16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

133. mál, framfærslulög

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Ég skal ekki eyða löngum tíma í að ræða þetta mál. En út af brtt. á þskj. 790 vil ég taka það fram, að ég tel óverjandi að binda gildistöku þessara l. við önnur l., sem ekki eru líkur til, að samþ. verði í þessu þingi, þar sem mjög er brýn þörfin á þeim réttarbótum, sem hér er um að ræða.

Í öðru lagi vil ég víkja lítils háttar að deiluatriði, sem mjög hefir verið rætt og verður að teljast eitt af meginatriðum þessa máls, sem sé það, hvernig haga skuli jöfnun styrksins frá ríkissjóði. L. þau, sem samþ. voru hér um jöfnun þessa, voru spor í rétta átt, en hvergi nærri fullnægjandi. Það munar miklu, hvort svo langt er gengið að miða við 15% yfir meðaltali eða 10% undir meðaltali. Ég tel því, að ekki myndi vera fjarri lagi það, sem lagt er til í brtt. hv. þm. V.-Húnv. á þskj. 815. Eru allar líkur til, að sú upphæð dugi, sem þar er farið fram á. Þá tel ég og óeðlilegt að taka Reykjavík út úr í þessu efni, og vil ég, að hún sé látin sæta sömu kjörum og aðrir kaupstaðir. Ég mæli því með, að þessi brtt. verði samþ.

Vænti ég þess svo, að þetta mál fái fljóta og greiða afgreiðslu hér á þingi og að ekki sé verið að leiða það neinar krókaleiðir, eins og auðsjáanlega er tilgangurinn með brtt. á þskj. 790.