10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

133. mál, framfærslulög

Jónas Guðmundsson [óyfirl]:

Ég hafði ætlað mér að fara ýtarlega inn á þær brtt., sem eru á þskj. 740, en nú hefir því verið lýst yfir, að þær verði teknar aftur til 3. umr„ og því hefir sömuleiðis verið lýst yfir um þær brtt., sem bornar eru fram af hv. meiri hl. allshn. og eru hér í þskj. 748, og er þá verkefni þessarar umr. að mestu lokið. Því vitanlega ber að ræða einstaka liði frv. við sömu umræðu og þeir koma til atkv. En þetta verður þá einskonar 1. umr. um málið og vil ég þá minnast á nokkur atriði málsins almennt. Vil ég þá fyrst víkja nokkrum orðum að þeirri till. á þskj. 740, sem er um að fella niður kaflann um stjórn framfærslumálanna eins og hann er í frv., en setja í þess stað að atvmrh. hafi alla yfirstjórn framfærslumálanna í landinu. Þessi kafli hefir aðallega tvær hliðar. Önnur er sú fjárhagslega, sem að hreppum og ríki snýr, og hin er sú framkvæmdarlega, sem veit að þeim, sem styrkinn eiga að fá, og í allri þeirri sóciallöggjöf, sem ég þekki, og er aðallega löggjöf Norðurlanda, þar er fyrrnefnda atriðið að litlu haft, en hlutar þeirra manna, sem styrk eiga að fá, er gætt eins vel og unnt er, - það eru þessar tvær hliðar: Annars vegar fjárhagur bæjar- og sveitarfélaga og hins vegar hagur þeirra, sem styrks eiga að njóta.

Eins og ákveðið er um yfirstjórn framfærslumálanna í frv., fellur það meira inn í kerfið, heldur en eins og ætlazt er til í brtt., og einmitt að því miðar þessi kafli. Ég gæti samt vel fallizt á, að þetta mætti fella niður á frumstigi málsins og setja í þess stað, að atvmrh. hafi stjórn allra framfærslumála. Vitanlega getur ráðh. látið einhvern starfsmanna í ráðuneytinu annast þessi mál. Eins og nú er, hefir einn fulltrúinn aðallega þessi mál með höndum.

Hitt er aftur rangt að fella burtu framfærslunefndirnar í kaupstöðunum. Víða í kaupstöðum eru störf þessi umfangsmikil, og bæjarfulltrúar hafa auk þess öðrum tímafrekum störfum að sinna, og er þá ekki nema sanngjarnt, að störfunum sé skipt.

Ég legg því algerlega á móti því að fella þennan kafla niður eða breyta í honum öðrum atriðum en því, sem snýr að ráðuneytinu.

Um aðrar till., ákvæði til bráðabirgða, ógreiddar skuldir o. s. frv. mun ég ekki tala fyrr en við 3. umr.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði um meðaltalsjöfnuðinn og um skýrslu þá, sem frv. fylgir, og taldi hana ranga og benti réttilega á eitt atriði, sem þar er farið rangt með. Þessa skýrslu hefir hagstofan gert, og er það sú skýrsla, sem gerð hefir verið fyrir ráðuneytið og hrepparnir hafa fengið greitt eftir. Síðasti dálkurinn er gerður fyrir tilmæli frá n., og þó svo að skakki á útreikningi á einhverjum af þessum liðum skýrslunnar, n. hefir ekki reiknað hana út, það var gert hér á hagstofunni, þá virðist mér eftir lítilsháttar athugun, að skýrslan í heild sé mjög nálægt því að vera rétt. Þessu til sönnunar má nefna það, að ráðuneytið hefir nú látið hagstofuna reikna út skiptingu framfærslutillagsins eins og hún hefði orðið á árinu 1936, ef fátækraframfærið hefði verið flutt af þeim hreppum, þar sem það er talið, og á þá stað, þar sem það raunverulega hefir farið fram. Eftir þeirri skýrslu, sem nú liggur fyrir, hefði ríkissjóðstillagið þá orðið 232 þúsund kr. samtals á öllu landinu, en eftir þeirri skýrslu, sem þessu frv. fylgir, er talið, að það hefði orðið 253 þúsund, svo þetta munar 20 þúsund kr., en þessi munur stafar af því, að í þessum útreikningi hefir ráðuneytið látið færa þau framlög, sem talin eru greidd í einstökum hreppum, burtu þaðan og í kaupstaðina, þar sem þau eru raunverulega greidd. Ég skal ekki fara út í skiptinguna í tvo framfærsluflokka fyrr en við 3. umr. Það er í raun og veru breyt. á tilhögun, og mun það vera rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að þegar miðað er við það, sem gefið er upp í skýrslunni, þá er breytingin lítil, en þar er framfærslugjald hreppanna reiknað eftir því, sem það er talið, en ekki eftir því, hvar það raunverulega er greitt.

Um brtt. á orðalagi einstakra gr. er það að segja, að bæði ég og aðrir nm. munu verða þeim þakklátir, ef þar er komið með fyllra orðalag til þess að girða fyrir misskilning.

Ég skal svo ekki tala meira um málið nú, en áskil mér rétt til að tala um hverja einstaka till. við 3. umr.