16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

133. mál, framfærslulög

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég var fyrr búinn að skýra að nokkru þær brtt., sem ég og fleiri hv. þm. hafa borið fram á þskj. 740. Síðan hefir það gerzt í þessu máli, eins og hv. frsm. kom inn á, að samkomulag hefir orðið milli nokkurra þm. úr öllum flokkum, að minnsta kosti að miklu leyti. - Ég skal fara nokkrum orðum um þetta, en skal reyna að vera stuttorður. - Fyrsta brtt. er tekin aftur, með því að höfuðatriði samkomulagsins er það, að hún falli burt. Það varð samkomulag um það, að framfærslustjóraembættið, sem ætlazt var til, að sett yrði á stofn við hlið stjórnarráðsins, yrði ekki stofnað. Þar af leiðandi eru allar gr., sem fjalla um framfærslunefnd, teknar aftur, og er fyrsta brtt. sú fyrsta af þeim. -2., 3. og 4. brtt. eru látnar halda sér, og er samkomulag um þær, svo að ég tel ekki mikla þörf á að skýra þær. Þær skýra sig nokkurnveginn sjálfar. Skal ég þó fara aðeins fáum orðum um þær. 2. brtt. við 7. gr. ætlast til þess, að þegar framfærslumaður vill ekki taka á heimili sitt framfærslu þurfa eða hann skorast undan því þá verði færð fyrir því rök, hversvegna hann færist undan því, og séu þau fullnægjandi, þá sé hann laus allra mála. Það er sjálfsagt að hafa þetta, til þess að menn geri sér ekki leik að því að skorast undan að taka mann á heimili. Um þetta atriði var samkomulag. - 3. brtt. er við 8. gr. og er um það, að viðkomandi yfirvald felli úrskurð í þessum málum eins og verið hefir og svo megi skjóta þeim úrskurði til atvmrh. Er þá öllu borgið með því, en gr. eins og hún er í frv., gerir ráð fyrir nokkru öðru, sem sé að sveitarstjórn sé ein látin ráða, hvort maður sé fær um að greiða meðlag. - Í 4. brtt. við 9. gr. er fært í réttara horf, eins og er í löggjöfinni. Þar er ákvæði um, að yfirvald skuli kveða upp úrskurð, þar sem framfærsluþurfi dvelur eða á heima, en þar sem þetta er gegn öllum venjum og það er algild regla, að úrskurður skuli upp kveðinn, þar sem framfærslumaður á heima, þá er þetta með brtt. fært aftur í hið forna horf, og virðist þá síðari málsl. gr. óþarfur, enda hafa höfundar frv. nú fallið frá þessu. - Þá er 5. brtt. við 12. gr. Um hana hefir orðið samkomulag á þann hátt, að sérstökum málsl. verði bætt aftan við 12. gr., er kveði á um lögheimili manna. Það vantar í sjálfu sér alveg inn í löggjöfina skýr ákvæði um það, og er með þessu gerð tilraun til þess. Mér finnst, að það, sem felst í þessari brtt., megi notast við sem skilgreiningu í þessu efni, og hún vera í samræmi við kröfur nútímans. Það hefir hingað til verið talið lögheimili manns, þar sem hann hefir átt heima árið um kring. Í raun og veru tel ég, að það mætti eftir ástæðum telja missirisheimili lögheimili manns, þar sem nú er svo mikið los á þjóðinni, þar sem menn hafa atvinnu hér og þar. Ég tel, að það megi kalla manninn heimilisfastan þar, sem hann er missirislangt, en það verður að vera ekki aðeins á manntali, heldur verður að vera upplýst, að hann sé þar gjaldandi, hvort sem hann hefir greitt gjaldið eða ekki. Þegar þetta hvorttveggja fer saman, þá verður ekki að mínu áliti komizt lengra í stuttu máli. Einhverntíma verða væntanlega sett l. um það, hvar sé lögheimili manns, því að nú, þegar löggjöfin miðar við það, þá er æfinlega undir úrskurði dómara komið, hvar er lögheimili manns í þessu eða hinu tilfellinu. - Um 6. brtt. við 13. gr., er samkomulag. Það er aðeins tilflutningur til þess að ná betur því, sem til er ætlazt. - Um 7. brtt. við 20. gr. er stefnumunur og því ekki fullt samkomulag um hana. Ég tel ógerlegt að halda ákvæðinu eins og það er í 20. gr., að maður, sem kemur frá útlöndum og er íslenzkur ríkisborgari, megi þá kjósa sér, hvaða framfærslusveit, er hann vill. Það eru fríðindi, sem engir aðrir hafa, ég sé ekki ástæðu til annars en að miða við eitthvað, sem var, þegar maðurinn fluttist til útlanda, og það, sem þá liggur næst, er að ákveða, að harm eigi þar framfærslusveit, sem hann síðast átti lögheimili. Nú getur að vísu komið til mála, að það sé barn eða börn ríkisborgara, sem ekki hafa verið hér á landi áður, en flutt til landsins, þá finnst mér þó samt eðlilegast að miða við þetta og ákveða þeim framfærslusveit, þar sem foreldrar þeirra ættu síðast lögheimili. Það mætti e. t. v. bæta því inn í: „þar sem foreldrar hans áttu síðast lögheimili“. - 8. brtt. er tekin aftur. - 9. brtt., það er held ég aðeins a-liður, sem verður þá brtt. við 27. gr., b og c-liðir eru teknir aftur. - 10. brtt. er og tekin aftur - Um 13.-17 brtt. er samkomulag. Þær eru allar aðeins lagfæring, til þess að þær nái betur tilgangi sínum eða til betra máls, sem enginn hefir neitt á móti. Það virðist nauðsyn, ef meiningin á að ná fullum tilgangi, þá þurfi þessara lagfæringa við.

Ég skal geta þess, að í 50. gr. er nýmæli í frv., þar sem talað er um „venjulegt kaupgjald“, en í brtt. er tekið fram, að það eigi að vera kaupgjald á þeim stag, sem unnið er á, því að hitt hljóta menn að sjá, að er ófært, að hrepparnir hér og þar greiði eftir öðrum taxta en þeim, sem gildir á þeim stað. - 18. brtt. er tekin aftur og sömuleiðis 19. brtt., en 20. brtt. er látin halda sér. - Þá er í 21. og 23. brtt. að vissu leyti breyting á skattalögunum, sem varðar það tímatakmark, er sýslumenn eða yfirskattanefndir eiga að vera búnar að skila frá sér fullnaðar skattaskrám. Þessar brtt. eru sjálfsagðar, því reynslan hefir sýnt, að það tímatakmark, sem sett er í lögunum frá 1932, er ekki rétt, því ekki hefir reynzt fært að skila skattaskránum fyrir þann tiltekna tíma. - 22. brtt. er aftur á móti framkomin aðeins til að betra málið. - 24. brtt. býst ég við, að við tökum aftur, þar sem gera má ráð fyrir, að efni hennar leysist á annan hátt, nefnilega með frv. því um breytingar á kreppulögunum, sem ráðandi flokkar þingsins hafa ákveðið, að verða skuli að lögum, en í því er gert ráð fyrir kreppuhjálp til þess að létta skuldir sveitar- og bæjarfélaga. - Um 25. brtt. er samkomulag. Það er sjálfsagt atriði, að ákvæði laganna komi til framkvæmda þegar í stað gagnvart öllum, sem á sveitarframfæri eru. Viðvíkjandi ákvæði í þessari brtt. um það, að 78. gr. verði 71., og sömuleiðis viðvíkjandi öðrum ákvæðum í þessum brtt. um að tala greina lækki og að greinatala breytist vegna niðurfellinga greina í frv., vil ég geta þess, að þau eru tekin aftur, þar sem samkomulag er orðið um að engar gr. verði felldar úr frv. - Um 26. brtt., við ákvæði til bráðabirgða, er aftur á móti ekkert samkomulag. Hafa nefndarmenn óbundin atkv. um byggðaleyfin. Má segja, að ýmislegt mæli bæði með og móti þeim ákvæðum. Ýmis bæjar- og sveitarfélög munu vilja hafa þau ákvæði til þess að geta sett skorður við óeðlilegu aðstreymi fólks. - (Forseti: Ég held það væri æskilegt, ef hv. þdm. vildu flytja sig með aukafundi sína út úr d.). Ég treysti mér til að tala upp fyrir þá alla. - Aftur eru það aðrir, sem ekki er neinn akkur í því að halda í þessi ákvæði, nema þá ef það væri til þess, að þau misstu ekki sinn vinnukraft, og er það nýtt viðhorf, sem nokkurt álitamál getur verið um, hvað rétt er. Brtt. þessi er fram borin til þess, að hv. þdm. geti átt kost á að greiða atkv. um þetta spursmál, sem sumir eru með en aðrir á móti. Ég hefi svo ekki fleira að segja um þessar brtt. né heldur brtt. á þskj. 827, þar sem ég er einn af flutningsmönnunum, því um þar er fullt samkomulag. Um brtt. einstakra hv. þdm. skal ég ekki ræða að sinni, ég er ýmist með þeim eða móti, aðeins vil ég geta þess út af 1. brtt. þskj. 789, við 22. gr. frv., sem flutt er af meiri hluta allshn., að ég sé ekki annað en hún sé óþörf. Ég tel það nægilegt, að hreppsnefnd leggi dóm á það, hvort ekkja sé einfær um framfærslu og uppeldi barna sinna. Ég álít það ekki rétt að setja þetta vald í hendur Pétri eða Páli og með því gengið fram hjá hreppsnefndunum. Sömuleiðis er ég á móti 2. og 3. brtt. á sama þskj. um að fella niður 26., og 61. gr. frv., sem fela það í sér, að þegar kona giftist, sem fengið hefir meðlag með óskilgetnu barni sínu frá framfærslusveit látins barnsföður, þá skuli meðlagsskyldan falla niður. Þessar brtt. miða óbeinlínis að því, að konan fái meðlagið eftir sem áður, þótt hún giftist, þó vafasamt verði að telja, að stjórnarráðið úrskurði framfærslusveit látins barnsföður til þess að greiða meðlagið, eftir að konan er öðrum gift, því vitanlega er það ekki rétt, að sá dauði haldi áfram að greiða meðlag undir slíkum kringumstæðum, heldur sá lifandi matur, sem giftist konunni. Hitt væri riftun og röskun á gildandi lögum og þeim skilningi, sem ríkt hefir í þessum efnum. Hér er ekki heldur um neitt mannúðarmál að ræða, því vel getur í hlut átt fátækur hreppur annarsvegar, en efnaður maður, sem konan giftist, hins vegar. Hvernig sem litið er á þessar brtt., er ekki hægt að sjá, að hér sé nokkurt mannúðarmál á ferðinni.

Brtt. 790., get ég látið liggja milli hluta, en er mótfallinn 2. lið á sama þskj., sem fjallar um það, að miða gildistöku laganna við gildistöku annara laga, sem komin eru mikið styttra áleiðis, en það er frv. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Nú skal ég taka það fram, að því máli er ég að vísu fylgjandi, en nú liggur ekki við borð, að það mál verði lögleitt á þessu þingi. Sú löggjöf er líka alveg sjálfstæð, eins og tekið hefir verið fram af hv. 6. landsk., og á hún ekkert skylt við framfærslulöggjöfina. Það er því aðeins til þess að gera glundroða í málið í síðustu stundu, að fara að bendla það við önnur óskyld mál, og viljum við, sem teljum framfærslulögin mikið nauðsynjamál, ekki fallast á það.