eftir fátækraframfærinu í öðrum héruðum landsins: Þetta brýtur því alls ekki í bága við það, sem ætlazt er til, að náð sé með þessu frv. Hver hámarksupphæðin ætti að vera, skal ég ekki um segja. En það má athuga, hvað framlag ríkissjóðs hefir verið mikið undanfarið. Það er 200000 kr. á yfirstandandi ári. Ég vil því eindregið beina því til n., að hámarksupphæð verði sett.