10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

133. mál, framfærslulög

Hannes Jónsson:

Ég sé, að þær aths., sem ég gerði við 1. umr. þessa máls, eru að sumu leyti teknar til greina í brtt. á þskj. 740, en sumar hafa fallið niður. Það voru tvö atriði, sem ég nefndi um orðabreyt. á 72. gr. til að færa það í gleggra og ákveðnara horf. En það, sem hér skiptir mestu máli, er, hvernig hagað verður greiðslum ríkissj. til jöfnunar framfærslukostn. Eftir að hafa athugað málið allrækilega, hefi ég komizt að þeirri niðurstöðu, að sú aðferð að miða endurgreiðsluna við meðaltalsframfærslu 10% er ekki rétt, en getur skapað misræmi, ef farið er niður fyrir meðalframfærslukostnað, Ég mun því, ef n. ekki gerir breyt. á þessu fyrir 3. umr., bera fram ákveðna brtt. í þá átt. Mér er það ljóst, að með því yrði nokkuð þyngt á sveitarfélögunum frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Um þetta atriði má segja það sama og um það að létta þessum skyldum algerlega af sveitarfélögunum og leggja þær á ríkið, að sá hagnaður sveitafélaganna myndi verða mestur á pappírnum og koma fram í margfalt auknum útgjöldum til ríkissjóðs. Þetta ákvæði frv. gengur í sömu átt og veikir aðstöðu sveitarfélaganna til þess að halda í þann eina hemil, sem þau geta haft á óhóflegri aukningu fátækraframfærslunnar. Það má lengi deila um, hvort lækka skuli um 10% eða t. d. eitthvað minna. En þegar komið er niður fyrir meðaltal, er allt orðið laust í þessu efni, og seinni kröfur um frekari hækkun geta haft sömu stöð og þessi ákvæði og því hæpið að fara niður fyrir meðaltal, og ég tel, að það sé beinlínis hættulegt og muni valda lausung á þessum málum í framtíðinni, jafnvel þótt það væri að einhverju leyti til hjálpar, en það á þá að fara aðrar leiðir til hjálpar sveitarfélögunum til að ná sama marki.

Þá vil ég vekja athygli hv. þd. á því og óska, að n. athugi það líka, ef hún hefir ekki athugað það áður, hver áhrif það hefir að skipta landinu í tvo framfærsluflokka, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég held, að ég hafi við umræðu um þetta mál spurt, hvort ekki væri ástæða til að skipta landinu í tvo framfærslufl., og hv. þm. Hafnf. hafi svarað því, að hann hefði athugað það og fundizt annmarkar á því. Nú hefi ég athugað þetta mál og komizt að svipaðri niðurstöðu, og hefi ef til vill orðið ákveðnari í því vegna þess, að kauptúnin eru tekin út úr og sett með kaupstöðunum. Það verður að athuga það, að þessi litlu kauptún með 500 íbúa hafa enga þá sérstöðu í atvinnurekstri, sem hægt sé að leggja til jafns við aðstöðu kaupstaðanna. Ef eitthvað á að taka út úr, því verður að setja takmarkið hærra en gert er, til þess að ekki komi meira í álögur á ýms sveitarfélög. Annars játa ég það, að við nánari athugun hefi ég ekki fundið, að það skipti nokkru máli, hvort landið er í einum framfærsluflokki eða tveimur eða þó öllu heldur þremur, þar sem Rvík er sérstakur flokkur. Á bæjunum munar þetta sáralitlu. Munurinn verður mestur í Rvík, ef landið er einn framfærsluflokkur, og verður Rvík þá tæpum 37 þúsund krónum hærri í meðaltals framfærslukostnaði. Hafnarfjörður yrði um 550 krónum lægri. Ísafjörður rúmlega 200 krónum lægri, Akureyri nokkuð yfir 500 kr. hærri, Siglufjörður 200 kr. lægri, Seyðisfjörður um 100 krónum lægri, Neskaupstaður um 500 kr. og Vestmannaeyjar tæpum 1900 kr. lægri, og munar þar einna mestu, en munar þó svo sáralitlu, að ég sé ekki, hvað unnið er frá ástandinu 1933, og af því að breyt., sem verða í þyngslum framfæris hjá einstökum sveitarfélögum, verða ekki sagðar svona fyrirfram, og ég held, að n. hafi ekki getað byggt á neinum tölum, sem víkja frá því, sem var á árinu 1933, þá fæ ég ekki séð, að hún hafi haft neinn verulegan grundvöll til að byggja á till. sínar. Ég vil vænta þess, að hv. allshn. athugi nákvæmlega, hvort ástæða er til að skipta landinu í 2 framfærsluflokka, og ef ástæða þykir til þess, hvort þá væri ekki ástæða til að breyta um kauptúnin og láta þau fylgja með sveitarfélögunum.

Að lokum vil ég taka það fram, að ég hefi viljað styðja álit mitt í þessu máli við þetta frv. og þá skýrslu, sem fylgir, en það er örðugt að gera, því skýrslan er ekki rétt og sýnir því rangar niðurstöður, sem svo er byggt á í útreikningnum. Tölur eru nauðsynlegar í rökstuðningi margra mála, en þá verður líka vel að vanda til allra heimilda, því annars verður niðurstaðan röng og allur málflutningur villandi. Mér hefði fundizt ástæða til, að hv. allshn. hefði tekið til athugunar, hvort ekki væri rétt að láta reikna skýrsluna upp, því það eru sjáanlegar villur í henni. Ég get nefnt til dæmis, að Innri-Akraneshreppur fékk samkvæmt því, sem þar segir, greitt úr ríkissjóði 705 kr., en sagt, að samkvæmt frv. hefði það orðið 21 króna. Það er nú aukaatriði, að ef það hefði ekki verið meira en 21 kr., þá hefði það aldrei verið greitt, því minni upphæð en hundrað kr. eiga aldrei að greiðast neinu bæjar- eða sveitarfélagi, hitt er aðalatriðið, að greiðsla þessi hefði orðið á annað þúsund kr. samkv. þeirri reglu, sem hér á að gilda, en svo er þessi hringavitlausa niðurstöðutala tekin sem góð og gild og byggt á henni, og er þá ekki von á öðru en byggingin verði nokkuð völt. Ég hefi rekið mig á fleiri villur, en ekki haft tíma til að taka þær upp, en það eru hér villur svo, að munar á sumum liðum hundruðum og jafnvel þúsundum á hverjum einstökum lið.

Ég skal láta þetta nægja, en ég vonast eftir, að hr. allshn. haldi fund um málið og taki ákvörðun um brtt., sem komnar eru og koma fram, og vildi ég þá geta komið að upplýsingum um þetta atriði, ef hv. n. gæti fallizt á það, sem ég hefi fram að færa og á fullum rökum er reist. Ég ætla ekki nú að þylja upp þær tölur, sem fram hafa komið við athugun mína á þessum atriðum. Það mundi lengja þessa umræðu að mun. Það er líka tími til að tala nánar um þessi atriði við 3. umr., og þá mun ég flytja brtt. við þessi ákvæði frv., ef þær verða ekki teknar upp af hv. allshn.