16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

133. mál, framfærslulög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Brtt. 5 þskj. 826 um skipun framfærslunefndar, sem við hv. 1. landsk. höfum borið fram, þarf ekki meðmæla við, því henni hefir verið tekið svo vel af öllum hv. þm., sem á hana hafa minnzt, enda er augljóst, að óheppilegt getur verið að skipa menn í n. eftir því, sem gert er í frv. Er hægt að færa rök að því, að engin trygging er fyrir, að þeir menn, sem kosnir eru formenn barnaverndarráðs og eru prýðilega til þess fallnir séu heppilegir til þess að stjórna almennum framfærslumálum. Býst ég við, að ekki sé vafi á því, að brtt. verði samþ. Get ég fallizt á brtt. hv. þm. Ísaf. um, að framfærslun. sé skipuð 3-5 mönnum eftir ástæðum. Geri ég einnig ráð fyrir, að hún verði samþ.

Ég skal svo ekki blanda mér mikið í málið í heild, en aðeins benda á, að það er auðsætt, að með þeirri lagabreytingu, sem hér er verið að gera, er þyngdur mjög framfærslukostnaður í Rvík og öðrum kaupstöðum. Það er kunnugt, að síðustu árin hefir verið stöðugur fólksstraumur úr sveitunum til kaupstaðanna, sem hlýtur á erfiðum tímum að auka á vandræði þeirra kaupstaða, sem fyrir því verða, sem ekki er þó ábætandi, eins og nú er. Hinsvegar er að gæta þess ástands, sem nú er, að mjög er erfitt að fá greiddar skuldir, sem sprottnar eru af framfærslu þurfamanna úr öðrum sveitarfélögum. Nálgast þó meir og meir, að á endanum muni allar slíkar greiðslur falla niður, svo þar er ekki úr háum söðli að detta. Hinsvegar er þess að vænta, að samfara þessu frv. komi einnig til framkvæmda ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla. Það er vitanlegt, að kaupstöðunum er nauðsynlegt, að þeim sé á einhvern hátt léttar þær byrðar með lagasetningu. Það er kunnugt, að mörg sveitarfélög eru að gefast upp við að standa undir langvarandi sjúkraframfærslu, t. d. vegna berklaveiki. Frv. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla léttir þessum kostnaði af sveitarfélögunum. Þess vegna vil ég taka í strenginn með þeim hv. þm., sem vilja binda gildistöku þessara laga við gildistöku l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Finnst mér það eðlilegt, þó þetta sé ekki beinlínis bundið hvað öðru, vegna þeirrar röskunar, sem þetta frv. veldur á fjármálum sveitarfélaganna, að eðlilegt sé og sjálfsagt að bæði frv. fylgist að. Ég mun því greiða atkv. með tilliti til þess, og binda það við gildistöku beggja frv.

Ég tel rétt að samþ. brtt. á þskj. 740 frá hv. þm. V.-Sk., hv. þm. Borgf. og hv. 7. landsk. um að heimila bæjar- og sveitarstjórnum að gera ráðstafanir til þess að takmarka aðstreymi fólks og vernda sig þannig fyrir alltof auknum byrðum af fátækraframfærslunni. Tel ég sjálfsagt að samþ. slíka heimild, því væntanlega verður hún ekki notuð, nema nauðsyn krefji. Ég skil ekki, hvers vegna hv. þm. ættu að vera því andvígir, þar sem öllum mun vera fullkunnugt, jafnt fulltrúum kaupstaðanna og sveitanna, að annarsvegar er nauðsyn að vernda kaupstaðina fyrir aðstreymi fólksins vegna atvinnuvandræða og framfærsluþunga og hinsvegar að hindra brottflutning manna úr sveitunum, sem er nú eitt höfuðmál Alþingis að koma í veg fyrir. Einkum vænti ég þess, að þeir hv. þm., sem telja sig málsvara sveitanna, taki till. vel. Eins er um fulltrúa kaupstaðanna, að þeim ætti að vera áhugamál að tryggja íbúunum þá atvinnu, sem til fellur. Vænti ég því, að samkomulag verði um að samþ. þessa till.

Ég vil aðeins geta þess, til þess að minna á, að okkur sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn Rvíkur hefir verið legið á hálsi fyrir það, a8 við hofum látið afskiptalaust þetta takmarkalausa aðstreymi til bæjarins, sem hefir haft í för með sér sívaxandi gjaldabyrði í sambandi við fátækraframfæri og atvinnubætur. Það hefir að vísu verið bent á, að það sé ekki á valdi bæjarstjórnar að hindra slíkt. Það yrði ekki hindrað, nema með löggjöf, sem heimilaði að setja slík takmörk. Vænti ég því þess af hálfu þess flokks, sem sérstaklega hefir legið okkur sjálfstæðismönnum á hálsi fyrir aðgerðarleysi í þessu efni, að hann ljái þessari till. nú fylgi og styðji framgang hennar hér á þingi.

Ég vil, eins og ég sagði áðan, ekki blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram, en mun við atkvgr. skýra mína afstöðu til einstakra till.